Orlofssjóður
Sjóðfélagar orlofssjóðs eru hjúkrunarfræðingar sem greiða í orlofssjóð, og byggir sjóðurinn á punktakerfi. Sjóðfélagar ávinna sér 1 punkt fyrir hvern unninn mánuð á ári, og geta nýtt sér þá svo lengi sem punktaeign sé nægjanleg fyrir viðskiptum. Þetta á líka við um eftirlaunaþega þar til punktar þeirra eru uppurnir. Til að geta gengið frá kaupum á vef orlofssjóðs er nauðsynlegt að hafa Íslykil eða rafræn skilríki.
Orlofshúsnæði
Athugið að neðangreint á ekki við um sumarúthlutanir orlofshúsa, þar er punktastýrð forgangsopnun. Sjá nánar undir flipanum punktar.
Fyrsta hvers mánaðar kl. 9:00 opnar bókunarkerfi orlofsvefsins fyrir bókanir þremur mánuðum síðar eins og segir í töflunni hér neðan við, og forgangsopnun fyrir íbúðir í Reykjavík og í Furulundi á Akureyri er 15. hvers mánaðar (sjá nánar um forgangsopnun hér neðar).
Athugið að ekki er hægt að afbóka leigu á orlofshúsnæði félagsins meðan skrifstofa Fíh er lokuð.
Þann fyrsta hvers mánaðar hefst skráning fyrir bókanir þremur mánuðum síðar
janúar -> apríl
febrúar -> maí
mars -> júní
apríl -> júlí
maí -> ágúst
júní -> september
júlí - > október
ágúst- > nóvember
september -> desember
október -> janúar
nóvember -> febrúar
desember -> marsSjóðfélagar sem eiga lögheimili utan höfuðborgarsvæðisins og Akureyrar hafa tveggja vikna forgang í þær íbúðir sem eru utan þeirra búsetusvæðis. Þetta á við um íbúðina í Sóltúni, á Klapparstíg og í Furulundi.
Þannig opnast bókunarkerfi Orlofsvefs á þessum svæðum fyrsta hvers mánaðar fyrir þá sjóðfélaga sem þar eiga lögheimili en þann 15. þess mánaðar sem á undan fer fyrir aðra sjóðfélaga.
Sjóðfélögum er óheimilt að framleigja öðrum leigurétt sinn eða leyfa öðrum að leigja orlofshúsnæði Fíh í sínu nafni.
Flakkarar eru orlofshúsnæði sem hægt er að leigja í stakar nætur yfir sumartímann. Fyrir hverja leigða nótt eru dregnir frá 2-4 punktar og greitt frá 5.000 kr. stakar nætur í miðri viku. Mögulegt er að leigja fleiri nætur í röð, en þó aldrei fleiri en sjö og gildir þá vikuverð. Flakkarahúsin eru Furulundur á Akureyri og íbúðirnar í Reykjavík.
Viðskipti með orlofshúsnæði eru punktalaus á veturna ef:
- Leigutími hefst innan viku frá bókun
- Eingöngu eru bókaðir dagar í miðri viku
Punktar
Hver sjóðfélagi ávinnur sér 1 punkt fyrir hvern unninn mánuð. Uppfærsla á orlofspunktum fer fram í lok febrúar ár hvert skv. skilagreinum frá vinnuveitanda fyrir árið á undan. Hafi skilagreinar ekki borist frá vinnuveitendum fyrir undangengið ár verða þeir punktar ekki uppfærðir fyrr en í febrúar ári síðar. Fjöldi punkta stýrir því hverjir eru í forgangi til bókunar á orlofshúsnæði hverju sinni, og þeir ganga fyrir sem flesta punkta eiga. Punktar eru dregnir frá við bókun, en eru þó ekki greiðsla fyrir leigu.
