Fara á efnissvæði

Fagdeild skurðhjúkrunarfræðinga

Markmið Fagdeildar skurðhjúkrunar er að vinna að framgangi skurðhjúkrunar, stuðla að fræðslu innan fagsins, vinna að faglegum málefnum og taka þátt í erlendu samstarfi.

Um fagdeildina

Fagdeild skurðhjúkrunarfræðinga var formlega stofnuð 25. apríl 1994, á grunni Félags skurðstofuhjúkrunarkvenna, sem var stofnað 7. desember 1972. Í dag eru um 170 hjúkrunarfræðingar skráðir í fagdeildina. Fagdeildin starfar skv. reglum Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga um fagdeildir innan þess. Markmið Fagdeildar skurðhjúkrunar er að vinna að framgangi skurðhjúkrunar, stuðla að fræðslu innan fagsins, vinna að faglegum málefnum og taka þátt í erlendu samstarfi.

Fagdeild skurðhjúkrunarfræðinga stuðlar að símenntun skurðhjúkrunarfræðinga með ráðstefnuhaldi og veitingu styrkja úr Ráðstefnu- og námsjóði Fagdeildar skurðhjúkrunarfræðinga.

Stjórn fagdeildarinnar heldur fundi mánaðarlega. Aðalfundur er haldinn í febrúar/ mars á hverju ári og ráðstefna að hausti. Fagdeild skurðhjúkrunarfræðinga, ISORNA, er aðili að og á fulltrúa í samtökum norrænna skurðhjúkrunarfræðinga NORNA og Evrópusamtökum skurðhjúkrunarfræðinga EORNA. Þessi samtök vinna að þróun fagsins, svo sem gæðamálum, vinnuumhverfi, menntun, skipulagningu ráðstefna og stuðla að rannsóknum á sviði skurðhjúkrunar. Í EORNA er m.a. verið að vinna staðla í skurðhjúkrun og eru íslensku fulltrúarnir virkir þátttakendur í þeirri vinnu.

Fagdeildin hefur átt fulltrúa í vinnuhóp Landlæknisembættis um gerð gæðakrafa fyrir skurðstofur.

Stjórn

Formaður og NORNA fulltrúi

Guðrún Valdimarsdóttir

Varaformaður og NORNA fulltrúi

Vilborg Erla Sveinbjörnsdóttir

Ritari og EORNA fulltrúi

Anna Huld Jóhannsdóttir

Gjaldkeri

Birgir Örn Ólafsson

Meðstjórnandi og EORNA fulltrúi

Ólafur Guðbjörn Skúlason

Styrktarsjóður

Starfsreglur sjóðsins

Sjóðurinn heitir Ráðstefnu- og námssjóður Fagdeildar skurðhjúkrunarfræðinga.

  1. Stjórn sjóðsins skulu skipa 3 félagar. Einn í stjórn skal vera í stjórn Fagdeildarinnar. Stjórnin skal kosin til tveggja ára í senn, en þó skulu aldrei allir stjórnarmeðlimir ganga úr stjórn í einu. Kosið skal í stjórn á aðalfundi félagsins ár hvert.
  2. Úthlutað er úr sjóðnum einu sinni á ári, í maí. Síðasti skiladagur umsókna er 1. mars. Umsóknareyðublað er á heimasíðu Fagdeildarinnar. Umsóknum skal skila á skrifstofu Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga merkt Ráðstefnu- og námssjóði Fagdeildar skurðhjúkrunarfræðinga.
  3. Umsækjendur skulu vera skurðhjúkrunarfræðingar, skuldlausir við Fagdeildina og hafa verið meðlimir hennar í að minnsta kosti eitt ár.
  4. Ráðstefnu-/námsstyrkir:
    a. Heildarupphæð til úthlutunar er kr. 320.000 á ári
    b. Hver styrkur nemur kr. 40.000
    c. Hver sjóðsfélagi getur sótt um að hámarki kr. 80.000 á 5 ára fresti .
  5. Umsóknum verður raðað í forgangsröð, miðast við tímalengd aðildar að Fagdeildinni og þeir sem áður hafa fengið styrk úr sjóðnum lenda þá aftar í röðinni.
  6. Styrkjum verður úthlutað samkvæmt framvísun reikninga.
  7. Sjóðurinn er í vörslu Fagdeildar skurðhjúkrunarfræðinga, geymdur á bankareikningi með bestu mögulegu ávöxtun hverju sinni. Reikningsár er í samræmi við ársuppgjör Fagdeildar. Reikningar sjóðsins skulu endurskoðaðir af endurskoðendum Fagdeildarinnar.
  8. Reglur sjóðsins skulu yfirfarnar og endurmetnar árlega fyrir aðalfund Fagdeildarinnar.

