Fara á efnissvæði

Um tímaritið

Tímarit hjúkrunarfræðinga er gefið út þrisvar á ári. Tímaritið er vettvangur fræðilegrar og félagslegrar umfjöllunar um hjúkrun. Í faglega hluta tímaritsins eru birtar margvíslegar greinar sem fjalla um öll svið hjúkrunar.

Senda inn efni

Ritrýndar greinar eru rannsóknagreinar, yfirlitsgreinar og kenningagreinar, þ.e. greinar sem á ítarlegan hátt fjalla um þróun þekkingar í hjúkrun, hvort heldur sem er hjúkrunarstarfið, hjúkrunarstjórnun, hjúkrunarkennsla, hjúkrunarrannsóknir eða stefnumótun í hjúkrunar- og heilbrigðisþjónustunni. Lögð er áhersla á beitingu margvíslegra rannsóknaraðferða, fjölbreytileika í fræðilegri nálgun viðfangsefna og vönduð vinnubrögð.

Fræðslugreinar fjalla um margvísleg viðfangsefni hjúkrunar og byggjast að einhverju leyti á fræðilegum heimildum ásamt athugunum eða reynslu höfunda. Þar skiptir miklu frumleiki í umfjöllun og efnistökum, menningarlegur margbreytileiki í hjúkrun og þróun hjúkrunar.

Í tímaritinu er einnig að finna viðtöl við fólk um hjúkrun og aðrar faglegar upplýsingar sem eiga erindi til hjúkrunarfræðinga. Í félagslega hluta tímaritsins eða fréttahlutanum er greint frá kjaramálum og því sem er að gerast hjá félaginu. Þar er einnig að finna fréttir af svæðis- og fagdeildum félagsins.

Leiðbeiningar til höfunda

Leiðbeiningar fyrir ritrýna

Það er Tímariti hjúkrunarfræðinga kappsmál að birta vel unnar, áreiðanlegar greinar sem innihalda nýjungar og eru mikilvægar fyrir hjúkrunarfræðinga og aðra heilbrigðisstarfsmenn við ákvarðanir um starfshætti, rannsóknir og stefnumótun.

Ritrýni fer alltaf fram á svipaðan hátt. Hvert handrit er ritrýnt af tveimur ritrýnum hið minnsta. Ritrýnir nýtur nafnleyndar gagnvart höfundum og höfundar gagnvart ritrýni. Ritrýnir er beðinn um að fara með handrit sem trúnaðarmál.

Ritrýnir er vinsamlegast beðinn um að ljúka verki sínu innan þriggja vikna frá móttöku handrits. Reynist það ekki hægt þarf hann að hafa samband við ritstjóra hið fyrsta.

Ritrýnir er beðinn um að taka saman helstu niðurstöður sínar í upphafi umsagnar. Jafnframt er hann beðinn um að taka skýra og afdráttarlausa afstöðu til þess hvort mælt sé með að handritið verði birt án breytinga, samþykkt til áframhaldandi vinnu eða hvort hafna beri handritinu, samanber gátlista ritrýna.

Ef ritrýnir hefur athugasemdir sem einungis eru ætlaðar ritstjórn fer best á því að setja þær í sérstakt skjal.

Ritrýnir skal skila athugasemdum sínum rafrænt. Ritrýni er heimilt að færa athugasemdir sínar beint inn í handritið og nota track changes. Til að tryggja nafnleynd ritrýnis þarf að taka nafn eða fangamark (auðkenni) ritrýnis af athugasemdum. Ritstjóri sér um að gera þetta áður en umsögn er send til höfundar.

Ritrýnir þarf ekki að gera athugasemdir við málvillur eða málfar nema texti sé torskilinn eða óljós.

Ritrýnir fyllir út sérstakan gátlista en auk þess getur verið hjálplegt að hafa til hliðsjónar eftirfarandi atriði.

Viðmið fyrir ritrýna rannsóknargreina

Titill

  • Lýsir titillinn vel efni greinarinnar?
  • Er hann grípandi og án skammstafana?

