Höfundar
Anna Halla Birgisdóttir. MSc, hjúkrunarfræðingur, Landspítala.
Þóra Jenný Gunnarsdóttir. PhD, hjúkrunarfræðingur, prófessor við Háskóla Íslands.
Inngangur
Lífslokameðferð er meðferð sem veitt er þegar sjúklingar eru taldir vera á síðustu klukkustundum, dögum eða vikum lífs og tekur til meðferða og nálgana sem taldar eru gagnast best deyjandi sjúklingum. Lífslokameðferð er eitt af skilgreindum meðferðarstigum líknarmeðferðar og getur falið í sér að íþyngjandi inngripum eða meðferðum er hætt eða ekki byrjað á þeim (Landspítali, 2017). Þessi meðferð, ásamt takmörkun annarra meðferða, er fremur algeng á gjörgæsludeildum því talið er að einn til tveir af hverjum tíu sjúklingum látist á gjörgæsludeild eða skömmu eftir útskrift þaðan (Critical Care Statistics, 2023; Endacott o.fl., 2016). Þrátt fyrir algengi meðferðarinnar er skortur á nýlegum yfirlitsrannsóknum um efnið. Rannsóknir sýna að hjúkrunarfræðingar mæta oft áskorunum og jafnvel árekstrum við annað heilbrigðisstarfsfólk þegar þeir sinna deyjandi sjúklingum á gjörgæsludeildum en slíkt getur haft neikvæð áhrif á líðan þeirra (Lief o.fl., 2018; Taylor o.fl., 2020). Að takast á við bráð og lífsógnandi veikindi sjúklinga í flóknu umhverfi gjörgæsludeilda getur verið krefjandi verkefni fyrir hjúkrunarfræðinga. Þörf sjúklinga og fjölskyldna þeirra fyrir líknandi nálgun minnkar þó ekki sjálfkrafa í bráðum veikindum eða tæknivæddu umhverfi. Þrátt fyrir augljóst mikilvægi líknandi nálgunar við lífslok sjúklinga er það álit margra að innleiðing hennar sé oft erfið og komi of seint hjá gjörgæslusjúklingum (Lief o.fl., 2018). Því virðist þörf á almennum og hagnýtum leiðbeiningum fyrir hjúkrunarfræðinga sem annast deyjandi gjörgæslusjúklinga. Slíkar leiðbeiningar, byggðar á gagnreyndum rannsóknum, geta rammað inn sértæka verkþætti hjúkrunar sem gagnast gjörgæslusjúklingum og fjölskyldum þeirra. Rannsóknir sýna líka að það er hjúkrunarfræðingum á gjörgæsludeildum mikilvægt að finnast þeir vera að stuðla að friðsælum dauða fyrir deyjandi sjúklinga og sem bestri mögulegri upplifun aðstandenda af ferlinu (Stokes o.fl., 2019; Vanderspank-Wright o.fl., 2018). Það að hafa jákvæð áhrif á ferlið við lífslok hjálpar hjúkrunarfræðingum að finna tilgang í starfi sínu (Stokes o.fl., 2019).
Samkvæmt skilgreiningu Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) er líknarmeðferð nálgun sem bætir lífsgæði sjúklinga (fullorðinna og barna) og fjölskyldna þeirra sem eru að glíma við vandamál sem tengjast lífsógnandi sjúkdómum. Unnið er að fyrirbyggingu og að lina þjáningar með snemmbærri greiningu, mati og meðferð á sársauka og öðrum vandamálum, hvort heldur þau eru líkamleg, sálfélagsleg eða andleg (Palliative care, 2020).
Líknarmeðferð er frábrugðin lífslokameðferð að því leyti að henni er hægt að beita á öllum meðferðarstigum sjúklinga en vægi líknarmeðferðar er mest þegar sjúklingur er metinn deyjandi. Lífslokameðferð er því mikilvægur hluti líknarmeðferðar og lýsir þeim stuðningi og umönnun sem sjúklingar fá þegar þeir eiga skammt eftir ólifað eða eru metnir deyjandi innan skamms tíma (End of life care for adults: service delivery, 2019).
Lífsbjargandi meðferðir eru allar þær meðferðir sem miða að því að lengja líf sjúklings án þess að lækna undirliggjandi sjúkdóm hans (Ko og Blinderman, 2015). Fyrir alvarlega veika sjúklinga virka slíkar meðferðir oft eins og brú yfir í aðrar meðferðir sem eru meira læknandi, eða þær kaupa tíma fyrir sjúklinginn að ná sér af sjálfsdáðum. Lífsbjargandi meðferðir geta falið í sér margs konar misflóknar meðferðir sem styðja við bilun í líffærakerfum sjúklinga.