Punktastýrð forgangsopnun á bókun orlofshúsnæðis fyrir sumartíma 2025. Einungis þeir sem eiga tilskilinn fjölda orlofspunkta komast inn á orlofsvef til að bóka fyrir orlofstímabilið (júní, júlí og ágúst), vefurinn opnar kl.10:00 þannig að:
Orlofsvefurinn verður stilltur þannig að einungis þeir sjóðfélagar sem eiga tilskilinn fjölda orlofspunkta og hafa ekki leigt síðastliðinn 2 ár í júní, júlí og ágúst geta bókað á eftirfarandi dögum:
Frá 11.mars kl.10:00 - 112 punkta og fleiri og hafa ekki leigt orlofshús síðastliðin 2 ár, geta bókað og greitt
Frá 12.mars kl.10:00 - 82 punkta og fleiri og hafa ekki leigt orlofshús síðastliðin 2 ár, geta bókað og greitt
Frá 13.mars kl.10:00 - 15 punkta og fleiri og hafa ekki leigt orlofshús síðastliðin 2 ár, geta bókað og greitt
Sumarbókanir gilda ekki um flökkuíbúðir, þær fylgja áfram hefðbundinni opnun fyrsta hvers mánaðar og 15.hvers mánaðar fyrir þá sjóðfélaga sem eiga lögheimili utan þess sveitarfélag sem við á. Flökku íbúðirnar eru, Furulundur á Akureyri, Sóltún og Klapparstígur í Reykjavík.
Almenn opnun fyrir bókanir í orlofshúsin fyrir sumarið verður svo þriðjudaginn 1.apríl 2025, þ.e.a.s. fyrir alla sjóðfélaga burt séð frá því hvort þeir hafi leigt s.l. 2 ár eða ekki, en þeir verða eftir sem áður að eiga nægilega marga punkta.
Við bókun orlofshúsnæðis eru punktar dregnir frá fyrir vikuleigu, íbúðir eða hús erlendis eru undanskilin frá þessari reglu:
6 -13. júní 15 punktar í frádrátt
13.júní til 15.ágúst 20 punktar
15.ágúst til 29.ágúst 15.punktar
Flakkarar eru orlofshúsnæði sem hægt er að leigja í stakar nætur yfir sumartímann í miðri viku. Fyrir hverja leigða nótt eru dregnir frá 2-4 punktar og greitt frá 5.500 kr. stakar nætur í miðri viku. Mögulegt er að leigja fleiri nætur í röð, en þó aldrei fleiri en sjö og gildir þá vikuverð. Flakkarahúsin eru Furulundur á Akureyri og íbúðirnar í Reykjavík.
Afbókanir
Hver notandi getur afbókað sjálfur með því að fara inn á orlofssvefinn og velja viðkomandi hús og fella niður bókun, eða hafa samband við skrifstofu Fíh.
Sé afbókað með viku fyrirvara eða meira fæst 80% leigufjárhæðar endurgreiddar ásamt punkta endurgreiðslu. Endurgreiðslan lækkar síðan um 10% hvern dag og fellur niður þegar aðeins tveir dagar eru fram að leigutíma.
Við neyðaraðstæður áskilur Fíh sér rétt til þess að afturkalla leigu félagsfólks á orlofshúsi án fyrirvara. Við neyðaraðstæður á félagsfólk rétt á fullri endurgreiðslu leigufjárhæðar. Frekari bótaréttur skapast ekki.
Gjafabréf og kort
Gjafabréf og kort eru fáanleg á orlofsvef félagsins undir liðnum Gjafabréf. Bréfin og kortin eru á sérstökum kjörum fyrir sjóðfélaga og eru niðurgreidd af Orlofssjóði.
Gjafabréf Icelandair gilda í fimm ár frá útgáfudegi (til Fíh). Gjafabréfin eru að andvirði kr. 30.000. Hægt er að kaupa allt að tvö gjafabréf í flug á ári á meðan birgðir endast. Athugið að ekki er hægt að greiða með gjafabréfi eftir að ferðin hefur verið bókuð og greidd og ekki er hægt að fá gjafabréf endurgreidd hjá Fíh.
Verð pr. bréf: kr. 21.150 og 3 punktar
Orlofssjóður niðurgreiðir fyrir sjóðfélaga 4 flugmiða á ári frá Flugfélaginu Erni. Einungis flugmiðar á nafni og kennitölu sjóðfélaga eru niðurgreiddir. Niðurgreiðslan fer fram með millifærslu inn á reikning sjóðfélaga eftir að hann hefur sent kvittun fyrir flugmiða og afrit af honum, með nafni og kennitölu á [email protected].
