Um fagdeildina
Fagdeild nýrnahjúkrunarfræðinga var stofnuð 5. apríl 2011. Hlutverk hennar er m.a. að vinna að framgangi hjúkrunar nýrnasjúklinga í samvinnu við fagsvið Fíh og vera stjórn Fíh og nefndum til ráðgjafar í öllu sem snýr að hjúkrun einstaklinga með sjúkdóma í nýrum og aðstandendum þeirra.
Hjúkrun nýrnasjúklinga er þverfaglegt starf sem margir aðilar koma að, s.s. næringarráðgjafar, félagsráðgjafar, sjúkraþjálfarar og heimahjúkrun. Sjúklingahópurinn hefur oft önnur fjölþætt heilsufarsvandamál, s.s. hjarta- og æðasjúkdóma, sykursýki, sjálfsofnæmissjúkdóma og geðsjúkdóma.
Hjúkrunarvandamál þeirra eru þannig margvísleg og krefjast mikillar kunnáttu og færni af þeim sem sinna þessum hópi. Mikilvægt er því að heildræn nálgun sé í hjúkrunarmeðferðinni og tekið tillit til óska og þarfa sjúklingsins og aðstandenda hans.
Markmið fagdeildarinnar og skilyrði fyrir aðild má finna í starfsreglum Fagdeildar nýrnahjúkrunarfræðinga, sem voru samþykktar í júní 2011.
Styrktarsjóður
Starfsreglur styrktarsjóðs
- Umsjón með úthlutunum hefur stjórn Fagdeildar Nýrnahjúkrunarfræðinga.
- Úthlutað er tvisvar á ári og þurfa umsóknir að berast fyrir 1.apríl og 1.október ár hvert.
- Umsækendur skulu hafa verið félagar í Fagdeild Nýrnahjúkrunarfræðinga í að minnsta kosti 1 ár og skuldlausir.
- Styrkir eru eingöngu veittir á fagsviði nýrnahjúkrunar.
- Sækja þarf um styrk á þar til gerðu eyðublaði merktu Fagdeild Nýrnahjúkrunarfræðinga.
- Styrkþegar mega vænta þess að vera beðnir um að kynna verkefni sín á fundum fagdeildarinnar.
- Heildarupphæð styrkja á ári er 150.000 kr.
Hver styrkur nemur að hámarki 50.000 kr. Sækja má um styrk annað hvert ár.
Umsóknum verður raðað í forgangsröð og miðast við tímalengd aðildar að Fagdeildinni. Þeir sem hafa fengið styrk úr lenda aftar í röðinni. - Eldri verkefni en 12 mánaða eru ekki styrkhæf.
- Styrkjum verður úthlutað samkvæmt framvísun reikninga ( Sjá reglur Félagsins um framlögð skjöl). Berist ekki gögn fyrir 1.apríl árið á eftir fellur styrkurinn niður.
- Starfseglur um úthlutun skulu yfirfarnar og endurmetnar árlega á aðalfundi Fagdeildarinnar.
Þegar umsóknareyðublað er sótt þarf að vista eyðublaðið , fylla það út og setja síðan á póstviðhengi og senda á [email protected]
Stjórn
Formaður
Sigríður Einarsdóttir
Gjaldkeri
Selma Maríusdóttir
Meðstjórnandi
Hildigunnur Friðjónsdóttir
Meðstjórnandi
Leila Esteban
Meðstjórnandi
Heiða Björg Ingadóttir Hjelm
Starfsreglur
1. grein
Fagdeildin heitir Fagdeild nýrnahjúkrunarfræðinga innan Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga (Fíh).
2. grein
Heimili og varnarþing Fagdeildar nýrnahjúkrunarfræðinga er í Reykjavík, en umdæmið er landið allt.
3. grein
Hlutverk Fagdeildar nýrnahjúkrunarfræðinga er að vinna að framgangi hjúkrunar nýrnasjúklingar í samvinnu við fagsvið Fíh og vera stjórn Fíh og nefndum til ráðgjafar í öllu því er snýr að hjúkrun einstaklinga með sjúkdóma í nýrum og aðstandenda þeirra.
