Um deildina
Deild sérfræðinga í hjúkrun var stofnuð sumarið 2017. Deildin vinnur að framgangi sérfræðiþekkingar í hjúkrun. Markmið deildarinnar eru meðal annars að taka þátt í stefnumótun varðandi þróun og framkvæmd á lögum og reglum varðandi veitingu og viðhaldi sérfræðileyfa í hjúkrun, að hafa áhrif á lagasetningar varðandi útvíkkað starfsvið sérfræðinga í hjúkrun, að auðvelda aðgengi að sérfræðiráðgjöf í hjúkrun og veita umræðugrundvöll og stuðning við starfandi sérfræðinga í hjúkrun.
Rétt til aðildar hafa allir félagsmenn innan Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga sem hafa gilt sérfræðileyfi í hjúkrun á Íslandi.
Vilt þú veita verðandi sérfræðingi í hjúkrun leiðsögn?
Sendu okkur póst á [email protected] með nafni og netfangi, starfsstöð og sérsviði.
Leiðsagnaraðilar
Hjúkrun einstaklinga með sykursýki og langveikra sjúklinga
Árún Kristín Sigurðardóttir
Merki deildarinnar
Í tilefni af ári hjúkrunar, 2020, ákvað stjórn deildar sérfræðinga í hjúkrun að láta hanna merki fyrir deildina. Við hönnun á merkinu var haft að leiðarljósi hvað það er sem sérfræðingar standa fyrir; reynsla, leiðtogahlutverkið, þekking, vísindi, fræðsla og gæði. Jafnframt þurfti það að vera stílhreint, almennt og ná yfir öll svið hjúkrunar. Við hönnunarvinnuna kom upp yfirhugtakið eldhugar og út frá því þróaðist sú hugsun að nota loga í merkinu. Það tengdum við m.a. við lampa Florence Nightingale sem táknræna mynd um leiðtogahlutverkið og loga þekkingarinnar sem Prómetheus (úr grískri goðafræði) gaf mannkyninu. Þannig má sjá að það er loginn sem lýsir okkur leið við vísindi og öflun þekkingar og gegnir jafnframt því hlutverki að færa ljós þangað sem myrkur er í sem víðustum skilningi.
Litirnir í merkinu styðjast við litina í merki Fíh og í loganum má jafnframt sjá stafinn S sem stendur fyrir orðið sérfræðingur.
Á aðalfundi Deildar sérfræðinga í hjúkrun í mars 2020 var merkið, sem hannað var af Fjölprent, svo loks kynnt fyrir fundarmönnum við góðar undirtektir. Merkið hafði þá þegar verið samþykkt af Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga.
Það er von núverandi stjórnar að merkið muni nýtast félagsmönnum vel í framtíðinni og komi fram í þeim verkum og kynningarefni sem deildin stendur að eða tekur þátt í héðan í frá.
Stjórn
Formaður
Rut Gunnarsdóttir
Sérfræðingur í hjúkrun langveikra sjúklinga, Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins
Varaformaður
Guðbjörg Guðmundsdóttir
Sérfræðingur í krabbameinshjúkrun, Landspítali
Gjaldkeri
Sólrún W Kamban
Sérfræðingur í í barna- og fjölskylduhjúkrun, Landspítali
Ritari
Hafdís Lilja Guðlaugsdóttir
Sérfræðingur í hjúkrun einstaklinga með sykursýki, Heilbrigðisstofnun Suðurnesja HSS
Meðstjórnandi
Hlíf Guðmundsdóttir
Sérfræðingur í hjúkrun aldraðra, Landspítali
Starfsreglur
Nafn deildar
Nafn deildarinnar er Deild sérfræðinga í hjúkrun. Deildin starfar innan Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga. Heimili og varnarþing er í Reykjavík en umdæmið er landið allt. Lög Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga eru lög deildarinnar.
Hlutverk og markmið
Deild sérfræðinga í hjúkrun vinnur að framgangi sérfræðiþekkingar í hjúkrun. Deildin er stjórn Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga og nefndum til ráðgjafar um þau málefni sem krefjast þekkingar og reynslu sérfræðinga í hjúkrun.
Markmið deildarinnar eru:
- Að taka þátt í stefnumótun varðandi þróun og framkvæmd á lögum og reglum varðandi veitingu og viðhaldi sérfræðileyfa í hjúkrun.
- Að hafa áhrif á lagasetningar varðandi útvíkkað starfsvið sérfræðinga í hjúkrun.
- Að vera virkur samstarfsaðili heilbrigðisstofnana í þróun og fjölgun á sérfræðistöðum í hjúkrun á viðkomandi stofnun.
- Að vera virkur þátttakandi í umræðum í samfélaginu um þverfaglegt samstarf í heilbrigðisþjónustu ásamt eflingu á hlutverki og ábyrgð hjúkrunarfræðinga í því samhengi.
- Að vera ráðgefandi fyrir hjúkrunarfræðinga sem leita leiðsagnar sérfræðinga í hjúkrun á sínu sérfræðisviði samkvæmt reglugerð um veitingu sérfræðileyfa í hjúkrun.
