Fara á efnissvæði
Viðtal

„Þetta er draumastarfið mitt“

Viðtal við Sjöfn Kjartansdóttur hjúkrunarfræðing í 2. tbl. Tímarits hjúkrunarfræðinga 2024.

Texti: Sölvi Sveinsson | Myndir: Sigríður Elín Ásmundsdóttir

Sjöfn Kjartansdóttir er hjúkrunarfræðingur sem starfaði á gjörgæsludeild fyrstu árin eftir útskrift úr hjúkrun árið 1992. Samspil vaktavinnu og fjölskyldulífs gekk illa árin eftir útskrift, sem varð á endanum til þess að hún söðlaði um og fór í dagvinnu. Hún hefur átt farsælan ferli sem hefur að mestu leyti snúist um að vinna við að þróa og kynna notkun heilasírita hjá gjörgæslusjúklingum. Fyrir nokkrum árum stóð Sjöfn á tímamótum á starfsferlinum og fann að þá væri rétti tíminn til að snúa til baka á gólfið. Það reyndist svo sannarlega rétt ákvörðun enda hefur Sjöfn sjaldan verið jafn ánægð í starfi og núna en hún starfar á gjörgæslunni í Fossvogi.

Fann sig á gjörgæslunni

Það var í raun tilviljun sem réði því að Sjöfn fór í hjúkrunarfræði. Það tók tíma að finna sig í hjúkrun en námið fannst henni þó áhugavert. „Heimspeki, lífeðlisfræði og efnafræði voru greinar sem vöktu áhuga hjá mér. Ég drakk í mig þessi fög og fannst þau skemmtileg. Ég var þó alltaf aðeins óviss með námið en á fjórða ári tók ég ákvörðun um að klára það. Að lokum fann ég svo mína hillu í hjúkrun þegar ég hóf störf á gjörgæsludeild Borgarspítalans eftir útskrift. Ég sá ekki fyrir mér að ég myndi vinna við hjúkrun fyrr en ég byrjaði á gjörgæslunni,“ segir Sjöfn og bætir við að hún hafi ekki haft neinar fyrirmyndir í hjúkrun í sínu nærumhverfi.

„Ég vann þar til ársins 1996 og þetta voru frábær ár en ég var með lítil börn og átti þess vegna erfitt með að vera í vaktavinnu. Ég var ánægð í vinnunni og langaði virkilega að starfa þar áfram en það gekk ekki upp. Í kjölfarið fór ég að vinna hjá GKS húsgögnum, sem seldi meðal annars skrifstofuhúsgögn. Starf mitt þar fólst í að leiðbeina fólki í skrifstofustörfum varðandi líkamsbeitingu. Ég var ráðgefandi varðandi vinnuaðstöðu og skrifaði bækling um líkamsbeitingu. Eftir eitt til tvö ár þar fór ég að hugsa mér til hreyfings og tók að starfa hjá fyrirtækinu Heilsuvernd sem var fjölbreytt og skemmtilegt. Meðal annars sá ég um líkamsbeitingarog skyndihjálparnámskeið, auk fræðslufyrirlestra um hjarta- og æðasjúkdóma. Þá var í boði ráðgjafarþjónusta fyrir ýmis fyrirtæki sem vildu bjóða starfsfólki sínu ráðgjöf í veikindum og sinnti ég því,“ segir Sjöfn. Á næsta vinnustað fékk hún svo færi á að nýta reynslu sína af gjörgæslunni. „Eftir að hafa starfað hjá Heilsuvernd í nokkur ár sá ég auglýsingu frá nýsköpunarfyrirtæki sem hét Taugagreining, þar sem auglýst var eftir gjörgæsluhjúkrunarfræðingi. Fyrirtækið hafði verið að þróa heilalínurit til greiningar á flogavirkni og vildu koma því í notkun inn á gjörgæslur. Þetta fannst mér strax góð hugmynd.“

