Viðtal: Ari Brynjólfsson | Myndir: Sigtryggur Ari Jóhannsson
Heimurinn allur stendur frammi fyrir stórum áskorunum þegar kemur að heilbrigðismálum. „Það geisa stríð, það eru stórar krísur sem snerta mannúðarmál og alltaf þegar við stöndum frammi fyrir slíkum áskorunum þá eru hjúkrunarfræðingar mættir í framlínuna,“ segir Howard. „Við vitum að heilbrigðiskerfi heimsins eru enn að jafna sig á heimsfaraldrinum, biðlistar eru langir og á sama tíma eru þjóðir að eldast, það er mikið álag á öllu kerfinu. Það skortir sex milljónir hjúkrunarfræðinga í heiminum og þeir sem eru starfandi eru undir miklu álagi og fá oft og tíðum ekki þann stuðning, fjármagn og vernd sem þeir þurfa.“
Það eru teikn á lofti um að staðan muni batna. „Ég tel að heimurinn sé að átta sig á hversu miklu máli heilsa fólks skiptir í stóra samhenginu, hvaða áhrif heilsa hefur á efnahag þjóða, frið og öryggismál, sem og jöfnuð. Á sama tíma eru mjög mörg tækifæri fyrir okkur til að styrkja og fjölga hjúkrunarfræðingum til að mæta þessum stóru áskorunum, það er verkefni okkar hjá ICN. Til að hjúkrunarfræðingar geti veitt hágæða þjónustu þarf að styðja þá, verja þá og fjárfesta í þeim. Það þarf að minnka álagið og koma í veg fyrir að þeir brenni út í starfi. Það helst alfarið í hendur við að bæta almenna heilsu í heiminum.“
Rökin bíta
Howard hefur ferðast víða um heim fyrir hönd ICN og hittir reglulega stjórnmálamenn og aðra sem koma að stefnumótun. Hann er bjartsýnn á árangurinn en það er þó ekki á þeim vettvangi sem ICN myndi vilja, hann mætir iðulega því viðmóti að störf hjúkrunarfræðinga séu einföld. „Það er ekkert einfalt við að hjúkra,“ segir hann. „Eitt af því jákvæða sem kom út úr heimsfaraldrinum, það var þó töluvert meira af neikvæðu, var að almenningur sá í fréttum hvaða störf hjúkrunarfræðingar inna af hendi. Ég tel að það hafi hjálpað mikið til við að breyta ímynd hjúkrunarfræðinga, sem ég segi hreinskilnislega að hafi byggst á þeirri staðalímynd að hjúkrun sé kvennastarf en okkar starf hefur náð að breyta þeim skilningi.“
Vegna efnahagslegra afleiðinga heimsfaraldursins og aukinna fjárveitinga í varnarmál í kjölfar innrásarinnar í Úkraínu er erfitt að fá stjórnvöld víða um heim til að fjárfesta í hjúkrun. „Stjórnmálamenn standa frammi fyrir erfiðum ákvörðunum um hvar eigi að forgangsraða fjármagninu. Við það bætist að það hefur lengi tíðkast að líta á fjárfestingar í heilbrigðismálum sem hreinan kostnað sem auðveldlega má skera niður, það er kolröng nálgun. Fjárfesting í heilsu og hjúkrunarfræðingum er fjárfesting í efnahagslegri velsæld, við höfum sýnt fram á það með rannsóknum að þarna eru skýr tengsl á milli.“ Á það líka við um að auka jöfnuð og minnka fátækt en þrátt fyrir það er erfitt að koma þessum boðskap á framfæri. „Við sjáum samt að þessi rök eru byrjuð að bíta.“
Á toppnum og sér fagið sækja fram um allan heim
Howard hefur gegnt stöðu framkvæmdastjóra ICN frá árinu 2019. Hann er frá Bretlandi og útskrifaðist þaðan sem hjúkrunarfræðingur. „Ég hef verið mjög heppinn að fá að vinna víða, meðal annars á Nýja-Sjálandi og í Bandaríkjunum. Eiginkona mín er frá Ástralíu.“ ICN er líkt og mörg önnur alþjóðleg samtök með höfuðstöðvar sínar í Sviss. Ferlið að vinna sig upp í ICN hófst með því að taka þátt í félagsstarfi hjúkrunarfræðinga í heimalandinu. „Ég hvet alla hjúkrunarfræðinga til að vera meðlimir í sínu félagi, félög hjúkrunarfræðinga vinna stórfengleg störf fyrir hjúkrunarfræðinga á svo marga vegu,“ segir hann. „Þau eru vanmetin þegar kemur að þeim stuðningi sem þau veita hjúkrunarfræðingum í heimalandinu. ICN er einungis til vegna félaganna.“

Þegar Howard starfaði sem hjúkrunarfræðingur tók hann að sér að verða talsmaður á vinnustað, það leiddi til þess að hann fór að starfa alfarið fyrir Royal College of Nurses; Bresku konunglegu hjúkrunarfræðingasamtökin í Bretlandi, og fór þá að vinna að stefnumótunarmálum. Í kjölfarið fékk hann tækifæri til að starfa fyrir ICN. „Það má líkja þessu við draum ungmennis um að spila fyrir landsliðið sitt í fótbolta, þetta er toppurinn fyrir mér,“ segir hann.