Niðurgreiðsla flugmiða: kr. 7.500 og 2 punktar
Ódýrari gisting býðst gegn framvísun hótelmiða sem kaupa má á vef Orlofssjóðs. Verð eru mismunandi eftir árstíðum, hótelum og stærð herbergja.
Hey Iceland gjafabréf (heyrir undir Ferðaþjónustu bænda) býður upp á gistingu á yfir 170 gististöðum um allt land auk þess að bjóða upp á veitingar og fjölbreytta afþreyingu. Fyrir 4.900 kr. og 2 punkta fá sjóðfélagar kóða að andvirði kr. 10.000.
Sjá nánari upplýsingar Hey Iceland undir gjafabréf.
Sjóðfélagi getur keypt 2 gjafabréf að verðmæti 20.000 kr. á ári. Athugið að aðeins er hægt að nota eitt gjafabréf á mann í ferð hjá Útivist og aðeins í þær ferðir sem auglýstar eru í ferðaáætlun félagsins.
Verð Útivist kr. 10.000 og 2 punktar
Verð Ferðafélags Íslands kr. 13.400 og 2 punktarVeiðikortið veitir handhafa ótakmarkaða veiði í 35 veiðivötnum víðs vegar á landinu, og einnig er hægt að tjalda endurgjaldslaust við mörg þeirra. Einungis er hægt að kaupa tvö veiðikort á ári. Í ítarlegum bæklingi sem fylgir kortinu eru vötnin kynnt sem og þær reglur sem gilda við hvert vatnasvæði.
Verð: kr. 5.900 og 1 punktur
Kortið veitir eiganda þess, maka og fjórum börnum undir 16 ára aldri fría gistingu á tjaldsvæðum samstarfsaðila Útilegukortsins utan gistináttaskatts sem er kr. 111 pr einingu. Engin takmörk eru fyrir því hve oft má koma á hvert tjaldsvæði en einungis má gista í fjórar nætur samfellt í hvert skipti á hverju tjaldsvæði.
Nánari upplýsingar um tjaldstæðin er að finna á www.utilegukortid.is
Menningarkort Reykjavíkur gildir sem árskort í Listasafn Reykjavíkur (Hafnarhús, Kjarvalsstaði og Ásmundarsafn), Borgarsögusafn Reykjavíkur (Árbæjarsafn, Landnámssýningu og Sjóminjasafn) og fá handhafar auk þess bókasafnskort í Borgarbókasafn Reykjavíkur. Kortið gildir á allar sýningar og viðburði á vegum safnanna og veitir að auki 10% afslátt á veitingastaði safnanna, safnverslanir og fleira. Hver sjóðfélagi getur keypt 2 kort. Kortið er virkjað í fyrstu notkun og gildir í eitt ár frá þeim degi.
Nánari upplýsingar er að finna á www.menningarkort.isVerð kr. 4.200 og 1 punktur
Spánarfrí bjóða félagsmönnum hjá Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga áfram sérstakan afslátt fyrir vikuna á stjörnumerktum ** húsum.
Um leið og bókað er þarf að taka fram að um félagsmenn Fíh sé að ræða til að fá afsláttinn. Þeir útvega einnig akstur til og frá flugvelli svo og bílaleigubíla. Farið er inn á neðangreinda slóð til þess að velja sér hús við hæfi:
Stjórn sjóðsins
Formaður
Inga Valborg Ólafsdóttir
Heiða Björk Gunnlaugsdóttir
Ása María Guðjónsdóttir
Guðrún Bragadóttir
Margrét Halldórsdóttir
Starfsreglur sjóðsins
1.gr. Nafn og heimili
Sjóðurinn heitir Orlofssjóður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga og starfar hann með því skipulagi og markmiði sem segir í reglum þessum. Heimili sjóðsins og varnarþing er í Reykjavík.
2.gr.Hlutverk
Sjóðnum er ætlað að auðvelda sjóðfélögum að njóta orlofs. Sjóðurinn rekur orlofshúsnæði félagsins og hefur einnig það hlutverk að semja um aðra orlofsmöguleika fyrir sjóðfélaga.
