Fara á efnissvæði
Fundargerð

Aðalfundur 2024

Aðalfundur Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga var haldinn fimmtudaginn 16. maí á Grand Hótel Reykjavík og á Teams.

Aðalfundur Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga fór fram fimmtudaginn 16. maí á Grand Hótel Reykjavík og á Teams.

Þetta er í þriðja skiptið sem notast er við fjarfundabúnað og rafrænar kosningar til að leyfa félagsfólki um allt land og víðar að taka þátt. Þetta fyrirkomulag hefur reynst vel og er því útlit fyrir að það verði eins um ókomna framtíð þar sem aðalfundur er æðsta vald félagins, hjúkrunarfræðingar eru ekki bundnir við höfuðborgarsvæðið og mikilvægt er að allt félagsfólk geti tekið þátt. Þátttaka félagsfólks er forsenda fyrir öflugu fag- og stéttarfélagi.

Kynnt var skýrsla um starfsemi félagsins á síðasta starfsári sem tók mið af starfsáætlun sem samþykkt var á aðalfundi í fyrra.

Hafdís Böðvarsdóttir fjármálastjóri gerði grein fyrir reikningum félagsins árið 2023 og kynnti hún breytta framsetningu ársreiknings sem gerir ársreikninginn auðlæsilegri en áður. Reikningurinn var staðfestur frá endurskoðendum, skoðunarmönnum, stjórn og aðalfundi.

Stjórn Fíh 2024-2025. F.v. Hulda Björg Óladóttir gjaldkeri, Þórdís Hulda Tómasdóttir, Ásdís M. Finnbogadóttir ritari, Guðbjörg Pálsdóttir formaður, Bryndís Rut Logadóttir, Kristófer Kristófersson varamaður, Jórunn Ósk Frímannsdóttir Jensen varaformaður, Gunnhildur H. Blöndal varamaður og Guðlaug Ásta Gunnarsdóttir.

Framboð til stjórnar

Óskað var eftir þremur aðalmönnum í stjórn. Fjórir hjúkrunarfræðingar buðu sig fram og hlutu eftirfarandi hjúkrunarfræðingar kosningu:

Bryndís Rut Logadóttir​

Guðlaug Ásta Gunnarsdóttir​

Hulda Björg Óladóttir​

Eftirtalinn hjúkrunarfræðingur bauð sig fram til varamanns og var sjálfkjörinn:

Gunnhildur Hafþórsdóttir Blöndal​

Ritnefnd

Í ritnefnd var auglýst eftir þremur framboðum. Eftirtaldir hjúkrunarfræðingar buðu sig fram og voru sjálfkjörnir:

Herdís Sveinsdóttir​, Kristín Linda H. Hjartardóttir​ og Ragnheiður Haralds Eiríksdóttir Bjarman​.

Skoðunarmenn reikninga

Kjósa þarf tvo skoðunarmenn reikninga árlega. Eftirtaldir hjúkrunarfræðingar buðu sig fram og voru sjálfkjörnir:

Herdís Herbertsdóttir og Þórgunnur Hjaltadóttir

Sigþrúður Ingimundardóttir, fyrrverandi formaður, tók til máls undir liðnum Önnur mál.

Tvær ályktanir voru lagðar fram og voru þær báðar samþykktar einróma.

Ályktun 1

Aðalfundur Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga 16. maí 2024 skorar á stjórnvöld að endurmeta virði starfa hjúkrunarfræðinga og bæta kjör þeirra til að fjölga hjúkrunarfræðingum í heilbrigðiskerfinu.

Aðalfundur Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga, 16. maí 2024, skorar á stjórnvöld að endurmeta virði starfa hjúkrunarfræðinga sem kvennastéttar og leiðrétta kjör til samræmis við aðra háskólamenntaða sérfræðinga. Yfirvöld þurfa að vinna markvissar að því að útrýma launamun sem stafar af kynskiptum vinnumarkaði og kerfisbundnu vanmati á störfum þar sem konur eru í meirihluta en 96% hjúkrunarfræðinga á Íslandi eru konur. Bregðast þarf án tafar við skorti á hjúkrunarfræðingum og þar má ekki líta fram hjá launaþættinum.

Langstærstur hópur hjúkrunarfræðinga hefur verið með lausa kjarasamninga frá 1. apríl á þessu ári. Við gerð nýrra kjarasamninga er nauðsynlegt að horfa til niðurstöðu gerðardóms frá 2020 um að stéttin sé vanmetin til launa miðað við ábyrgð í starfi. Til þess að hjúkrunarfræðingar sjái sér hag í að starfa við sitt fag þurfa laun þeirra að vera samkeppnishæf.

Ályktun 2

Aðalfundur Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga 16. maí 2024 skorar á stjórnvöld að stórbæta starfsumhverfi hjúkrunarfræðinga.

Aðalfundur Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga 16. maí 2024 hefur þungar áhyggjur af þeim hópi hjúkrunarfræðinga sem leita til annarra starfa vegna aukins álags. Í viðhorfskönnun frá september 2023 hafa 3 af hverjum 5 hjúkrunarfræðingum hugsað alvarlega um að hætta starfi á næstu 2 árum og nefna flest starfstengt álag.