Handrit í heild

  • Mikilvægi handrits. Eykur það við þekkingu sem fyrir er? Inniheldur handritið nýjungar og mikilvægar niðurstöður fyrir hjúkrunarfræðinga eða aðrar heilbrigðisstéttir?
  • Hefur efnið verið birt áður?
  • Hvernig er málfar handrits og skýrleiki?
  • Er hægt að stytta eða sleppa hluta handrits án þess að skaða efnið?
  • Er handritið laust við endurtekningar?
  • Er handritið byggt upp á rökréttan hátt? Eru kaflaskil skýr?
  • Fylgir handritinu útdráttur á íslensku og ensku, lykilorð á íslensku og ensku, meginmál, heimildalisti, töflur og myndir eftir því sem við á?
  • Er uppsetning heimilda samkvæmt reglum Tímarits hjúkrunarfræðinga (APA)?
  • Hverjir eru helstu kostir og gallar handritsins?
  • Ber að samþykkja handritið til birtingar, birta með verulegum breytingum eða hafna
    handritinu?

Útdráttur

  • Metið hvort útdráttur lýsir tilgangi, rannsóknaraðferð, niðurstöðum og ályktunum í stuttu og skýru máli.
  • Er ensk þýðing efnislega rétt?

Inngangur

  • Er gerð grein fyrir stöðu þekkingar á sviði rannsóknar?
  • Er vísað í mikilvægar eða nýjustu heimildir innan fagsviðsins?
  • Eru tilgangur, tilgáta eða rannsóknarspurningar skýrt settar fram og afmarkaðar?
  • Rökstyður fræðilega samantektin þörf fyrir rannsóknina?

Aðferðafræði

  • Er þýði/úrtaki vel lýst?
  • Er vali þátttakenda lýst?
  • Eru annmarkar á úrtaki?
  • Er rannsóknarsnið til þess fallið að svara tilgátunni eða rannsóknarspurningum?
  • Eru notaðar viðeigandi tölfræðiaðferðir og er þeim vel lýst?
  • Er mælitæki eða spurningalistum lýst?
  • Er aðferðum lýst á þann hátt að aðrir gætu endurtekið rannsóknina?
  • Er fjallað um siðferðileg álitamál?

Niðurstöður

  • Svara niðurstöður tilgátunni eða rannsóknarspurningunum?
  • Eru niðurstöður settar fram á skýran hátt?
  • Er gagnagreining og úrvinnsla gagna viðunandi?
  • Eru tölfræðipróf vel unnin ef þau eru notuð?
  • Ber einhvers staðar á of- eða vantúlkun gagna?
  • Er fjallað um tölulegar niðurstöður með vísan í tölfræðigreiningu?
  • Væru niðurstöður í texta betur kynntar í töflu/línuriti/mynd eða öfugt?
  • Eru niðurstöður annarra rannsókna kynntar í niðurstöðukaflanum? Í niðurstöðukafla á einungis að kynna niðurstöður rannsóknarinnar en allar umræður og samanburður við aðrar rannsóknir tilheyra umræðukaflanum.

Umræður

  • Eru ályktanir rökréttar og í eðlilegu samræmi við niðurstöður?
  • Er fjallað um niðurstöður og ályktanir annarra höfunda í samanburði við niðurstöður rannsóknarinnar?
  • Gera höfundar skýran greinarmun á eigin niðurstöðum og niðurstöðum annarra í umræðu og ályktunum?
  • Er styrkleikum og veikleikum rannsóknarinnar gerð skil (skekkjur, tilviljanir, truflandi þættir, mat á alhæfingargildi þar sem það á við)?
  • Er fjallað um þætti sem áhugavert væri að rannsaka í kjölfar þessarar rannsóknar ?
  • Er dregið fram mikilvægi þessarar rannsóknar fyrir hjúkrun?