Fannst oft skorta upplýsingar um heilastarfsemi hjá alvarlega veikum

Þegar þarna er komið við sögu voru liðin átta ár frá því að Sjöfn hætti á gjörgæslunni en hugurinn leitaði alltaf þangað. „Ég hugsaði til baka um tímann sem ég starfaði á gjörgæslunni og var minnisstætt að hafa hugsað til dæmis um fjöláverka sjúklinga sem voru hjá okkur í nokkra daga eða vikur og það kom kannski ekki í ljós fyrr en eftir einhvern tíma að þeir væru með skerta heilastarfsemi. Þá var farið að leggja mat á heilastarfsemina og stundum kom í ljós að hún var verulega skert og erfitt að segja til um hvort skaðinn hafði orðið í legunni eða slysinu. Mér fannst oft skorta upplýsingar um heilastarfsemina hjá alvarlega veikum sjúklingum. Auðvitað er og var hægt að fara í myndrannsóknir en þær segja okkur hvernig heilavefurinn lítur út en veita minni upplýsingar um heilastarfsemina sjálfa,“ bendir Sjöfn réttilega á. Hún bætir við að á þessum tíma hafi verið vitað að heilalínurit gætu komið að gagni við að meta heilastarfsemi og hvort viðkomandi væri í hættu. Sjöfn fékk starfið hjá Taugagreiningu og lýsir starfsumhverfi sem var henni ekki kunnugt: „Ég fékk starfið, þetta var hugbúnaðarfyrirtæki í eigu læknis og flest sem unnu þarna voru tölvunarfræðingar og hugbúnaðarverkfræðingar svo þetta var mjög framandi starfsumhverfi fyrir mig.“

Á ferð og flugi í krefjandi starfsumhverfi

Sjöfn segist hafa lesið vísindagreinar um heilalínurit mánuðum saman til að koma sér inn í fræðin og lýsir fyrstu mánuðunum í starfi sem mikilli brekku. „Í framhaldinu ferðaðist ég svo um allan heim, heimsótti sjúkrahús og ræddi við heilbrigðisstarfsfólk um hvort vit væri í því að nota heilalínurit á gjörgæslum. Mest var ég á ferðalögum í Skandinavíu, Bandaríkjunum, Hollandi og svo var ég mikið í Asíu,“ segir Sjöfn með heimsborgarabrag. Árangurinn af þessum miklu ferðalögum lét ekki á sér standa og reynsla Sjafnar í heilalínuritum jókst jafnt og þétt. „Við náðum miklum árangri á þessu sviði og vörumerkið Nervus er enn í dag vel þekkt. Við seldum tækin ekki beint sjálf heldur vorum með umboðsmenn um allan heim. Mitt hlutverk var að kenna þeim á hugbúnaðinn og halda erindi um tilgang þess að nota heilalínurit, þannig að ég hef verið að velkjast um í þessum heimi í mörg ár,“ segir hún og tekur fram að þótt starfið hafi tekið sinn toll hafi það sömuleiðis verið gefandi. „Svo gerðist það að bandarískt fyrirtæki fékk áhuga á okkur og fyrirtækið var selt þangað. Það þýddi að ég var enn meira á ferðinni. Mig minnir að eitt árið hafi ég verið 250 daga í útlöndum sem var of mikið. Þetta var frábær skóli, ég lærði ótrúlega mikið, heimsótti sjúkrahús um allan heim og kynntist alls konar fólki,“ segir Sjöfn með þakklæti en viðurkennir að á þessum tímapunkti í lífinu hafi það verið mikið púsl að halda jafnvægi milli vinnu og einkalífs.

„Það var eiginlega auðveldara að ferðast um allan heim heldur en að vera á vöktum á gjörgæslunni með tilliti til þess að það var flóknara að fá pössun fyrir kvöldvakt eða um helgar heldur en að láta hitt foreldrið vera með barnið í nokkra daga. Við vorum í eilífum vandræðum með að láta allt ganga upp og þess vegna hætti ég á gjörgæslunni. Reyndar var ég komin í annað samband á þessum ferðalagatíma og seinni maðurinn minn tók dætur mínar alveg að sér á meðan ég var á ferðalögum, sem var alveg einstakt.“

Eftir að þessum kafla hjá Taugagreiningu lauk fór Sjöfn að vinna á skurðstofu og kunni vel við sig. „Þar var rosalega mikill hraði og hálfgerð akkorðsvinna – annaðhvort inni á skurðstofu, í aðgerð eða inn á vöknun,“ lýsir Sjöfn en hún stoppaði þó stutt við á skurðstofunni áður en næsta tækifæri bauðst.