3.gr. Réttur til aðildar að sjóðnum
Rétt til aðildar að sjóðnum eiga allir þeir hjúkrunarfræðingar sem starfa hjá vinnuveitendum sem gert hafa kjarasamning við Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga (Fíh) um greiðslur í Orlofssjóð Fíh fyrir viðkomandi hjúkrunarfræðinga, hér eftir nefndir sjóðfélagar.
Þeir sjóðfélagar sem njóta fullra réttinda í Orlofssjóði Fíh við töku lífeyris viðhalda sjóðsaðild á meðan þeir eiga punkta. Um frekari punktaávinnslu er ekki að ræða.
Sama gildir um fagaðila, atvinnuleitendur og öryrkja. Þeir viðhalda sjóðsaðild á meðan þeir eiga punkta í sjóðnum en um frekari punktaávinnslu er ekki að ræða.
Sjóðfélagar í fæðingarorlofi njóta óskertra réttinda ef þeir greiða félagsgjöld af greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði. Sjóðfélagar í fæðingarorlofi ávinna sér þó ekki punkta.
4.gr. Stjórn
Stjórn sjóðsins skipa fimm félagsmenn kjörnir á aðalfundi úr hópi þeirra félagsmanna sem rétt eiga, samkvæmt reglum Orlofssjóðs, til úthlutunar úr sjóðnum. Stjórn Orlofssjóðs skal kjörin til tveggja ára í senn. Í stjórn skulu vera formaður, gjaldkeri, ritari og meðstjórnendur og skal stjórn skipta með sér verkum. Stjórn haldi gerðabók.
5. gr. Skyldur sjóðsstjórnar
Stjórn Orlofssjóðs kemur saman eins oft og þurfa þykir. Hún ber ábyrgð á reglum varðandi úthlutanir úr sjóðnum. Allar breytingar þar á skal bera undir stjórn Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga til staðfestingar.
Stjórn Orlofssjóðs skal kynna með góðum fyrirvara þá þjónustu sem stendur félagsmönnum til boða á hverjum tíma svo og umsóknarfresti.
Stjórn Orlofssjóðs sér um að eignum sjóðsins sé vel við haldið og er vakandi fyrir nýjum möguleikum varðandi orlof félagsmanna.
Fyrir aðalfund Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga skal stjórn Orlofssjóðs leggja fram skýrslu um starfsemi og reikninga sjóðsins. Fjármálastjóri félagsins gerir grein fyrir reikningum og fjárhagsáætlun sjóðsins á aðalfundi Fíh.
6.gr. Skyldur vinnuveitenda
Vinnuveitendur greiða iðgjald til sjóðsins sem nemur 0,25% af heildarlaunum sjóðfélaga, sbr. ákvæði kjarasamninga Fíh um framlag í Orlofssjóð.
7.gr. Réttur sjóðfélaga
Sjóðfélagar hafa rétt til að nýta sér þjónustu sjóðsins samkvæmt reglum hans á hverjum tíma. Upplýsingar um þjónustu sjóðsins skulu ávallt vera vel uppfærðar á vefsvæði Fíh.
Sjóðfélagi ávinnur sér einn punkt fyrir hvern mánuð sem vinnuveitandi greiðir í sjóðinn fyrir viðkomandi.
8.gr. Skyldur sjóðfélaga
Sjóðfélögum ber skylda til að ganga vel um þær eignir sem Orlofssjóður Fíh á eða hefur á leigu. Sjóðfélagi ber ábyrgð á því húsnæði sem hann hefur á leigu og öllu sem því fylgir. Hann skuldbindur sig til að bæta það tjón sem verða kann af hans völdum, hvort heldur er af ásetningi eða gáleysi.
Framleiga á leigurétti:
Bannað er að framleigja öðrum leigurétt eða leyfa öðrum óviðkomandi að leigja í sínu nafni eignir Orlofssjóðs eða þær sem sjóðurinn hefur á leigu. Ef sjóðfélagi verður uppvís að framleigu á leigurétti eða hefur leyft öðrum óviðkomandi að leigja í sínu nafni er hann áminntur, en skal leyft að tala sínu máli. Við endurtekið brot á ofangreindu banni missir sjóðfélagi rétt til úthlutunar orlofshúsnæðis í þrjú ár.