Heimildir og tilvitnanir í texta

  • Eru heimildir viðeigandi og rétt notaðar?
  • Er vísað í nýjustu rannsóknir á fræðasviðinu?
  • Eru settar fram fullyrðingar í texta sem ekki eru studdar tilvitnunum?
  • Er getið mikilvægra rannsókna sem tengjast viðfangsefni höfunda?
  • Er gætt hófs við heimildanotkun (að jafnaði ekki fleiri en 35 heimildir)?
  • Vitnar höfundur einhvers staðar í fleiri en þrjár heimildir til að styðja mál sitt? Er hægt að sleppa einhverjum tilvitnunum?

Töflur og myndir

  • Er fjöldi tafla, línurita og mynda í samræmi við reglur tímaritsins (að jafnaði ekki fleiri en sex samtals) eða eru góð rök fyrir því ef svo er ekki?
  • Eru mynda- og töflutextar skýrir þannig að unnt sé að skilja töflur og myndir án frekari skýringa í megintexta?
  • Er hægt að fella út, sameina eða einfalda töflur og myndir?

Hagnýting rannsóknarniðurstaðna

  • Er dregin rökrétt ályktun af niðurstöðum rannsóknar?
  • Kemur hagnýting fyrir hjúkrun eða íslenskt heilbrigðiskerfi fram?

Einnig getur verið gagnlegt fyrir ritrýna að kynna sér Leiðbeiningar til höfunda ritrýndra fræðigreina.

Yfirlitsgreinar og kerfisbundnar fræðilegar samantektir

Ritrýni yfirlitsgreina (e. review) eða kerfisbundinna fræðilegra samantekta (e. systematic review) svipar mikið til ritrýni á rannsóknargreinum (sjá hér að framan). Hér eru tilgreind atriði sem eiga þó sérstaklega við slíkar greinar.

Aðferðafræði

  • Eru þátttöku- (val-) og útilokunarskilyrði skýr og vel afmörkuð?
  • Er leitaraðferð lýst nákvæmlega?
  • Eru takmarkanir á vali greina eftir tungumáli, rannsóknarsniði eða útgáfutíma?
  • Eru upplýsingar um leitarorð (MeSH) og tímasetningu leitar?
  • Er umfang greina nægilegt? Eru annmarkar á vali greina?
  • Voru tveir eða fleiri aðilar sem sáu um úrvinnslu og greiningu gagna?
  • Er lýst hvað gert var í vafaatriðum eða ef upp kom ágreiningur um efnið?
  • Ef tölfræðiaðferðir eru notaðar, eru þær viðeigandi og vel lýst?
  • Er tilgreindur fjöldi greina sem uppfylltu leitarskilyrði? Hve margar þeirra voru teknar í samantektina?
  • Eru allir gagnagrunnar tilteknir? Voru notaðar óbirtar greinar eða bækur?

Niðurstöður - umræður

  • Er gefið yfirlit eða birtur listi yfir greinarnar í samantektinni auk þeirra greina sem ekki voru teknar með?
  • Notar höfundur flæðirit til að skýra niðurstöður sínar?
  • Er lagt mat á vísindalegt gildi og gæði rannsókna með kerfisbundnum hætti?
  • Er gerður skýr samanburður á breytum sem rannsakaðar voru, t.d. í töflu?
  • Svara niðurstöður tilgangi eða rannsóknarspurningum samantektar?
  • Eru niðurstöður settar fram á skýran hátt?
  • Eru dregnar rökréttar ályktanir í samræmi við vísindalegt gildi greinanna?
  • Er fjallað um tölulegar niðurstöður með vísan í tölfræðigreiningu?
  • Eru niðurstöður í texta betur kynntar í töflu, línuriti eða mynd eða öfugt?
  • Er fjallað um hagsmunaárekstra í greinum, sem notaðar voru, og í samantektinni?

Ályktanir

  • Eru ályktanir rökréttar og í eðlilegu samræmi við niðurstöður?
  • Er styrkleika og veikleika samantektarinnar gerð góð skil (t.d. birtingahlutdrægni)?