4. grein
Markmið Fagdeildar nýrnahjúkrunarfræðinga eru að:
- hafa áhrif á stefnumótun í heilbrigðismálum einkum er lýtur að þjónustu við einstaklinga með sjúkdóma í nýrum
- bæta menntun hjúkrunarfræðinga í hjúkrun einstaklinga með sjúkdóma í nýrum og hvetja hjúkrunarfæðinga til að viðhalda og auka þekkingu sína á því sviðihvetja til rannsókna í hjúkrun einstaklinga með sjúkdóma í nýrum og fylgjast með nýjungum
- stuðla að aukinni fræðslu til almennings um sjúkdóma í nýrum og efla forvarnir
- stuðla að góðu samstarfi við hjúkrunarfræðinga á Íslandi og efla tengsl við erlend samtök nýrnahjúkrunarfræðinga
- stuðla að bættri þjónustu við einstaklinga með sjúkdóma í nýrum og aðstandendur þeirra í samstarfi við aðrar fagstéttir
- kynna og koma á framfæri málefnum einstaklinga með sjúkdóma í nýrum
- stuðla að góðu samstarfi við Félag nýrnasjúkra og önnur hagsmunasamtök
5. grein
Félagar geta orðið allir hjúkrunarfræðingar innan Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga sem hafa áhuga á hjúkrun sjúklinga með sjúkdóma í nýrum. Sótt er um aðild að fagdeildinni til stjórnar Fagdeildar nýrnahjúkrunarfræðinga.
Nýrnahjúkrunarfræðingar starfa við hjúkrun einstaklinga með sjúkdóma í nýrum, bæði bráða og langvinna og á öllum aldri. Þeir starfa m.a. á nýrnadeildum, skilunardeildum, göngudeildum og barnadeildum.
6. grein
Stjórn Fagdeildar nýrnahjúkrunarfræðinga skipa 3 félagsmenn: formaður, ritari og gjaldkeri og er hún kosin á aðalfundi til tveggja ára. Tveir stjórnarmenn skulu kosnir á oddatölu ári og einn þegar árið er slétt tala. Mælst er til að einn stjórnarmaður sé með framhaldsnám í hjúkrun nýrnasjúklinga. Einfaldur meirihluti ræður kjöri. Stjórnin skiptir með sér verkum á fyrsta stjórnarfundi eftir aðalfund.
7. grein
Aðalfundur skal haldinn fyrir 15. mars ár hvert. Aðalfund skal boða skriflega með tveggja vikna fyrirvara hið minnsta. Aðalfundur er löglegur sé löglega til hans boðað.
Dagskrá aðalfundar:
Ársskýrsla stjórnar
Endurskoðaðir ársreikningar lagðir fram
Kosning stjórnar skv. 6. gr.
Kosning tveggja skoðunarmanna reikninga
Ákvörðun árgjalds
Önnur mál
Mánuði fyrir aðalfund skal stjórn fagdeildarinnar skipa tvo félagsmenn í kjörnefnd. Hlutverk kjörnefndar er að finna félagsmenn sem gefa kost á sér til trúnaðarstarfa fyrir fagdeildina. Leitast skal við að skipan framboða sé þannig að hver starfsstöð nýrnahjúkrunarfræðinga eigi þar fulltrúa. Kjörgengnir eru allir félagsmenn fagdeildarinnar sem greitt hafa árgjald.
8. grein
Fagdeild nýrnahjúkrunarfræðinga skal standa fyrir málþingi eða námsstefnu ekki sjaldnar en annað hvert ár. Stjórn fagdeildarinnar er heimilt að skipa starfsnefndir til að taka að sér ákveðin verkefni.
9. grein
Starfsreglum þessum má aðeins breyta á aðalfundi og skulu skriflegar tillögur um breytingar á reglum berast stjórn eigi síðar en einni viku fyrir aðalfund. Sama gildir um ákvörðun um slit fagdeildarinnar sem verður aðeins tekin á aðalfundi með einföldum meirihluta félagsmanna og renna þá eignir hennar til Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga.
Tenglar
Félag nýrnasjúkra: nyra.is
Norðurlandasamstarf, Nordiatrans: www.nordiatrans.org
Evrópu samstarf: www.edtnaerca.org
Bandarískt samstarf: www.annanurse.org