Umgengni:
Fylgja skal umgengnisreglum og reglum er varða þrif sem birtar eru á orlofsvef og eru til staðar í orlofshúsnæði. Áminnt er vegna brota á umgengnisreglum og fær sjóðfélagi að tala sínu máli. Ef þrifum á orlofshúsnæði sjóðsins er ábótavant ber leigutaka að greiða sérstakt þrifagjald kr. 15.000 miðað við vísitölu neysluverðs þess árs. Sé reikningur ekki greiddur í síðasta lagi á eindaga fer hann í innheimtu með tilheyrandi kostnaði. Við endurtekið brot á umgengnisreglum missir sjóðsfélagi rétt til leigu orlofshúsnæðis í tvö ár.
Ábendingar:
Ef orlofsaðstöðu er ábótavant eru sjóðfélagar beðnir um að láta umsjónamann vita sem allra fyrst eða skrifstofu Fíh.
9.gr. Bókun (úthlutun)
Bókanir eru byggðar á punktaeign sjóðfélaga. Fyrir hvern orlofskost dregst einn eða fleiri punktar frá punktaeign sjóðfélaga.
Bókanirs orlofshúsa fyrir sumur er forgangsraðað eftir fjölda punkta sem sjóðfélagar eiga. Sumarorlofstímabilið hvers árs er frá júní til ágúst.
Allar pantanir og bókanir fara fram á rafrænu formi og í gegnum forrit sem raðar umsóknum eftir punktaeign sjóðfélaga. Hefja skal punktastýrða sumarbókun orlofshúsa eigi síðar en 1.apríl ár hvert.
Sjóðfélagi sem hefur nýtt punkta sína að fullu á ekki rétt á úthlutunum eða niðurgreiðslu orlofskosta hjá sjóðnum.
Sjóðfélögum og félagsmönnum, sem eiga ekki punkta, er heimilt að leigja bústaði og íbúðir félagsins með viku fyrirvara.
10.gr. Tekjur
Stofnfé sjóðsins er Orlofssjóður Hjúkrunarfélags Íslands. Tekjur Orlofssjóðs eru kjarasamningsbundnar greiðslur launagreiðenda sjóðfélaga, vextir og aðrar tekjur af eignum sjóðsins svo og gjafir.
11.gr. Rekstur
Stjórn Orlofssjóðs fer með rekstur sjóðsins í umboði stjórnar félagsins. Allar mikilvægar ákvarðanir varðandi rekstur, fjárfestingar, skuldbindingar, kaup eða sölu eigna skal bera undir stjórn Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga.
Sjóðurinn skal hafa sjálfstætt bókhald og vera ávaxtaður sérstaklega. Reikningsár sjóðsins er almanaksárið. Rekstur sjóðsins skal standa undir sér.
Löggiltir endurskoðendur Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga og kjörnir skoðunarmenn reikninga, endurskoði reikninga Orlofssjóðs.
Stjórn Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga ber ábyrgð á eigum sjóðsins. Verði Orlofssjóður lagður niður ráðstafar aðalfundur Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga eigum hans.
12.gr. Úrsögn
Sjóðfélagi telst segja sig úr Orlofssjóði Fíh ef umsamin orlofssjóðsframlög skv. 3. gr. hætta að berast sjóðnum.
Sjóðfélagi getur ekki gert kröfu um hlutdeild í eigum sjóðsins við úrsögn.
Sjóðfélagar eru lífeyrisþegar, fagaðilar, atvinnuleitendur og öryrkjar, teljast segja sig úr sjóðnum þegar punktaeign þeirra er uppurin sbr. 3. gr.
Gildistaka og önnur ákvæði
Reglum Orlofssjóðs Fíh verður aðeins breytt á aðalfundi félagsins. Samþykki aðalfundur breytingar á reglum sjóðsins verða þær kynntar á viðeigandi vettvangi og uppfærðar á vefsvæði félagsins.
Reglur þessar tóku gildi á aðalfundi Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga 18. maí 2017.