Vísindasjóður
Vinnuveitendur hjúkrunarfræðinga, sem þiggja laun samkvæmt kjarasamningi félagsins, greiða sem nemur 1,5% af föstum dagvinnulaunum hjúkrunarfræðinga í Vísindasjóð. Sjóðurinn er í vörslu félagsins og skiptist í A og B hluta. Aðild að sjóðnum eiga allir þeir hjúkrunarfræðingar sem eru með fulla aðild að Fíh og voru starfandi samkvæmt kjarasamningi félagsins fyrir 31. desember árið fyrir úthlutun.
A- hluti
A-hluta Vísindasjóðs er ætlað að styrkja endur- og símenntun sjóðsfélaga. Styrkir úr A-hluta eru að jafnaði greiddir sjóðsfélögum í febrúarlok ár hvert.
Ekki þarf að sækja um úthlutun úr A-hluta Vísindasjóðs, heldur er þeim sjóðsfélögum sem vinnuveitandi hefur greitt inn í sjóðinn fyrir úthlutað styrk sem nemur 45% af því iðgjaldi sem komið hefur í sjóðinn á kennitölu hans. Það hlutfall sem eftir stendur, 55%, fer í starfsmenntunarsjóð Fíh og í B-hluta styrki til rannsóknar- og vísindastarfa.
Upphæðin er lögð inn á bankareikning viðkomandi. Sjóðsfélagi telst sá aðili vera sem var starfandi samkvæmt kjarasamningi félagsins fyrir 31. desember árið fyrir úthlutun.
Yfirlit yfir greiðslur úr A hluta Vísindsjóðs má finna á Mínum síðum. Þar er einnig hægt að uppfæra persónuupplýsingar, en réttar persónuupplýsingar eru forsendur þess að hægt sé að greiða úr sjóðnum.
B-hluti
Sækja skal um styrk úr B-hluta Vísindasjóðs á sérstöku umsóknareyðublaði. Eyðublaðið er Word-skjal og þarf umsækjandi að byrja á því að vista það á sinni tölvu og fylla síðan út og meðhöndla sem venjulegt Word-skjal.
Umsóknir og fylgiskjöl sendist á netfangið [email protected] fyrir miðnætti þann 15. mars ár hvert. Æskilegt er að umsóknareyðublaðið er á Word formi en önnur gögn á PDF-formi. Öll tölvuskjöl sem send eru sjóðnum skulu merkt með nafni umsækjanda og skýringu á innihaldi. Dæmi: jonajonsdottirCV2017.pdf, jonajonsdottirFylgiskj2.pdf
Umsókn
Aðalumsækjandi
Aðalumsækjandi þarf að vera sjóðsfélagi í B-hluta Vísindasjóðs FÍH (sjá reglur um B-hluta Vísindasjóð Fíh). Aðalumsækjandi hefur yfirumsjón með verkefninu og er tengiliður við stjórn sjóðsins í tilvikum þegar fleiri aðilar koma að rannsókninni. Ef meistara- eða doktorsnemi er sjóðsfélagi skal hann sækja um styrk í sínu nafni og vera aðalumsækjandi og tengiliður við stjórn sjóðsins. Neminn skal sækja um í sínu nafni styrk fyrir þeim hluta rannsóknar sem hann vinnur sé rannsóknin hluti af rannsókn leiðbeinanda.
Upphæð, heiti
Skrá skal þá upphæð sem sótt er um í lið 14. Heiti rannsóknarinnar má vera lýsandi vinnutitill.
Tegund rannsóknar
Í Tegund rannsóknar skal merkja við í viðkomandi reit. Ef um meistararannsókn er að ræða þarf að tilgreina fjölda eininga og skóla. Meistararannsókn er að jafnaði styrkt einu sinni samkvæmt umfangi rannsóknarinnar, allt að einu ári eftir lok rannsóknar.