Kenningagreinar

Kenningagrein fjallar um kenningu, líkan eða skilgreiningu á fræðilegu hugtaki (e. concept analysis). Uppbygging og framsetning slíkra greina er með líkum hætti og í öðrum rannsóknargreinum þó að nauðsynlegt geti verið að víkja frá framsetningu. Á eftir hefðbundnum inngangi ætti að koma gagnrýnin, greinandi umfjöllun um efnið. Í stað niðurstaðna er sett fram samantekt á helstu ályktunum. Að jafnaði eru undirfyrirsagnir fleiri í þessum greinum til að gera umfjöllunina skilmerkilegri. Bent er á umfjöllun um kenningagreinar í Handbók Sálfræðiritsins (bls. 43).

Síðast uppfært í janúar 2015.

Ritstjórnarstefna

Tímarit hjúkrunarfræðinga er gefið út þrisvar sinnum á ári. Tímaritið er málgagn félagsmanna í Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga og í því er reynt að endurspegla ólíkar skoðanir og viðhorf til hjúkrunar. Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga leggur metnað sinn í að allir félagsmenn þess finni þar efni sér til gagns, fróðleiks og ánægju.

Tímaritið er vettvangur fræðilegrar og félagslegrar umfjöllunar um hjúkrun. Í faglega hluta tímaritsins eru birtar margvíslegar greinar sem fjalla um öll svið hjúkrunar. Greinar flokkast í ritrýndar greinar og fræðslugreinar.

Ritstjóri ber ábyrgð á að efni, útgáfa og rekstur tímaritsins sé í samræmi við ritstjórnarstefnu þess. Ritstjóri ásamt ritnefnd leggur metnað í að tímaritið sé vandað að efni, málfari og útliti. Áhersla er lögð á að ritrýndar greinar standist vísindalegar kröfur.

Formaður félagsins ber ábyrgð á félagslegu efni þess öðru en aðsendum greinum. Höfundar aðsendra greina bera ábyrgð á efni þeirra. Skoðanir, sem í þeim birtast, þurfa ekki að samrýmast stefnu Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga.

Siðareglur

1. Ágreiningsmál, álitamál og ásakanir um brot á siðareglum rannsókna. Hver sem er getur sent inn athugasemdir varðandi greinar sem eru birtar í tímaritinu. Ritstjóri tímaritsins fer yfir hvers kyns álitamál og ásakanir sem berast. Það fer eftir eðli ásakana í hvaða farveg þær eru settar. Siðferðileg álitamál varðandi innihald ritrýndrar greinar fara fyrir ritstjórn ritrýndra greina (RRG) sem ákveður hvaða skref skuli tekin í framhaldinu. Ef þörf krefur eru viðeigandi rannsóknasiðanefndir og stofnanir tengdar höfundum upplýstar um ásakanir sem tímaritinu hafa borist og beðið um greinargerð. Ef upp kemst að ekki var réttilega farið eftir siðareglum rannsókna eða öðru eðlilegu ferli rannsókna og birtingu niðurstaðna getur RRG tekið ákvörðun um að draga birtingu til baka.

2. Höfundar og framlag höfunda. RRG fer yfir framlag hvers höfundar. Til að teljast höfundur að grein verður framlagi höfundar að vera gerð greinargóð skil. Enginn getur verið höfundur að ritrýndri grein sem hefur ekki lagt vinnu í greinina. Ábyrgðarmaður greinar ber ábyrgð á að höfundar og þeirra framlag sé rétt skráð. Ef upp koma álitamál tengd framlagi og röð höfunda mun RRG hafa beint samband við ábyrgðarmann greinarinnar. RRG getur líka haft samband við aðra höfunda ef álitamálið leysist ekki. Ef alvarleg ágreiningsmál koma upp getur RRG haft samband við þá stofnun sem höfundar starfa hjá, eða er eigandi gagna og beðið um formlegt álit. Niðurstöður rannsóknar ættu ekki að birtast á öðrum vettvangi og ekki er talið siðferðilega rétt að senda inn handrit til birtingar í mörgum tímaritum, hvort sem er á öðru tungumáli eða ekki. Ef höfundar óska eftir að birta niðurstöður rannsóknarinnar í öðru tímariti eftir að hafa birt þær í Tímariti hjúkrunarfræðinga þarf leyfi RRG.

