Fara á efnissvæði
Frétt

Gleðilega páska

Páskapistill Guðbjargar Pálsdóttur, formanns Fíh.

Kæru hjúkrunarfræðingar.

Á annan í páskum renna út kjarasamningar hjúkrunarfræðinga við ríkið og aðra opinbera aðila. Fram að þessu hefur undirbúningur komandi kjarasamninga aðallega verið viðræður skv. verkáætlun síðasta kjarasamnings varðandi málefni eins og t.d. betri vinnutíma, skoðun bakvakta, veikindakafla, ráðninga í tímavinnu, o.sfrv. Ganga þær viðræður vel en annað samtal er rétt á byrjunarstigi þar sem almenni markaðurinn hefur nýlokið sínum samningum.

Aðrir kjarasamningar binda ekki hendur okkar þó svo að þeir hafi áhrif á okkar samningsumhverfi. Okkar samninganefndir hafa verið í undirbúningi í góðu samstarfi við trúnaðarmannaráð og er markmiðið að ná fram bestu mögulegu niðurstöðu fyrir hjúkrunarfræðinga.

Þann 16. maí næstkomandi verður aðalfundur Fíh haldinn á Grand hóteli, fundurinn hefst kl. 17:00 og hlakka ég til að sjá sem flesta á fundinum. Kjörnefnd auglýsir nú eftir hjúkrunarfræðingum í bæði stjórn félagsins og ritnefnd tímaritsins og er framboðsfrestur til og með 18. apríl næstkomandi. Þetta er gullið tækifæri til að láta að sér kveða í málefnum okkar.

Nú er komið út stórglæsilegt tölublað Tímarits hjúkrunarfræðinga, fyrsta tölublaðið af hundraðasta árganginum og því ber að fagna. Tímaritið hefur breyst gríðarlega eins og gefur að skilja, í dag er það öfund annarra fag- og stéttarfélaga, þar á meðal mun stærri félaga á erlendri grundu. Það er ekki sjálfgefið að hægt sé að gefa út tímarit sem sýnir raunsanna mynd af hjúkrunarfræðingum; sterkt fagfólksem er að gera frábæra hluti á gríðarlega fjölbreyttum sviðum. Í þessu tölublaði fær fræðasamfélagið okkar að njóta sín með heilum sjö ritrýndum greinum, sem hlýtur að vera met og allar mjög áhugaverðar.

Vefur Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga, sem fór í loftið í fyrra, var tilnefndur til tveggja verðlauna á Íslensku vefverðlaununum sem fram fóru 15. mars síðastliðinn. Markmið okkar var að koma vefnum á góðan grunn sem hægt væri að byggja á til framtíðar. Starfsfólk Fíh og Hugsmiðjunnar fór í mikla vinnu sem heppnaðist svona gífurlega vel. Það er ekkert lát á vinnunni við að bæta þjónustuna til hjúkrunarfræðinga í gegnum vefinn, en um miðjan mars opnaði nýr orlofsvefur hjá okkur og síðar á árinu munum við taka í notkun nýjar Mínar síður. Ég vil endilega hvetja ykkur til að fylgja okkur á samfélagsmiðlum því nær daglega setjum við inn áhugaverðar fréttir og efni á Instagram og Fésbókina.

Páskarnir eru lengsta frí ársins hjá landsmönnum, rúmlega helmingur hjúkrunarfræðinga er í dagvinnu og geta því fengið nauðsynlega hvíld. Hinn helmingur hjúkrunarfræðinga mun áfram standa vaktina og óska ég þeim góðra vakta. Þið eigið það svo innilega skilið að hlúa að ykkur sjálfum og njóta gleðistunda með þeim sem ykkur standa næst.

Ég óska ykkur öllum gleðilegra páska.

Hlýjar kveðjur, Guðbjörg Pálsdóttir