Ef um doktorsrannsókn er að ræða þarf að geta skóla. Sjóðurinn styrkir doktorsrannsókn að jafnaði einu sinni að ákveðnu hámarki.Leiðbeinandi, meðrannsakendur og samstarfsaðilar
Ef rannsóknin er nemarannsókn skal geta leiðbeinanda. Nemandinn þarf að staðfesta að leiðbeinandinn hafi lesið umsóknina og samþykkt hana. Tilgreina þarf meðrannsakendur og alla samstarfsaðila við verkefnið, starfsheiti og stofnun sem þeir vinna við.
Upphaf verkefnis og áætluð lok
Hér skal skrá tímasetningar (mánuð og ár) á upphafi vinnu við rannsóknina og áætluð lok hennar eða þess áfanga sem sótt er um. Styrkurinn er greiddur út í tvennu lagi. Mikilvægt er að áætla lok rannsóknarinnar eins nákvæmlega og kostur er þar sem reglur sjóðsins kveða á um að seinni hluti styrks fellur niður 2 árum eftir áætluð verklok nema stjórn sjóðsins sé gerð grein fyrir ástæðu seinkunnar.
Stutt lýsing á verkefninu
Hér þarf að gefa í stuttu máli skýra mynd af markmiði, aðferðum og vísindalegu gildi. Þessi kafli jafngildir útdrætti. Nauðsynlegt er að virða hámarks orðafjölda (250 orð).
Fræðilegt yfirlit (literature review)
Lýsið stöðu þekkingar á því sviði sem verkefnið byggir á.
Í lokin skal taka saman í stuttu máli eftirfarandi:
- Hvað er vitað um efnið (3 megin atriði)
- Hverju munu niðurstöður bæta við núverandi þekkingu (3 megin atriði)
- Hvaða notagildi munu niðurstöður hafa fyrir hjúkrun á Íslandi (3 megin atriði)
Nauðsynlegt er að virða hámarks orðafjölda (1500 orð fyrir utan heimildalista).
Gildi verkefnis fyrir hjúkrun
Gildi getur falist í fræðilegu, tæknilegu, hagrænu og/eða heilsufarslegu gildi niðurstaðna til framþróunar hjúkrunar. Lýsið í nokkrum línum gildi verkefnisins hérlendis og/eða erlendis og hvernig fyrirhugað er að kynna verkefnið í hjúkrunarsamfélaginu. Nauðsynlegt er að virða hámarks orðafjölda (150 orð).
Aðferðafræði
Lýsa þarf þeirri aðferðarfræði sem notuð verður við framkvæmd rannsóknarinnar. Til að mynda er í megindlegum rannsóknum oft lýsing á búnaði og mælitækjum m.t.t. innihalds, áreiðanleika og réttmæti. Mælitæki geta verið ýmiss konar, t.d. spurningalistar, rannsóknarmælitæki og fleira. Ef um meðferðaríhlutun er um að ræða þarf að að lýsa því inngripi. Upplýsingar um tækjabúnað eða afrit af spurningalistum þurfa að fylgja. Tilgreina þarf þýði og val úrtaks.
Ef um eigindlega rannsókn er um að ræða þarf að gera grein fyrir þeirri aðferðafræði/aðferð sem valin hefur verið þ.m.t. heimspekilegum/fræðilegum og/eða sögulegum bakgrunni. Kynna skal aðferðir við gagnasöfnun og fjalla um hvernig úrvinnsla og túlkun gagna fer fram. Afrit af viðtalsramma og eða gagnasöfnunarramma þarf að fylgja með umsókninni. Tilgreina þarf val á þátttakendum eða viðmælendum
Framkvæmdaáætlun
Lýsið framkvæmdaáætlun skref fyrir skref. Fjalla þarf um leyfi, úrtak, aðgang að úrtaki, forprófun aðferðar, gagnasöfnun, úrvinnslu gagna, túlkun niðurstaðna, nýtingu og birtingu niðurstaðna.
Fyrir vísindarannsóknir (aðrar en meistara- og doktorsrannsóknir) gildir að kostnaðaráætlun verður að vera i takt við það sem á að framkvæma á styrktarári (t.d. maí 2022-maí 2023). Ef gagnasöfnun rannsóknar fer fram í september 2024 sem er ekki innan styrktarársins þá á ekki að sækja um styrk fyrir þann þátt rannsóknarinnar.