Howard er ekki maður sem missir trúna á verkefnið. „Stundum finnst manni eins og maður stígi eitt skref fram á við en svo tvö skref aftur á bak. En ég sé fagið sækja fram um allan heim, sums staðar hraðar en annars staðar. Ég sé fagið þróast og hjúkrunarfræðinga fá þá viðurkenningu sem þeir eiga skilið. Það sem hefur skipt sköpum í því er stuðningur við leiðtoga í hjúkrun. Þú ferð til lands og hittir formann félagsins í því landi, þeir skipta vissulega máli en þeir einir geta ekki breytt öllu. Allir hjúkrunarfræðingar eru að sinna hlutverki leiðtoga, skjólstæðingar og samfélagið leitar til þeirra eftir ráðum. Það eru 29 milljónir hjúkrunarfræðinga í heiminum sem eru leiðtogar, það er gríðarlegt afl,“ segir hann.
Afl hjúkrunarfræðinga byggir á trausti almennings
Hjúkrunarfræðingar verða aldrei á einni skoðun um öll mál, opin skoðanaskipti skipta miklu máli þegar kemur að því að mynda stefnu og með sameiginlegri stefnu er hægt að nota afl hjúkrunarfræðinga. „Þegar við stöndum frammi fyrir risastórum áskorunum á borð við loftslagsbreytingar, skort á hjúkrunarfræðingum eða hamförum þá þurfum við að standa saman. Það er ekki einungis vegna þess að það er besta leiðin til að takast á við vandann eða koma á breytingum, heldur kemur pólitík inn í þetta líka. Þegar ég er til dæmis að tala við stjórnmálamenn um eitthvert tiltekið málefni þá er besta leiðin fyrir þá til að þagga niður í mér að segja: „Það er frábært að það sé afstaða ICN en ég var að tala við hjúkrunarfræðinga sem starfa á þessum spítala og þeir segja annað.“ Þannig er ósamstaða meðal hjúkrunarfræðinga notuð sem afsökun til að gera ekkert,“ segir hann.
Afl hjúkrunarfræðinga byggir á trausti almennings. „Í hvert sinn sem það er gerð könnun meðal almennings um hverjum það treystir helst þá eru hjúkrunarfræðingar yfirleitt efst á blaði. Á sama tíma eru stjórnmálamenn á botninum. Þetta traust kemur til vegna þess að fólk ber virðingu fyrir störfum hjúkrunarfræðinga, við þurfum að vera meðvituð um það.“
Á sama tíma og fólk ber virðingu fyrir störfum hjúkrunarfræðinga þá skortir oft á skilning á hvað hjúkrunarfræðingar gera. „Ég held að það sé vegna þess að veruleiki nútímahjúkrunar er ekki nógu áberandi. Sem dæmi, þá kom Breska ríkisútvarpið, BBC, til okkar hjá ICN eftir heimsfaraldurinn og þeir sögðust ekki hafa haft hugmynd um að hjúkrunarfræðingar gerðu svona mikið og vildu gera stuttmyndir í samstarfi við okkur. Við vorum að sjálfsögðu til í það, stuttmyndirnar heita Caring for Courage og auðvelt að finna þær á Google,“ segir Howard. Fulltrúar BBC voru gestir á ráðstefnu ICN í Montreal í fyrra og tóku með sér markaðskönnun sem var gerð um verkefnið. „Þar kom fram að meira en 60% allra sem sáu stuttmyndirnar sögðu að þeir höfðu ekki áttað sig á störfum hjúkrunarfræðinga og áhrifum þeirra. Þetta segir mjög mikið.“
