Fara á efnissvæði

Nám og starf

Hjúkrunarfræði er fjölbreytt og spennandi háskólanám. Á Íslandi er hjúkrunarfræði kennd við Háskóla Íslands og Háskólann á Akureyri.

Grunnnám

Hjúkrunarfræði er fjögurra ára nám sem kennt er í Háskóla Ísland og Háskólanum á Akureyri. Námið er bæði fræðilegt og verklegt og lýkur með 240 eininga BS gráðu.

Hjúkrunar- og ljósmóðurfræðideild Háskóla Íslands býður upp á grunnnám og framhaldsnám í hjúkrunarfræði. Einnig er boðið upp á sjö missera nám í hjúkrunarfræði fyrir þau sem hafa lokið öðru háskólanámi.

Hjúkrunarfræðideild Háskólans á Akureyri býður upp á staðarnám og sveigjanlegt nám til BS prófs í hjúkrunarfræði og diplóma- og meistaranám í heilbrigðisvísindum.

Að námi loknu þarf að sækja um hjúkrunarleyfi sem er forsenda þess að fá að kalla sig hjúkrunarfræðing og starfa sem slíkur hér á landi. Embætti landlæknis veitir hjúkrunarleyfi.

Meistaranám

Hjúkrunar- og ljósmóðurfræðideild Háskóla Íslands býður upp á fimm námsleiðir á meistarastigi í hjúkrunarfræði.

Boðið er upp á 30 eininga diplómanám á meistarastigi í hjúkrun til þess að gefa hjúkrunarfræðingum kost á að auka þekkingu sína og færni á ákveðnu sviði.

Meistaranám í hjúkrunarfræði með áherslu á klíníska sérhæfingu, 120 einingar. Lögð er áhersla á sveigjanleika og leitast er við að gefa nemandanum tækifæri til að efla þekkingu sína á ákveðnum sérsviðum.

Meistaranám í hjúkrunarfræði með áherslu á hjúkrunarstjórnun, 120 einingar. Í náminu er lögð áhersla á að dýpka þekkingu, skilning og færni nemenda og undirbúa þau til starfa sem stjórnendur og leiðtoga í hjúkrun.

Meistaranám í hjúkrunarfræði með áherslu á rannsóknarþjálfun, 120 einingar. Í náminu er áhersla lögð á að nemendur öðlist fræðilega þekkingu á ákveðnu sérsviði hjúkrunar og þjálfun í vísindalegum vinnubrögðum. Auk þess að styrkja færni sína í rannsóknastörfum og þróunarverkefnum gefst nemendum möguleiki á þátttöku í spennandi klínískum rannsóknum.

Meistaranám í geðhjúkrun, 120 einingar. Meistaranám í geðhjúkrun er skipulögð samkvæmt samningi milli Háskóla Íslands og Háskólans á Akureyri en Hjúkrunar- og ljósmóðurfræðideild annast framkvæmd hans fyrir hönd HÍ. Að námi loknu útskrifast nemendur með sameiginlega gráðu frá HÍ og HA.

Doktorsnám

Doktorsnám í hjúkrunarfræði við Háskóla Íslands er 180/240 eininga rannsóknaþjálfun. Doktorsritgerðin sjálf er 180/240 einingar og taka má námskeið til allt að 30 einingum að auki. Námið, að loknu meistaraprófi, er þriggja - fjögurra ára fullt nám.

Doktorsnám við Háskólann á Akureyri er einstaklingsmiðað nám og rannsóknarverkefni doktorsnemans er lykilþáttur námsins. Kjarni námsins er 180 eininga doktorsverkefni. Auk þess getur doktorsneminn þurft að taka námskeið, allt að 60 einingum, til að undirbúa fyrirhugað verkefni. Gert ráð fyrir að doktorsneminn ljúki 60 einingum á ári í fullu námi.

Sérfræðingur í hjúkrun

Hjúkrunarfræðingur sem lokið hefur meistaraprófi eða doktorsprófi í hjúkrunarfræði frá viðurkenndum háskóla eða sambærilegri menntun getur sótt um sérfræðileyfi á klínísku sérsviði hjúkrunar að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Skilyrði fyrir veitingu sérfræðileyfis er að finna í reglugerð um menntun, réttindi og skyldur hjúkrunarfræðinga og skilyrði til að hljóta starfsleyfi og sérfræðingsleyfi nr.512, 22.maí 2013.

Nám og starf innan EES

Íslenskir hjúkrunarfræðingar hafa leyfi til að starfa á Evrópska efnahagssvæðinu (EES) án sérstaks atvinnuleyfis, uppfylli þeir skilyrði um menntun samkvæmt tilskipunum um gagnkvæma viðurkenningu á prófskírteinum, vottorðum og öðrum vitnisburði um formlega menntun og hæfni. Ef ætlunin er að dveljast lengur en 3 mánuði í landinu þarf að sækja um dvalarleyfi hjá viðkomandi innflytjendayfirvöldum, sem er veitt til allt að 5 ára í fyrsta sinn en skemur fyrir þá sem dvelja eða starfa í styttri tíma en eitt ár eða eru í námi.

Umsókn skal send heilbrigðisráðuneyti viðkomandi lands eða þeim sem það vísar til.

Umsókninni fylgi:

  • Sönnun ríkisfangs á Íslandi (staðfest afrit af vegabréfi eða vottorð frá Þjóðskrá www.thjodskra.is).
  • Staðfest afrit af prófskírteininu sem þýtt hefur verið yfir á ensku. Ítarlegar upplýsingar um stundafjölda, bæði í bóklegu og verklegu námi, þurfa að fylgja með umsókninni til landa utan Norðurlandanna.
  • Staðfest afrit af íslenska hjúkrunarleyfinu (sótt hjá Embætti landlæknis). Skal þessi staðfesting ekki vera eldri en þriggja mánaða gömul. Samkvæmt lögum er ekki hægt að mismuna hjúkrunarfræðingum frá EES-ríkjum með kröfum um tungumálakunnáttu. Einstaka stofnanir geta hins vegar sett tungumálakunnáttu sem skilyrði fyrir ráðningu.

Nám og starf utan EES

Íslenskir hjúkrunarfræðingar sem hafa hug á að vinna eða fara í nám í landi utan Evrópska efnahagssvæðissins (EES) þurfa að hafa hjúkrunarleyfi í viðkomandi landi. Atvinnurekandi sér í flestum tilfellum um að sækja um atvinnu-og dvalarleyfi sem er veitt með því skilyrði að kunnáttumenn fáist ekki innanlands eða ef aðrar sérstakar ástæður mæli með leyfisveitingu.