Setjið fram tímaáætlun. Lýsið hlutverki meðrannsakenda og annarra samstarfsaðila.
Kostnaðaráætlun
- Greiðsla upp í laun
Tilgreina þarf hverjum verða greidd laun, og í hve langan tíma. Dæmi um fullnægjandi útreikning - Efniskostnaður
Kostnaður við kaup á efni, prentun spurningalista og slíku.
Efni geta verið ýmis konar t.d. sáraumbúðir og/eða aðrar hjúkrunarvörur. - Tækjakaup
Tilgreinið hvaða hjúkrunar- eða lækningatæki þarf að kaupa. - Aðkeypt þjónusta
Greiðsla t.d. fyrir tölfræðiráðgjöf, þýðingu spurningalista eða innslátt og/eða
meðhöndlun gagna. Yfirlestur vísindagreina á öðru tungumáli en íslensku. - Annar kostnaður
Annar kostnaður sem tilfellur s.s. ferðir vegna gagnaöflunar, veitingar, aðstoð við fjármögnun birtingar í Open Access að hámarki kr. 150.000.- - Upphæð
Hér skal skrá heildarupphæð sem sótt er um. - Rökstuðningur
Hér þarf að skrá frekari rökstuðning eða skýringar varðandi einstaka kostnaðarliði.
Mikilvægt er að allir kostnaðarliðir séu skýrir og að gerð sé grein fyrir hugsanlegum óvissuþáttum.
Aðrir styrkir sem sótt er um eða sem verkefnið hefur hlotið
Hér skal tilgreina hvort sótt hefur verið um eða áætlað að sækja um aðra styrki og þá í hvaða sjóði. Ekki skal sækja um kostnaðarliði sem þegar hefur verið sótt um í aðra sjóði.
Leyfi til rannsóknarinnar
Leyfi vísindasiðanefndar er skilyrði fyrir rannsókn á heilbrigðissviði. Upplýsingar um heiti siðarnefndar, dagsetning samþykktar og númer þurfa að koma fram í umsókninni eftir því sem við á. Upplýsingar um tilkynningarnúmer Persónuverndar þurfa að koma fram í umsókninni eftir því sem við á. Fullnægjandi er að senda heiti siðanefndar, dagsetningu siðanefndarsamþykktar og númer siðanefndarleyfis. Ekki þarf að senda samþykktarbréf siðanefndarinnar með umsókninni. Ekki er krafist að umsækjanda hafi borist leyfi siðanefndar en umsækjandi þarf að sýna fram á að leyfið sé í afgreiðslu og senda númer siðanefndarumsóknarinnar. Til þess að fá styrkinn greiddan þá þarf að senda endanlegt siðanefndarleyfi fyrir 1. maí 2022 annars fellur styrkurinn niður. Ef rannsóknin krefst ekki leyfi frá siðanefnd þarf að geta þess sérstaklega og einnig hvort þátttakendur í rannsókninni fengu kynningarbréf og skrifað undir upplýst samþykki.
Frumumsókn eða framhaldsumsókn
Vísað er til þess hvort Vísindasjóður Fíh hafi styrkt sama verkefni áður.
Ef um er að ræða umsókn um styrk til rannsóknar sem hefur áður hlotið styrk úr B-hluta Vísindasjóðs Fíh er óskað eftir að fyllt sé út Framvinduskýrsla þar sem beðið er um yfirlit yfir framvindu verkefnisins og til hvaða þátta styrkurinn var nýttur.
Ef umsækjandi hefur áður hlotið styrk úr sjóðnum vegna rannsóknar sem er ólokið er beðið um framvinduskýrslu þess verkefnis.
Fylgiskjöl
Krafist er eftirfarandi fylgiskjala:
- Ferilskrá aðalrannsakanda og leiðbeinanda sé um nemanda að ræða.
- Mælitæki/viðtalsrammi/lýsing á íhlutun.
- Framvinduskýrslu hafi umsækjandi fengið áður styrk úr sjóðnum fyrir sama eða ólokið verkefni.
Önnur fylgiskjöl skulu fylgja eftir því sem við á og skal tölusetja þau.
