Helstu niðurstöður kjarakönnunar 2022
Meirihluti hjúkrunarfræðinga er óánægður með launakjör sín samkvæmt niðurstöðum kjarakönnunar sem gerð var í haust. Þrátt fyrir það eru flestir ánægðir í starfi.
Kjarakönnun Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga var lögð fyrir í september síðastliðnum og liggja niðurstöðurnar nú fyrir. Markmið kjarakönnunarinnar var að kanna viðhorf og væntingar hjúkrunarfræðinga fyrir næstu kjarasamninga. Svarhlutfall í könnuninni var mjög gott, eða 64,2%. Þessar helstu niðurstöður könnunarinnar voru fyrst kynntar á kjararáðstefnu Fíh í byrjun október og birtar í Tímariti hjúkrunarfræðinga.
Þegar niðurstöðurnar eru bornar saman við niðurstöður könnunar Fíh frá 2020 kemur í ljós að ánægja í starfi fer minnkandi og óánægja með launakjör fer vaxandi.


Alls sögðust 69% hjúkrunarfræðinga vera ánægð í starfi þegar á heildina er litið, 18,4% mjög ánægð í starfi og rúmur helmingur fremur ánægður. Aðeins 1,6% eru mjög óánægðir í starfi og 6,5% fremur óánægðir. Munurinn er lítill þegar litið er til bakgrunnsbreytna á borð við kyn og aldur.
Óánægja með launakjör
Meirihluti hjúkrunarfræðinga sem svaraði könnuninni, eða 58,8%, er óánægður með launakjör sín, samanborið við 14,2% sem eru ánægðir eða fremur ánægðir. Aðeins 2,4% eru mjög ánægðir með launakjörin.

Fíh gerði könnun árið 2019 í aðdraganda kjarasamninga, niðurstöður þeirrar könnunar eru að miklu leyti sambærilegar og þessi. Í þeim niðurstöðum voru 10,6% hjúkrunarfræðinga ánægðir eða fremur ánægðir með launakjör sín og 55,9% óánægður.

Svipað hlutfall svaraði því til að það skipti þá miklu máli eða litlu máli að hafa möguleika á yfirvinnu. Hins vegar vegur möguleiki á yfirvinnu mun þyngra í yngri aldurshópi, þar sem ríflega helmingur telur það skipta miklu máli samanborið við um 19% í aldurshópnum 60 ára og eldri. Spurt var hvaða atriði eigi helst að ákvarða endanlega launasetningu hjúkrunarfræðinga á stofnunum, en starfslýsing, menntun og miðlægur kjarasamningur vógu þar þyngst.
Langflestir, eða 96,9%, telja hækkun grunnlauna vera mikilvægt áhersluatriði við gerð næstu kjarasamninga, 88,9% telja það mikilvægasta atriðið, 44,4% nefndu hærri grunnlaun fyrir aukið starfshlutfall. Enginn marktækur munur er á aldri og öðrum bakgrunnsbreytum þegar kemur að þessu atriði. Þá telur 63% hjúkrunarfræðinga að grunnlaun almennra hjúkrunarfræðinga eigi að vera hærri en 800.000 kr. Þegar litið er til starfstengdra réttinda í komandi kjarasamningum nefndu 73,4% mönnunarviðmið í heilbrigðisþjónustu, þar á eftir kom bætt vinnuaðstaða og öryggi á vinnustað.
Margir íhugað að hætta í starfi
Meira en helmingur, eða 66,8% hjúkrunarfræðinga hefur íhugað af alvöru að hætta í starfi á síðustu tveimur árum. En 33,2% hafa ekki íhugað það.

Í könnun kjarasviðs fyrir tveimur árum var spurt hvort hjúkrunarfræðingar hefðu hugsað um að hætta undanfarið ár, þá kom í ljós að rúmur helmingur hefði oft eða stundum íhugað að hætta.

Þegar litið er til ástæðna segja 42% þeirra sem hafa af alvöru íhugað að hætta það vera vegna starfstengds álags, 33,7% sögðu það vegna launakjara, 11,1% sagði það vera vegna stjórnunarhátta á vinnustað og 5,9% vegna ógnunar við öryggi sitt og/eða skjólstæðinga sinna.

Ekki næg mönnun til að tryggja lágmarksöryggi
Helmingur hjúkrunarfræðinga hefur oft mætt til vinnu við aðstæður þar sem mönnun var ekki næg til að tryggja lágmarksöryggi skjólstæðinga. Aðeins 7,3% sögðust aldrei hafa mætt við slíkar aðstæður, 14,7% sögðu það gerast sjaldan. Munurinn var nokkur þegar dagvinna var borin saman við vaktavinnu, 31,3% í vaktavinnu sögðu það gerast mjög oft samanborið við 20,8% í dagvinnu.

Fleiri sögðu styttingu vinnuvikunnar hafa gengið vel á sínum vinnustað en illa, 43% á móti 25%. Þá sögðu 32% styttinguna hafa gengið í meðallagi vel. Starfsfólk Reykjavíkurborgar var ánægðara en starfsmenn ríkisins, 53% samanborið við 41,6%. Munurinn er svipaður þegar litið er til dagvinnu og vaktavinnu, 54,2% hjúkrunarfræðinga í dagvinnu telur styttinguna hafa gengið vel samanborið við 31,6% í vaktavinnu.
Þegar beðið var um persónulegt mat á styttingu vinnuvikunnar sagði meirihluti, 55%, styttinguna hafa gengið vel fyrir sig sjálfa/n á móti 20% sem er óánægður. Töluvert fleiri hjúkrunarfræðingar í dagvinnu eru ánægðir með styttinguna fyrir sjálfan sig, eða 71,2% á móti 41,7% í vaktavinnu. Ánægjan er áberandi meiri hjá þeim sem eru í 100 prósent starfi, þar eru 61,3% ánægð. Ánægjan fer einnig vaxandi með auknum starfsaldri, 61,1% í elsta aldurshópnum samanborið við 46,4% í yngsta aldurshópnum.