- Að vera í virku samstarfi við Háskóla Íslands og Háskólann á Akureyri um þróun sérfræðináms í hjúkrunarfræði.
- Að auðvelda aðgengi að sérfræðiráðgjöf í hjúkrun.
- Að efla fagmennsku og þróun í hjúkrun.
- Að efla gæði hjúkrunar og stuðla þannig að bættum hag skjólstæðinga hjúkrunar.
- Að veita umræðugrundvöll og stuðning við starfandi sérfræðinga í hjúkrun.
Aðild
Rétt til aðildar hafa allir félagsmenn innan Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga (full aðild, fagaðild, lífeyrisaðild) sem hafa gilt sérfræðileyfi í hjúkrun á Íslandi. Almennt er miðað við að félagsmenn hafi háskólamenntun í hjúkrunarfræði, krafa sem fyrst kom fram í reglugerð no. 426/1993 um veitingu sérfræðingsleyfa í hjúkrun. Sá sem óskar eftir aðild þarf að sækja um inngöngu til stjórnar deildarinnar sem ákveður um deildaraðild.
Aðalfundur
Aðalfundur hefur æðsta vald í málefnum deildarinnar. Aðalfund skal halda árlega fyrir 15. mars. Stjórn ákveður tíma og fundarstað. Boða skal til aðalfundar rafrænt með minnst tveggja vikna fyrirvara. Aðalfundur telst löglegur ef löglega er til hans boðað. Fundarboði skal fylgja dagskrá og tillögur sem leggja á fyrir fundinn.
Dagskrá aðalfundar:
- Skýrsla stjórnar
- Endurskoðaðir ársreikningar lagðir fram
- Árgjald ákveðið
- Starfsreglur deildar
- Reglubreytingar
- Kosning stjórnar samkvæmt 5. grein
- Kosning skoðunarmanna reikninga
- Önnur mál
Einfaldur meirihluti ræður við afgreiðslu mála. Löglega boðaður aðalfundur hefur óskorðaðan rétt til afgreiðslu mála án tillits til þess hve margir fundarmenn eru mættir. Stjórn leggur fram ársskýrslu um starfsemi deildarinnar sem samþykkt hefur verið á aðalfundi, til stjórnar Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga fyrir lok marsmánaðar ár hvert. Á aðalfundi er einnig fjallað um tillögur félagsmanna.
Stjórn
Stjórn skal skipuð fimm félögum; formanni, varaformanni, ritara, gjaldkera og einum meðstjórnanda. Formaður skal kosinn sérstaklega til tveggja ára. Árlega skulu kosnir tveir stjórnarmenn. Kjörtímabil er tvö ár og endurkjör er heimilt. Þó skal enginn sitja lengur en sex ár samfellt í hverri stöðu.
Kosning skal vera skrifleg og leynileg ef fleiri en einn félagi býður sig fram til sama embættis. Meirihluti ræður kjöri. Kjöri skal vera þannig háttað að aldrei gangi fleiri en 3 kjörnir stjórnendur úr stjórn hverju sinni. Laus embætti innan stjórnar skal auglýsa með aðalfundarboði. Allir deildarmeðlimir geta boðið sig fram í stjórn og skal framboð tilkynnt stjórn deildarinnar á netfang [email protected] í síðasta lagi viku fyrir aðalfund.
Reikningar
Reikningstímabil deildar miðast við almanaksárið 1. janúar til 31. desember. Á aðalfundi skal kjósa tvo skoðunarmenn úr röðum félagsmanna. Skoðunarmenn skulu yfirfara reikninga deildarinnar fyrir aðalfund og gera athugasemdir ef ástæða er til.
Slit deildarinnar
Deildina er hægt að leggja niður á aðalfundi deildarinnar. Einnig getur aðalfundur Fíh ákveðið að leggja niður deildina hafi hún ekki skilað ársskýrslu til stjórnar Fíh í samfelld tvö ár. Verði deildin lögð niður skal eignum hennar ráðstafað eftir því sem aðalfundur deildarinnar ákveður í samræmi við markmið hennar.
Gildi starfsreglnanna
Starfsreglur þessar hafa verið samþykktar af stjórn Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga og nýjustu breytingar voru samþykktar á aðalfundi deildar sérfræðinga í hjúkrun í nóvember 2018.
Lesefni
Bretland
Advanced Clinical Practice: Acute Care Specific Competencies
Advanced Clinical Practice: Frailty Specific Competencies
Advanced Clinical Practice: Core Competency Framework
Expectations of the Advanced Clinical Practitioner (ACP)
Prescribing framework: A Competency Framework for all Prescribers
Finnland
New roles for nurses: quality to future social welfare and health care services
Írland
Advanced Practice (Nursing) Standards and Requirements
Alþjóðlegt efni
GUIDELINES ON ADVANCED PRACTICE NURSING 2020 frá ICN
From Chaos to Competency: Implementing a New Competency Model in a Multihospital System