B-hluti Vísindasjóðs styrkir eftirfarandi:
- Greiðsla upp í laun
Greiðsla upp í laun til rannsakenda, meistara-og doktorsnema á meðan á rannsóknarvinnu stendur og til aðstoðarfólks í afmörkuð verkefni. - Efniskostnað
Kostnaður við kaup á efni, prentun spurningalista og slíku.
Efni geta verið ýmis konar t.d. sáraumbúðir og/eða aðrar hjúkrunarvörur. - Tækjakaup
Hjúkrunar- eða lækningatæki vegna rannsóknarinnar. - Aðkeypta þjónustu
Greiðsla t.d. fyrir tölfræðiráðgjöf, þýðingu spurningalista eða innslátt og/eða meðhöndlun gagna. Yfirlestur vísindagreina á öðru tungumáli en íslensku. - Annan kostnað
Annar kostnaður sem tilfellur s.s. ferðir, veitingar o.þ.h.
B-hluti Vísindasjóðs styrkir ekki eftirfarandi:
- Klínísk þróunar- og gæðaverkefni sem eru ekki vísindarannsókn
- Kostnað vegna kynningar á niðurstöðum: Ráðstefnugjald, fargjald á ráðstefnur og gerð veggspjalda.
- Tæki sem teljast til eðlilegs skrifstofubúnaðar s.s. tölvur og prentara og blekhylki.
- Prófarkalestur á íslensku, prentun ritgerða og þýðingar (að undanskyldum þýðingum á spurningalistum)
- Tvígreiðslu launa meistara- og doktorsnema.
Helstu ástæður synjunar:
- Nauðsynleg leyfi fyrir rannsókn liggja ekki fyrir.
- Rökstuðningur fyrir kostnaði er ófullnægjandi.
- Gildi rannsókna fyrir hjúkrun er lítið eða ekki nægilegt.
- Rannsókn ekki hafin eða of stutt á veg komin.
- Ófullnægjandi umsókn.
- Bókarskrif sem ekki eru fræðiskrif.
- Þróunar- eða gæðaverkefni en ekki vísindarannsókn.
- Vísindalegt nýnæmi er lítið eða ekkert.
- Greiðsla upp í laun
Áhersluþættir við á mat gæði umsóknar og styrkhæfi
- Markmið verkefnis
- Vísindalegt gildi og gildi fyrir hjúkrun
- Staða þekkingar
- Rannsóknar- og framkvæmdaáætlun
- Kostnaðaráætlun
- Reynsla og þekking rannsakenda
- Eru umbeðin fylgiskjöl með umsókn?
- Eru nauðsynleg leyfi fyrir hendi?
- Styrkleikar og veikleikar verkefnis.
- Ef umsækjandi hefur fengið fyrri styrki:
Liðirnir hafa mismunandi mikið vægi við mat á umsókn. Mest vegur vísindalegt gildi rannsóknar og gildi hennar fyrir hjúkrun, sem eru lykilatriði.
Farið er með umsögnina sem trúnaðarmál.
Eyðublöð
Umsækjendur sem fengið hafa úthlutað úr sjóðnum áður og ekki hafa lokið þeirri rannsókn þurfa að skila framvinduskýrslu um það verkefni vilji þeir sækja aftur um í sjóðinn.
Þegar styrkþegi hefur lokið rannsókninni/verkefninu, eða þeim hluta sem styrkurinn nær til, þarf hann að sækja um að fá útborgaðan seinni hluta styrksins á þar til gerðu umsóknareyðublaði. Umsóknin sendist á netfangið [email protected].
Stjórn sjóðsins
Formaður
Marianne Klinke
Árún K. Sigurðardóttir
Rannveig Jóna Jónasdóttir
Rakel Björg Jónsdóttir
Nafn og heimili
Sjóðurinn heitir B-hluti Vísindasjóðs Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga og starfar hann með því skipulagi og markmiðum sem segir í reglum þessum. Heimili sjóðsins og varnarþing er í Reykjavík.
Markmið sjóðsins
Markmið sjóðsins er að stuðla að aukinni fræðimennsku í hjúkrun með því að styrkja rannsóknir og fræðiskrif hjúkrunarfræðinga.