Félagið skorar á stjórnvöld að gera umbætur á starfsumhverfi hjúkrunarfræðinga með því að tryggja mönnunarviðmið, bæta vinnuaðstöðu og auka öryggi. Bregðist stjórnvöld ekki við þessu ákalli hjúkrunarfræðinga er hætt við að öryggi sjúklinga, hjúkrunarfræðinga og annars heilbrigðisstarfsfólks verði stefnt í hættu.

Jón Grétar Guðmundsson forseti Eirar, félags stúdenta við heilbrigðisvísindasvið Háskólans á Akureyri, flutti erindið Af hverju hjúkrunarfræði? Komstu ekki inn í læknisfræði?

Fjórir hjúkrunarfræðingar fengu hvatningastyrk.

Ingibjörg Hjaltadóttir

Ingibjörg útskrifaðist sem hjúkrunarfræðingur árið 1983, lauk meistaraprófi í öldrunarhjúkrun 2001 og doktorsprófi í heilbrigðisfræðum frá háskólanum í Lundi 2012. Hún er með sérfræðiréttindi í öldrunarhjúkrun frá 2006. Ingibjörg hefur verið frumkvöðull og leiðtogi í öldrunarhjúkrun á Íslandi og skarað fram úr á því sviði, bæði í stjórnun, rannsóknum, kennslu og klínískum verkefnum.

Margrét Dís Yeoman

Margrét Dís útskrifaðist sem hjúkrunarfræðingur árið 2021. Hún hefur unnið ötullega að málefnum fólks með fíknisjúkdóm gegnum störf sín hjá Rauða krossinum og innan ráðgjafateymis Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Hún nýtur trausts í viðkvæmum hópi þeirra sem eiga við fíknisjúkdóm að etja.

Rannveig Jóna Jónasdóttir

Rannveig Jóna útskrifaðist sem hjúkrunarfræðingur árið 1993, lauk meistaraprófi 2010 og doktorsprófi í gjörgæsluhjúkrun frá Háskóla Íslands 2017. Hún hefur verið í forystu við uppbyggingu fræðasviðs og náms í sérgreininni og náð framúrskarandi árangri við að samþætta rannsóknir, kennslu og klíníska vinnu í gjörgæsluhjúkrun.

Rannveig Þöll Þórsdóttir

Rannveig Þöll útskrifaðist sem hjúkrunarfræðingur árið 1998 og er með sérfræðiréttindi í geðhjúkrun frá árinu 2022. Hún setti á fót hjúkrunarstýrða nýjung í þjónustu þeirra sem glíma við meðferðarþráan geðklofa. Með nýsköpun hefur hún aukið öryggi og lífsgæði þeirra sem þurfa sérstakar lyfjagjafir við sínum geðsjúkdómi.

Styrkhafar rannsóknarstyrkja B-hluta vísindasjóðs:

Arna Garðarsdóttir

Þróun og innleiðing á skimunartækinu HEILUNG í framhaldsskólum á Íslandi

Erla Kolbrún Svavarsdóttir

Aðlögun einstaklinga í virkri krabbameinsmeðferð og fjölskyldna þeirra að krabbameinssjúkdómi: Langtímarannsókn

Berglind Ólöf Sigurvinsdóttir

Áhrif fiskiroðs á gróanda húðtökusvæða, forrannsókn

Bjarnheiður Böðvarsdóttir

Kraftmiklir krakkar! Lífstílsmóttaka fyrir börn með offitu og foreldra þeirra

Hólmfríður Margrét Bjarnadóttir

Árangur NADA nálastungumeðferðar í eyru sem viðbótarmeðferð vegna svefntruflana notenda í innlögn til geðendurhæfingar á sjúkrahúsi

Ína Rós Jóhannesdóttir

Viðhorf hagaðila til notkunar á meðferðaróskum í geðrænni meðferð: Rýnihóparannsókn

Íris Dröfn Björnsdóttir

Reynsla kvenna af notkun hormónauppbótarmeðferðar á breytingaskeiði

Marianne E. Klinke

Quality of stroke treatment in Iceland, ICESTROKE study (ísl. Gæði slagmeðferð á Íslandi)

Rannveig Elíasdóttir

Heilsufar grunnskólabarna á Akureyri, tengsl holdafars við líðan

Rakel Björg Jónsdóttir

Snemmútskriftir af nýburagjörgæslu - fyrirburar sem útskrifast heim af nýburagjörgæsludeild-Vökudeild LSH með sondu og/eða súrefni. Samanburður á legutíma, þyngd og brjóstagjöf fyrir og eftir breytingu á útskriftarviðmiðum

Rósa Eiríksdóttir

„Það er fagmennskan og starfsandinn, manni bara líður vel á deildinni“ - Upplifun hjúkrunarfræðinga á hjartadeild Landspítalans af starfsumhverfi sínu

Sólveig Gylfadóttir

Mat á árangri innleiðingar á fræðslumeðferð fyrir sjúklinga í einangrun vegna smitsjúkdóma: innleiðingarrannsókn

Steinunn Snæbjörnsdóttir

Blóðsykur barna í gegnum svæfingu - algengi lágs blóðsykurs við innleiðslu svæfingar og samband við föstutíma

Þórgunnur Birgisdóttir

Heilsutengd lífsgæði einstaklinga með bláæðasár