Starfaði í ferðaþjónustu en fór svo aftur í heilalínuritabransann

Ári eftir að hún hóf störf á skurðstofu dembdi Sjöfn sér óvænt inn í ferðabransann. „Bróðir minn sem var þá búsettur í Þýskalandi, hafði verið að selja Þjóðverjum ferðir til Íslands í nokkurn tíma og hann vantaði aðila til að taka á móti þessu fólki. Mér finnst gaman að breyta til og að láta reyna á mig og sló því til. Þetta var árið 2006 og eiginlega engir innviðir hér á Íslandi til að taka á móti ferðamönnum. Þarna starfaði ég til ársins 2012 og var eiginlega stanslaust á símavakt því við þjónustuðum þessa ferðamenn vel,“ segir Sjöfn en hún segist hafa verið farin að sakna þess að starfa í heilbrigðisgeiranum.

„Þó að ferðaþjónustan sé að mörgu leyti heillandi bransi, þá togaði alltaf í mig að starfa frekar í heilbrigðisgeiranum. Þess vegna var ég fljót að ákveða mig þegar ég fékk símtal frá gömlum kollega úr heilalínuritabransanum sem bauð mér vinnu hjá fyrirtæki sem heitir Mentis Cura. Ég stoppaði samt frekar stutt hjá þeim, því að fyrrum samstarfsfélagar mínir hjá Taugagreiningu höfðu stofnað fyrirtæki sem heitir Kvikna og vissu af mér og ég færði mig yfir til þeirra. Þar fór ég að vinna í svipuðu starfi og ég sinnti hjá Taugagreiningu. Við tóku ferðalög og ég hitti gamla félaga í bransanum á ný. Ég hafði mjög mikla trú á heilasíritanum sem fyrirtækið hafði þróað en eins og með Taugagreiningu þá kom bandarískt fyrirtæki fáum árum síðar og keypti fyrirtækið Kvikna. Þar var ekki áhugi fyrir því að halda áfram þróun síritans fyrir gjörgæslu svo ég hætti hjá fyrirtækinu. Þetta var árið 2019 og ég ákvað að taka mér frí og njóta þess að verða amma í fyrsta skiptið. En svo fór ég að hugsa hvað tæki næst við.“

Vissi að það yrði átak að byrja aftur á gjörgæslu

Í gegnum þau 24 ár sem Sjöfn starfaði ekki á gjörgæslunni leitaði hugur hennar ítrekað þangað aftur. Og fyrrum kollegar voru sama sinnis: „Þegar ég hitti gömlu vinnufélagana fékk ég spurningar hvenær ég ætlaði að koma aftur, jafnvel að öllum þessum árum liðnum. Eftir því sem lengra leið fannst mér þessi hugmynd fráleitari. Ég veit að það er löng og ströng þjálfun að byrja að vinna á gjörgæslu. Það breytist margt og ég vissi að það yrði talsvert átak að byrja aftur. En mér þótti vænt um þessi tengsl og það var alltaf eitthvað sem togaði í mig að byrja aftur,“ útskýrir Sjöfn og bætir við að hún hafi nefnt það við eiginmann sinn að kannski væri kominn tími til að snúa aftur. „Honum fannst það frábær hugmynd og hvatti mig áfram,“ segir Sjöfn sem segist einnig hafa fengið mikinn stuðning frá fjölskyldu og vinum. „Ég ræddi þetta við vinkonur mínar sem vinna á gjörgæslunni og fékk mikinn stuðning frá þeim. Ein sagði reyndar að ég sæi þetta í of miklum dýrðarljóma, þetta væri ekki alveg svona gott,“ segir Sjöfn og skellir upp úr. „Ég hugsaði þetta fram og til baka og nefndi þetta við Ólöfu, þáverandi deildarstjóra og vinkonu mína, sem tók svakalega vel í þessa hugmynd. Við ákváðum í sameiningu að ég myndi byrja þann 1. apríl 2020. Svo skall á heimsfaraldur.“