Erlent samstarf

NORNA samstarf

NORNA eða Nordic Operating Room Nurses Association eru samtök skurðhjúkrunarfræðinga á Norðurlöndum; Danmörku, Finnlandi, Íslandi, Noregi og Svíþjóð. Samtökin voru stofnuð árið 1993.

Stjórn samtakanna heldur fund tvisvar á ári, að vori og hausti og skiptast fagdeildirnar 5 á um að halda fundina. Hver fagdeild má senda tvo fulltrúa á fundina og saman mynda þessir fulltrúar stjórn NORNA.

NORNA samtökin halda ráðstefnu 3ja hvert ár. Næsta ráðstefna verður haldin í Danmörku árið 2017.

Vor- og haustfundur NORNA 2016 voru haldnir i Kaupmannahöfn í april og október. Fulltrúar Íslands voru Anna Valsdóttir og Þorbjörg Ása Kristinsdóttir.

NORNA Spring meeting in Stockholm 2018

NORNA Spring meeting in Helsinki 2017
NORNA Autumn meeting in Helsinki 2017

NORNA Spring meeting in Copenhagen April 2016
NORNA Autumn meeting in Copenhagen October 2016

EORNA samstarf

Samtök evrópskra skurðhjúkrunafræðinga – EORNA – voru formlega stofnuð í Kaupmannahöfn árið 1992. Samtökin samanstanda af 27 aðildarfélögum frá jafnmörgum löndum með samtals um 30 þúsund meðlimi. Landssamtök í hverju landi tilnefna tvo fulltrúa í stjórn EORNA sem fundar tvisvar á ári. ISORNA gekk í EORNA árið 2000.

Annað hvert ár gangast samtökin fyrir viðamikilli ráðstefnu sem öllum stendur opin, og árið 2017 verður ráðstefna haldin við Grísku eyjarnar.

Meginmarkmið EORNA eru að skapa vettvang til að stuðla að umræðum og skoðanaskiptum meðal evrópskra skurðhjúkrunarfræðinga, stuðla að og viðhalda háum staðli í hjúkrun skurðsjúklinga, skilgreina og standa vörð um siðferðileg viðmið í skurðhjúkrun, stuðla að hagnýtingu rannsókna, vinna að viðurkenndum stöðlum um menntunarstig í skurðhjúkrun um alla Evrópu og starfa með öðrum þeim fagaðilum sem hafa svipuð markmið.

Starfsreglur

Nafn
Fagdeild skurðhjúkrunarfræðinga.
Fagdeild skurðhjúkrunarfræðinga er sjálfstætt starfandi fagdeild innan Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga Fíh og starfar samkvæmt lögum Fíh.

Markmið Fagdeildar skurðhjúkrunarfræðinga
Að hafa áhrif á stefnumótun í heilbrigðismálum einkum er lýtur að hjúkrun skurðsjúklinga.
Að vera stjórn Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga og nefndum til ráðgjafar í öllu því er snýr að hjúkrun skurðsjúklinga.
Viðhalda faglegum tengslum við skurðhjúkrunarfræðinga hér heima og erlendis.Hvetja til framþróunar á sviði skurðhjúkrunar og rannsóknarvinnu.
Veita skurðhjúkrunarfræðingum tækifæri til símenntunar.