3. Það er á ábyrgð höfunda að kynna gögn og niðurstöður á réttan og áreiðanlegan hátt. Handrit skal alltaf innihalda sérstaklega siðferðileg álitamál sem voru tekin til umfjöllunar og ef um beina rannsókn er að ræða skulu höfundar taka fram öll rannsóknarleyfi sem veitt voru af viðeigandi stofnunum í samræmi við lög og reglur. Höfundar gætu þurft að leggja fram upprunaleg gögn rannsóknarinnar fyrir ritrýni. Ritstuldur í hvers kyns framsetningu er talin óviðunandi. Ef höfundar uppgötva eftir birtingu hvers kyns villu eða ónákvæmni í niðurstöðum er þá á þeirra ábyrgð að tilkynna RRG um stöðuna og vinna með ritnefndinni að því hvort leiðrétting á greininni sé nauðsynleg eða hvort birting þurfi að vera dregin til baka. Höfundum er skylt að vinna með RRG að úrvinnslu allra álita- og ágreiningsmála eins og þurfa þykir.

4. Mikilvægt er að tryggja að ekki komi upp hagsmunaárekstrar í ferli innsendra greina. Höfundar bera ábyrgð á að tilkynna hugsanlega hagsmunaárekstra í vinnu við rannsókn og skal það vera partur af handriti þar sem við á. RRG ber ábyrgð á að tryggja nafnleysi höfunda gagnvart ritrýnum og nafnleysi ritrýna gagnvart höfundum. Þar sem Ísland er fámenn þjóð og fáir rannsakendur er vandasamt fyrir RRG að finna sérfræðinga til að ritrýna handrit án beinna hagsmunatengsla. Ágreinings- og álitamál sem koma upp tengd mögulegum hagsmunaárekstrum eru sett í sama ferli og önnur álitamál skv. lið 1. Ritrýnum ber að láta RRG vita ef þeir eiga hagsmuna að gæta tengdum höfundi, handriti eða rannsóknaniðurstöðum. Viðkomandi ætti ekki að taka þátt í ritrýni sé um hagsmunaárekstra að ræða.

5. Ritrýnar skulu gæta að leggja fram hlutlausa og heiðarlega rýni innan þess tímaramma sem gefinn er. Ef ritrýnir telur sig ekki hæfan í að ritrýna ákveðna grein er það á þeirra ábyrgð að tilkynna það til RRG sem fyrst.

6. Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga er ábyrgt fyrir birtingu Tímarits hjúkrunarfræðinga en lætur eftir ábyrgð á birtingu vísindalegra greina til RRG.

Þessar siðareglur byggja á leiðbeiningum um gagnsæi og bestu starfshætti um vísindalegar birtingar eftir COPE.

Ritnefnd ritrýndra greina samþykkir ofangreindar siðareglur þann 4. nóvember 2024.

Stjórn Fíh samþykkir á stjórnarfundi 13. nóvember 2024.

Ritnefnd 2024-2025

Ritnefnd ritrýndra greina

Kristín Linda Hjartardóttir

Ritnefnd ritrýndra greina

Herdís Sveinsdóttir

Ritnefnd ritrýndra greina

Sigrún Sunna Skúladóttir

Ritnefnd almennra greina

Sölvi Sveinsson

Ritnefnd almennra greina

Ragnheiður Haralds Eiríksdóttir Bjarman

Ritnefnd almennra greina

Helga Pálmadóttir

Ritnefnd ritrýndra greina

Þóra Jenný Gunnarsdóttir

Ritstjóri

Sigríður Elín Ásmundsdóttir