Hálfgert brjálæði að hefja störf í fyrstu bylgju covid

Það gefur því augaleið að endurkoma Sjafnar á gjörgæslu kom á krítískum tíma en hún hefur aldrei skorast undan áskorunum og fannst enn mikilvægara að koma aftur til starfa við slíkar aðstæður. „Við Covid varð ég eiginlega enn spenntari fyrir því að byrja aftur að vinna á sjúkrahúsi. Mig langaði svo að leggja mitt af mörkunum. Ég mætti með uppbrettar ermar og tilbúin þann fyrsta apríl en þegar ég lít til baka sé ég að það var hálfgert brjálæði að byrja þarna á þessum tímapunkti. Fyrsta bylgjan var í hámarki og spítalinn varla búinn að ná tökum á aðstæðum. Þegar mest var vorum við með 22 öndunarvélapláss. Svo fór að róast í maí og allir héldu að þetta væri búið en þá kom næsta bylgja,“ segir Sjöfn og finnst, þegar litið er í baksýnisspegilinn, að mögulega hafi það verið aukaálag að fá hana í aðlögun á þessum tímapunkti. „En eins og hjúkrunarfræðinga er von og vísa, þá gekk þetta þó upp og mér finnst ótrúlegt hvað mér var vel tekið og hvað mér var sýnd mikil þolinmæði. Sumt þurfti ég algjörlega að læra upp á nýtt. Ég kunni varla að draga upp lyf í sprautu. En svo voru önnur handtök sem voru í bókstaflega í vöðvaminninu líkt og að soga úr barkarennu sjúklinga. Allt saman rifjaðist þetta svo hægt og rólega upp. Á þessu tímabili voru allir í framandi aðstæðum, ekki bara ég. Ég fann samt að ég hafði góða reynslu í farteskinu. Til dæmis hafði ég góða þekkingu á menningarlegum samskiptum og ég hafði öðlast mikla reynslu í samskiptum sem nýtist vel bæði sambandi við sjúklinga og aðstandendur.“

Sjöfn lýsir aðlögun sinni í heimsfaraldri með kostum og göllum. „Það sem var jákvætt við að byrja í heimsfaraldinum var að ég lærði það mjög vel að sinna þessum sjúklingahópi. Það var lítið um önnur veikindi eða slys á þessum tíma. Þegar covid lauk fóru að leggjast inn sjúklingar með fjölbreyttari veikindi og eftir slys og þá upplifði ég að ég væri í smá vandræðum. Ég þurfti að spyrja mjög mikið og læra enn þá meira. En sem betur fer er þannig menning á þessari deild að það þykir sjálfsagt og eðlilegt að spyrja hvert annað og samvinna milli stétta er mjög góð,“ segir Sjöfn og bætir við að teymi sjúklings sé alltaf að ræða saman um hvernig megi koma sjúklingnum í gegnum veikindin á sem bestan hátt. „Maður er aldrei einn á vaktinni. Það er svo mikill stuðningur í umhverfinu frá hjúkrunarfræðingum, sjúkraliðum, læknum og öðrum fagstéttum. Teymisvinnan er eitt af því sem mér þykir svo skemmtilegt við að vinna á gjörgæslunni.“

Vaktavinnan hentug

Í dag þykir Sjöfn vaktavinnan henta sínu fjölskyldumynstri mun betur en hún gerði fyrstu árin eftir útskrift. „Í seinni tíð, nú þegar börnin eru uppkomin, kann ég sérstaklega vel við að vinna á vöktum. Mér finnst frábært að eiga frí á virkum dögum og eiga tíma fyrir sjálfa mig. Í vaktavinnu á maður frí í miðri viku meðan aðrir eru í vinnu eða skóla og það er algjör draumur. Mér finnst líka gaman að vinna allar vaktir og hver vakt hefur sinn sjarma. Á tímabili hætti ég að vinna næturvaktir en svo saknaði ég þess þannig að núna tek ég nokkrar næturvaktir í hverjum mánuði þótt ég þurfi þess ekki, vegna aldurs,“ segir Sjöfn brosandi.