Aðild
Aðild að sjóðnum eiga allir þeir hjúkrunarfræðingar sem eru félagsmenn Fíh og launagreiðendur hafa greitt fyrir í Vísindasjóð á árinu fyrir úthlutun. Kallast þeir sjóðsfélagar.
Stjórn sjóðsins
Í stjórn sjóðsins sitja fjórir hjúkrunarfræðingar með doktorspróf. Þeir eru skipaðir af stjórn félagsins til tveggja ára í senn.
Hlutverk stjórnar
Þeir fjórir fulltrúar sem eru skipaðir af stjórn Fíh fara yfir umsóknir, ákveða styrkhafa og úthluta styrkjum á grundvelli úthlutunarreglna B- hluta sjóðsins.
Tekjur sjóðsins
Tekjur B-hluta Vísindasjóðs eru 3% af tekjum Vísindasjóðs Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga og vaxtatekjur hans.
Hlutverk sjóðsins
Hlutverk sjóðsins er að styrkja sjóðsfélaga sem vinna að rannsóknum og fræðiskrifum sem gildi hafa fyrir hjúkrun. Sérstök áhersla er lögð á að styrkja klínískar rannsóknir í hjúkrun. Sjóðsfélagar sem eru í námi geta sótt um styrk til að vinna rannsóknarverkefni til meistaragráðu (30 einingar ECTS hið minnsta) eða doktorsgráðu.
Umsóknir
Þeir sem æskja styrks úr sjóðnum skulu senda stjórn sjóðsins umsókn á þar til gerðu eyðublaði með þeim upplýsingum sem stjórn sjóðsins telur nauðsynlegar.
Umsókn og fylgiskjöl skulu berast rafrænt á netfangið [email protected] fyrir miðnætti þann 15. mars ár hvert.
Umsækjendum er bent á að vönduð umsókn eykur líkur á styrkveitingu.Upphæð styrkja
Um er að ræða samkeppnissjóð. Upphæð styrkja ræðst af fjármagni sjóðsins hverju sinni, fjölda umsókna og gæðum og fjárhagsáætlun rannsóknar.
Afhending styrkja
Rannsóknarstyrkjum er úthlutað einu sinni á ári, að vori. Styrkurinn er greiddur út í tveimur áföngum. Við afhendingu styrksins er greiddur út fyrri helmingur hans og seinni helmingur við lok rannsóknar eða skil á þeim hluta sem styrkurinn náði til. Til að fá seinni helminginn greiddan þarf styrkhafi að senda til sjóðstjórnar umsókn um greiðslu seinni hluta styrksins á eyðublað sem er að finna á vefsvæði Fíh svo og tilskilin gögn. Tilskilin gögn geta verið lokaskýrsla, kynning á niðurstöðum og úrvinnslu eða handrit að grein í ritrýnt tímarit.
Einstaklingar sem hlotið hafa styrk til vísindastarfa í doktorsnámi geta fengið seinni hluta styrks greiddan þegar doktorsritgerð eða handrit að grein í ritrýnt tímarit berst til sjóðsins, hvort sem er fyrr. Handritið skal fjalla um hluta af niðurstöðum eða allar niðurstöður úr rannsókn sem unnin var í doktorsnáminu. Handritið skal hafa leiðbeinanda/fulltrúa úr doktorsnefnd sem meðhöfund.
Sviðstjóri fagsviðs Fíh hefur umsjón með styrkgreiðslum.
Endurgreiðsla
Verði ekkert úr verkefni eða því ekki lokið af einhverjum ástæðum innan þess tíma er gert var ráð fyrir skal styrkþegi gera stjórn vísindasjóðs grein fyrir ástæðum þess og endurgreiða þann hluta styrksins sem ekki hefur verið notaður til verkefnisins.
Ef seinni hluti styrks hefur ekki verið sóttur tveimur árum eftir áætluð verkefnalok og stjórn sjóðsins ekki verið gerð grein fyrir ástæðunni fellur styrkurinn niður og leggst við úthlutunarfé B-hluta Vísindasjóðs að ári.Samþykktar á aðalfundi Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga 19. maí 2011.
Uppfært í júní 2020.