Aðild
Allir félagsmenn innan Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga sem lokið hafa viðurkenndu námi í skurðhjúkrun geta sótt um aðild að Fagdeild skurðhjúkrunarfræðinga.
Allir félagsmenn innan Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga sem starfa við skurðhjúkrun geta sótt um aðild að Fagdeild skurðhjúkrunarfræðinga. Þeir mega vinna að ákveðnum verkefnum innan félagsins og sitja aðalfund en hafa ekki kosningarétt.
Umsókn um aðild skal senda stjórn Fagdeildar skurðhjúkrunarfræðinga, á netfangið [email protected]

Merki
Merki fagdeildarinnar er grænblár skjöldur með nálahaldara, nál og þræði, sem saman mynda fiðrildi. Merki fagdeildarinnar skal notað jafnhliða merki Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga.

Félagsgjöld
Árgjald er ákveðið á aðalfundi hverju sinni og skal greiðast samkvæmt kröfu í heimabanka.
Gjalddagi er 1. apríl.
Eindagi er 15. apríl.Greiði félagsmaður ekki árgjald þrjú ár í röð skoðast það sem úrsögn.

Stjórn
Stjórn Fagdeildar skurðhjúkrunarfræðinga skipa 5 félagsmenn sem lokið hafa viðurkenndu námi í skurðhjúkrun.
Embætti: Formaður, ritari, gjaldkeri og tveir meðstjórnendur.
Hver stjórnarmaður skal kjörinn af félagsmönnum á aðalfundi til þriggja ára í senn. Hámarksseta í stjórn er 6 ár.
Kosning skal vera leynileg ef fleiri en 1 félagsmaður býður sig fram til sama embættis. Meirihluti ræður kjöri.
Kjöri stjórnarmanna skal þannig háttað að aldrei gangi fleiri en 2 kjörnir stjórnendur úr stjórninni.
Laus embætti innan stjórnar skal auglýsa með aðalfundarboði.
Allir félagsmenn sem uppfylla kröfur geta boðið sig fram í stjórn. Framboð skal tilkynna stjórn fagdeildarinnar á netfang [email protected] í síðasta lagi viku fyrir aðalfund.

Starfsreglur
Starfsreglur skulu endurskoðaðar árlega og vera birtar á heimasíðu fagdeildarinnar.
Starfsreglum Fagdeildar má aðeins breyta á aðalfundi með atkvæðagreiðslu.
Breytingatillögur skulu sendar félagsmönnum í tölvupósti og birtar á heimasíðu sex vikum fyrir aðalfund. Félagsmenn geta borið upp breytingartillögur á aðalfundi eða sent til stjórnar á netfangið [email protected]

Aðalfundur
Aðalfundur skal haldinn á hverju ári á tímabilinu 1. febrúar til 1. apríl.
Aðalfund skal boða skriflega með að lágmarki tveggja vikna fyrirvara.
Aðalfundur er löglegur sé löglega til hans boðað.

Dagskrá aðalfundar:
Skýrsla stjórnar
Starfsreglur Fagdeildar
Reglubreytingar
Kosning stjórnar samkvæmt 6. grein.
Önnur mál

Ráðstefna
Ráðstefna skal haldin árlega.

Fundir
Stjórnarfundir skulu haldnir 1. sinni í mánuði, utan sumarleyfistíma.

Erlent samstarf
Stjórn Fagdeildar skurðhjúkrunarfræðinga tekur þátt í norrænu og evrópsku samstarfi. Einn til tveir fulltrúar stjórnar eru í samtökum norrænna skurðhjúkrunarfræðinga, NORNA og einn til tveir fulltrúar stjórnar eru í samtökum evrópskra skurðhjúkrunarfræðinga, EORNA. Sitjandi stjórn hverju sinni áskilur sér rétt til að leita út fyrir kosna fulltrúa til að mæta þessum skilyrðum.

Fjármál
Fagdeildin hefur eigin kennitölu og allir bankareikningar deildarinnar eru á þeirri kennitölu.
Gjaldkeri félagsins gefur skýrslu um reikninga félagsins á aðalfundi ár hvert.
Fagdeildin rekur Ráðstefnu- og námssjóð Fagdeildar skurðhjúkrunarfræðinga, sem sérstakar starfsreglur gilda um.

Skjöl
Öll skjöl félagsins skal geyma í að minnsta kosti fimm ár.

Tenglar