Meistaranám í gjörgæsluhjúkrun eftir meistaranám í verkefnastjórnun

„Ég fattaði það eiginlega ekki fyrr en ég kynntist núverandi manni mínum hvað ég er mikill nörd. Ég var alltaf að gera grín að honum, hvað hann væri mikill nörd, en svo benti hann mér á að ég er líka algjör nörd. Mér finnst ótrúlega gaman að læra og það liggur vel fyrir mér. Þegar ég byrjaði á gjörgæslunni vorið 2020 voru hjúkrunarfræðingar á deildinni í sérskipulögðu meistaranámi í gjörgæsluhjúkrun. Ég varð strax mjög spennt fyrir þessu námi og sá mér leik á borði að með því að fara í þetta nám myndi ég komast mjög hratt inn í sérþekkingu í gjörgæsluhjúkrun. Mér finnst nefnilega ekki nóg að vita bara nokkurn veginn hvað ég er að gera, ég vil vita nákvæmlega hvað ég er að gera. Ég hafði lokið meistaranámi í verkefnastjórnun (MPM) árið 2015 en ákvað haustið 2021 að sækja um þetta M.S.-nám og komst inn. Í náminu hélt ég áfram að vinna með heilasírita. Mér fannst ég ekki hafa lesið alveg nógu margar greinar um heilasírita,“ segir Sjöfn á léttu nótunum. „Það hafa auðvitað orðið þvílíkar framfarir á síðastliðnum 20 árum. En þetta voru hundruð greina sem komu í ljós við heimildaleit. Í raun er búið að setja niður leiðbeiningar um að það eigi að nota heilasírita hjá ákveðnum sjúklingum á gjörgæslu,“ segir Sjöfn sem talar vel um meistaranámið. „Náminu lauk ég svo vorið 2023 og hefur það reynst mér frábært veganesti. Maður verður miklu öruggari með þennan þekkingargrunn á bak við fagið. Maður lærir að hafa kjark til að efast um aðferðir og meðferðir. Svo var auðvitað ómetanlegt að verða samferða góðum hópi af samnemendum. Í kjölfar námsins hóf ég sérfræðinám í hjúkrun hjá Landspítala og vonast til að verða sérfræðingur í hjúkrun gjörgæslusjúklinga. Hluti af því er að innleiða notkun á heilasírita með af meiri festu en áður.“

Aldrei of seint að sinna klínískri hjúkrun aftur

„Sumum fannst ég vera taka skref niður á við að fara sinna beinni sjúklingavinnu aftur. Mér finnst hins vegar ég vera vinna við það sem mig langar mest að gera, að hjúkra sjúklingum. Að því leyti þvældist meistaranámið aðeins fyrir mér. Mig langaði að oft að vera í vinnunni en ekki í skólanum. Mig langar ekkert annað en að hjúkra. Þetta er rosalega krefjandi starf en mjög gefandi. Ég hugsa næstum því á hverri vakt hversu skemmtilegt mér finnist að starfa á gjörgæslunni. Auðvitað er þetta erfitt á köflum en við sjáum langoftast góðan árangur af starfi okkar og erum dugleg að hjálpa hvert öðru í gegnum erfiðar aðstæður,“ segir Sjöfn full af innblæstri og ástríða hennar fyrir starfinu skín í gegn.

„Mér fannst mjög leiðinlegt að þurfa að fara úr þessu starfi á sínum tíma en aðstæður voru bara þannig að ég gat ekki verið í vaktavinnu. Í öll önnur störf var ég alltaf ráðin vegna þess að ég var hjúkrunarfræðingur að undanskildu starfinu í ferðaþjónustunni. Hjúkrunarnámið opnar svo margar dyr á ýmsum sviðum. Hjúkrunarfræðingar njóta almennt trausts og eru eftirsótt vinnuafl. Ég er ánægð með starfsferilinn og að hafa prófað að vinna annars staðar en á Landspítala. Það gott að fara í burtu og öðlast fjölbreyttari reynslu og víðari sýn,“ segir Sjöfn sem er laus við eftirsjá þó að hún hafi verið lengi að snúa aftur til baka í hjúkrun. „Ég held ég væri ekki sama manneskja ef ég hefði ekki prófað hin störfin. Það getur verið gott að fara og prófa nýja hluti en þegar maður kemur aftur er alltaf tekið vel á móti manni. Þetta er algjörlega draumastarfið mitt.“