Fara á efnissvæði

Karlar í hjúkrun

Uppræta þarf kynbundið náms- og starfsval, frelsa karlmenn undan gömlum staðalímyndum og fordómum og kynna hjúkrun fyrir körlum.

Hjúkrun höfðar til allra

Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga hefur lengi haft það sem markmið að fjölga karlmönnum í hjúkrun. Ráðist hefur verið í ímyndarherferðir, sérstakir styrkir veittir og hjúkrun kynnt fyrir strákum á grunnskólastigi.

Starf hjúkrunarfræðinga er mjög fjölbreytt og höfðar til allra kynja. Til að ná settu marki þarf að uppræta kynbundið náms- og starfsval, frelsa karlmenn undan gömlum staðalímyndum og fordómum og kynna hjúkrun fyrir körlum.

Til hvers?

Nauðsynlegt er að fjölga karlmönnum í hjúkrun. Skjólstæðingar hjúkrunarfræðinga eru ólíkir og með ólíkar þarfir, því er mikilvægt að stétt hjúkrunarfræðinga endurspegli fjölbreytileika notenda heilbrigðisþjónustunnar.

Þjóðir heimsins standa frammi fyrir skorti á hjúkrunarfræðingum og mun þörf fyrir hjúkrun aukast til muna hér á landi á næstu árum sem og annars staðar. Til þess að standa undir aukinni hjúkrunarþörf er nauðsynlegt að sækja starfskrafta úr heildarmengi þjóðfélagsins en ekki eingöngu helming þess.

Kynbundið náms- og starfsval er takmarkandi fyrir einstaklinga og samfélagið í heild. Koma þarf í veg fyrir að karlmaður sæki ekki í hjúkrunarfræði vegna úreltra viðhorfa sem enn finnast víða í samfélaginu.

Árið 2023 voru aðeins um 4% hjúkrunarfræðinga á Íslandi karlmenn, hefur það hlutfall hækkað lítillega á síðustu árum. Þetta hlutfall er eitt það lægsta í heiminum. Í ríkjum Evrópu árið 2019 voru að meðaltali 16% hjúkrunarfræðinga karlar, rúmlega 20% á Ítalíu og rúmlega fjórðungur í Hollandi. Í Bandaríkjunum er hlutfallið rúmlega 12%.

Rannsóknir sýna að blandaðir vinnustaðir skila bestum árangri og starfsfólki líður betur og er því til mikils að vinna.

Hvers vegna eru ekki fleiri karlmenn í hjúkrun?

Það er ekkert eitt svar við þessari spurningu. Hjúkrunarfræði var rótgróið kvennastarf á fyrri hluta 20. aldar. Þegar tók að losna um hefðbundin kvenna- og karlastörf í samfélaginu fjölgaði körlum í hjúkrun ekki í sama takti og konum í stéttum sem áður voru álitnar karlastéttir. Staðalmyndin af hjúkrunarfræðing sem konu lifir enn í hugum margra. Getur það haft áhrif á umræðuna í kringum karla þegar kemur að því að velja sér fag í háskóla. Felur slík umræða gjarnan í sér vanþekkingu á hvað felst í starfi hjúkrunarfræðings. Þeir karlmenn sem starfa við hjúkrunarfræði hefur flestum vegnað vel og kunna vel við sig í starfinu.

Samkvæmt könnun Maskínu til almennings árið 2021, svaraði 92% því að kyn skipti ekki máli þegar þeir fá þjónustu hjúkrunarfræðings. Þegar almenningur var spurður hver hann héldi að væru helstu ástæður fyrir því að karlar velji síður að verða hjúkrunarfræðingar þá voru lág laun helsta ástæðan (35,1%). Aðrar ástæður voru að fagið væri kvennastarf (13,8%), ímynd/viðhorf og fordómar gagnvart karlkyns hjúkrunarfræðingum (13,6%) og kvenlæg menning innan starfsins (10,5%).

Aðgerðir

Grípa þarf til margvíslegra aðgerða til að koma í veg fyrir skort á hjúkrunarfræðingum í framtíðinni. Farið var í átak árið 2016, meðal aðgerða sem gripið var til þá var að styrkja karlmenn sem klára námsár í faginu um 75.000 krónur fyrir skráningargjaldi í Háskólann á Akureyri og Háskóla Íslands. Þeirri aðgerð er lokið en frestur til að sækja um styrk fyrir námsárið 2023-2024 rennur út 1. september 2024.

Mörg lönd hafa farið í átak til að fjölga körlum í hjúkrun og hafa ýmsar leiðir verið reyndar. Reynslan hefur sýnt að beinar aðgerðir til að höfða til karla hafa reynst best, einnig að gefa ekki óraunsæja mynd af starfinu.

Fíh vinnur áfram að því að fjölga karlmönnum í hjúkrunarfræði hér á landi.

Stofnuð hefur verið Karladeild Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga. Tilgangur deildarinnar er að vinna að samvinnu karlkyns hjúkrunarfræðinga og að auka aðsókn karla í hjúkrunarfræðinám. Karlar í hjúkrun eru gjarnan eini karlkyns hjúkrunarfræðingurinn á sínum vinnustað og er Karladeildin félagslegur vettvangur karla til þess að deila sinni reynslu og miðla upplýsingum á jafningjagrundvelli.

Verkefninu Strákar í hjúkrun verður haldið áfram þar sem námið og starfið er kynnt fyrir ungum karlmönnum ásamt því að unnið verður að vitundarvakningu um kynbundna menningu innan fagsins.