Þeir sem sáu stuttmyndirnar gátu því séð hjúkrunarfræðinga sem brautryðjendur og frumkvöðla. „Ég heyri þetta líka hjá hjúkrunarfræðingum sjálfum, þeir segja oft: „Ég er bara hjúkrunarfræðingur“. Þetta er manneskja sem er vinna með mjög flókna hluti en lætur það hljóma eins og það sé mjög einfalt. Það er hluti af vandanum, við þurfum að segja fólki frá öllum þessum flóknu hlutum sem við erum að gera. Þarna er mikið sóknarfæri.“
Verkefni sem snýr að aðstoð til hjúkrunarfræðinga á stríðssvæðum
ICN mun aldrei fylgja neinni pólitískri hugmyndafræði eða taka afstöðu í öðru en því sem snýr beint að hjúkrunarfræðingum. Howard viðurkennir að slíkt hlutleysi geti verið erfitt á köflum, þá helst þegar um er að ræða stríðsátök. „Við getum ekki staðið hjá þegar um er að ræða heilbrigðis- eða mannúðarkrísu þar sem hjúkrunarfræðingar eru ávallt í framlínunni. Það þýðir samt að við verðum að hafa fókusinn mjög skýran þegar kemur að því hvað við segjum og gerum, það þarf að snúa að því sem hjúkrunarfræðingar eru að gera.“
Allt frá stofnun Alþjóðaráðsins fyrir 125 árum hefur það beitt sér fyrir hjúkrunarfræðinga í löndum þar sem stríð geisar eða aðrar hamfarir eiga sér stað, það hefur þó aldrei verið stór hluti af starfinu. Í kjölfar innrásarinnar í Úkraínu setti ICN á laggirnar verkefnið #NursesForPeace sem snýr að aðstoð til allra hjúkrunarfræðinga á stríðssvæðum. Hann tekur fram að ICN sé ekki hjálparsamtök sem sendi fólk á vettvang. „En við erum í sambandi við hjúkrunarfræðingana í landinu og getum komið á sambandi milli þeirra og hjúkrunarfræðinga annars staðar.“ Einnig hefur safnast fé sem hefur nýst til þess að kaupa hjálpargögn en líka til að sinna námskeiðum, mikilvægasti hlutinn er þó að tengja hjúkrunarfræðinga saman.
Verkefnið hefur stækkað töluvert á síðustu tveimur árum. „Í gegnum samtökin í Ísrael höfum við aðstoðað við áfallahjálp og í gegnum samtökin í Palestínu höfum við fjárfest í hjálpargögnum,“ segir Howard. Sums staðar er erfiðara að athafna sig, til dæmis í Afganistan. „Ég held því miður að þörfin fyrir þetta verkefni muni ekki hverfa á næstunni.“
Viðvörunarbjöllur eru farnar að hringja
Á ráðstefnu NNF var rætt um tvær stórar áskoranir sem hjúkrunarfræðingar á Norðurlöndunum, sem og víðar, standa frammi fyrir. Annars vegar mönnun hjúkrunarfræðinga og hins vegar ráðningar hjúkrunarfræðinga á milli landa. „Skortur á hjúkrunarfræðingum er fyrirbæri sem ég rekst á í hverju einasta landi sem ég heimsæki,“ segir Howard. „Álagið er oft gríðarlega mikið. Viðvörunarbjöllurnar eru farnar að hringja, hjúkrunarfræðingar hætta fyrr störfum og sums staðar er samdráttur í aðsókn í hjúkrunarnám. Allt þetta gerir það að verkum að það eru færri hjúkrunarfræðingar sem við vitum, og allar rannsóknir sýna, að dregur úr öryggi sjúklinga og hækkar dánartíðni. Við leggjum hart að okkur við að hvetja til fjárfestingar í hjúkrun.“ Það sama á við um að bæta starfsaðstæður, nefnir hann sérstaklega, eins og nýlegar breytingar á lögum um refsiábyrgð hér á landi, lög sem eru fyrirmynd fyrir önnur lönd.
Þegar upp er staðið þá þarf hvert land að finna eigin lendingu. „Núna er víða mikill áhugi á lögfestum mönnunarviðmiðum en það er hægt að fara fleiri leiðir til að tryggja að það séu nógu margir hjúkrunarfræðingar við störf.“ Þó að Ísland glími við sömu áskoranir og aðrir þá segir Howard landið vera á góðum stað til ná árangri. Umræðan um fjölgun hjúkrunarfræðinga hefst gjarnan á því hvernig megi mennta fleiri. Howard vill snúa því við og ræða frekar hvernig eigi að halda þeim í starfi og þegar búið er að ræða það þá sé tímabært að ræða um menntun. „Það er mun meira aðkallandi nú þegar við erum að sjá hjúkrunarfræðinga með margra ára reynslu hætta störfum löngu áður en þeir fara á aldur.“
Varðandi flutninga á milli landa þá segir Howard það alveg skýran rétt einstaklinga að flytja á milli landa til að starfa. „Að því sögðu, frá því í heimsfaraldrinum höfum við séð mikla fjölgun í flutningum hjúkrunarfræðinga á milli landa og síðustu tvö ár hef ég heyrt sögur sem gefa til kynna að það sé verið að valda skaða á heilbrigðisþjónustu í þeim löndum sem eru að missa hjúkrunarfræðinga. Í þeim löndum sem höfðu fyrir mun færri hjúkrunarfræðinga en Ísland og aðrar þjóðir með hærri tekjur,“ segir hann. Þjóðir verji miklu í menntun en sjái svo hjúkrunarfræðinga flytja úr landi skömmu eftir útskrift. „Það er mjög lítið, nánast ekkert, sem gefur til kynna að þessar þjóðir fái eitthvað í staðinn.“
Howard heimsótti Afríku nýverið og fundaði með formönnum hjúkrunarfélaga frá tuttugu löndum. „Það var mikil reiði. Það voru nokkrir sem töluðu um að þeim liði eins og þetta væri nútímanýlendustefna, það eru stór orð en það eru orð sem ég hef komið á framfæri. Ég skil hvað þau eru að segja, það er verið að taka frá þeim dýrmæta auðlind og setur þau í erfiðari stöðu gagnvart því að bæta aðstæður í landinu sínu,“ segir hann og bætir við: „Í mörgum löndum, þar á meðal þeim löndum sem eru að missa frá sér hjúkrunarfræðinga, eru hjúkrunarfræðingar sem eru atvinnulausir. Ég fæ að heyra þau rök reglulega að þarna sé fólk í atvinnuleit. Auðvitað skil ég vel þá einstaklinga en það þarf að vera á hreinu að ástæðan fyrir atvinnuleysinu er ekki að það séu of margir hjúkrunarfræðingar heldur stafar það af því að stjórnvöld vilja eða geta ekki fjármagnað stöðurnar þeirra. Það þarf að fjárfesta í hjúkrun. Allur heimurinn þarf fleiri hjúkrunarfræðinga.“
Fundaði með ráðherra og leiðtogum í hjúkrun
Á ráðstefnunni fundaði Howard með Willum Þór Þórssyni heilbrigðisráðherra, Guðbjörgu Pálsdóttur, formanni Fíh, og fleiri leiðtogum í hjúkrun. „Mér fannst þær umræður mjög jákvæðar. Við fórum yfir áskoranirnar, rökin og rannsóknirnar, ráðherrann var með mjög góðan skilning á áskornunum, hvað það þýðir að hafa of fáa hjúkrunarfræðinga og hvaða hættu það skapar fyrir sjúklinga. Við ræddum um nokkrar leiðir sem hægt er að fara til að bæta starfsumhverfi hjúkrunarfræðinga, þar á meðal mönnunarviðmið,“ segir hann. Það fór ekki fram hjá Howard að ráðherra sat áfram eftir fundinn og hlustaði á nokkur erindi á ráðstefnunni. „Það er segir mikið um stöðu félagsins ykkar. Ráðherrar gera það ekki nema þeir séu í góðu talsambandi við viðkomandi félag og bera virðingu fyrir því.“

Hér á landi er ekki lengur nein sérstök staða yfirhjúkrunarfræðings innan stjórnsýslunnar, Howard segir að slíkur einstaklingur gegni lykilhlutverki. „Ef þú ert að reka heilbrigðiskerfi og hanna heilbrigðisþjónustu til framtíðar og ert ekki með reynslu, þekkingu og íhlutun leiðtoga í hjúkrun þá má segja að þú sért í blindflugi. Þig einfaldlega skortir lykilupplýsingar og ráðgjöf frá stærstu einstöku fagstéttinni, fólkinu sem er ábyrgt fyrir að veita heilbrigðisþjónustuna og sér hvar áhættuþættirnir eru,“ segir hann. „Yfirhjúkrunarfræðingur gegnir lykilhlutverki í að þetta komist á framfæri við stefnumótun. Ég ræddi þetta við heilbrigðisráðherrann ykkar, sagði honum að um 70% allra þjóða væru með slíka stöðu. Í öllu sem hefur að gera með mönnun og áætlanir til framtíðar þá skipta yfirhjúkrunarfræðingur og leiðtogar í hjúkrun miklu máli.“ Það hefur einnig að gera með að tryggja góða menningu innan heilbrigðisþjónustunnar.
Íslenskir hjúkrunarfræðingar hafa margt til málanna að leggja á alþjóðavísu. „Hjúkrunarfræðingar á Íslandi eru mjög öflugir. Þeir eru öflugir á alþjóðlegum vettvangi í gegnum félagið sitt. Það er mikill áhugi á heilbrigðisþjónustu á Norðurlöndunum og hvernig farið er að því að gera hluti, þið notið tæki og hafið komið á ferlum sem aðrar þjóðir vilja gjarnan læra af ykkur,“ segir Howard. „Ég sé fyrir mér íslenska hjúkrunarfræðinga gegna stóru hlutverk á alþjóðavettvangi, þið vinnið vel saman, þið eruð með öfluga leiðtoga og náið eyrum ráðamanna.“