Á gjörgæsludeildum eru auk þess veittar ýmsar flóknar og ífarandi lífsbjargandi meðferðir, svo sem meðferð með gervilunga (ECMO), öndunarvélarmeðferð í gegnum barkarennu og blóðskilunarmeðferð. Slíkar meðferðir á gjörgæslum geta gert breytinguna frá læknandi nálgun yfir í líknandi nálgun flóknari. Ef dregið er úr stuðningi slíkra meðferða getur andlát sjúklings oft verið yfirvofandi á næstu klukkustundum (Coombs o.fl., 2017). Framkvæmd lífslokameðferðar á gjörgæsludeildum er því oft háð ákvörðun um að draga úr lífsbjargandi meðferðum (Coombs o.fl., 2017; Endacott o.fl., 2016). Lagaleg hlið þeirra ákvarðana er mismunandi eftir löndum. Yfirleitt liggur þó meginábyrgðin hjá lækni sjúklings, sem þarf að taka bestu ákvörðunina um meðferðir, helst í samráði við sjúklinginn og fjölskyldu hans og með upplýstu samþykki þeirra (Emanuel og Johnson, 2015). Heilbrigðisstarfsfólk á gjörgæsludeildum þarf að átta sig á mikilvægi þess fyrir sjúklinga og fjölskyldur þeirra að lífslokameðferð sé góð. Það gefst sjaldan möguleiki á að flytja gjörgæslusjúklinga á deildir sem sérhæfa sig í líknarmeðferð. Því er afar mikilvægt að sú meðferð sem sjúklingar og fjölskyldur þeirra hljóta við lífslok á gjörgæslu byggist á bestu mögulegu þekkingu um efnið og sé aðlöguð að þessum skjólstæðingahóp. Markmið þessarar samþættu fræðilegu samantektar er að greina og setja fram árangursríka umönnunarþætti hjúkrunar fyrir deyjandi gjörgæslusjúklinga og fjölskyldur þeirra, með því að skoða hvað rannsóknir um það efni hafa leitt í ljós. Tvær rannsóknarspurningar voru settar fram.
- Hvaða umönnunarþættir hjúkrunar hafa áhrif á lífslokameðferð á gjörgæsludeild?
- Hver er upplifun aðstandenda sjúklinga af lífslokameðferð á gjörgæsludeild?
Aðferð
Þessi rannsókn byggir á sameiningu niðurstaðna annarra rannsókna en slíkar rannsóknir nefnast yfirlitsrannsóknir eða samantektarrannsóknir (Ragnheiður Harpa Arnardóttir, 2016). Yfirlitsrannsóknir gefa yfirsýn yfir fyrirbærið sem er til umfjöllunar og geta gagnast við að færa þekkingu úr rannsóknum inn í gagnreynda starfshætti (Ragnheiður Harpa Arnardóttir, 2016). Slík aðferðafræði við gerð fræðilegrar samantektar gerir kleift að nota gögn, þar sem ólíkri aðferðafræði rannsókna er beitt (Whittemore og Knafl, 2005). Flókið eðli marga viðfangsefna í heilbrigðisþjónustu hefur aukið áhuga á yfirlitsrannsóknum sem sameina niðurstöður fleiri tegunda rannsókna á fyrirbærum. Whittemore og Knafl (2005) settu fram aðferðina en þar er lagt til að rannsóknargögn séu flokkuð og settar upp samþættingartöflur (matrix) til að sameina ákveðnar breytur. Eitt af markmiðum þessarar aðferðar er að gera samanburð niðurstaðna skýrari og aðgengilegri. Ferlinu var skipt niður í fjóra hluta samkvæmt tillögum Whittemore og Knafl (2005). Þeir eru; að greina rannsóknarvandamál, að safna gögnum, að greina gögnin og birta niðurstöður. Inngangur gerir grein fyrir fyrsta hluta ferlisins, markmiðum og ofangreindum rannsóknarspurningum.
Gagnasöfnun og leitarorð
Gagnasöfnunin fór fram á tímabilinu maí 2020 til febrúar 2023. Rannsóknarspurningar stýrðu leit að rannsóknum og vali á leitarorðum. Fyrri rannsóknarspurningin var mótuð með „PICOT“ viðmið í huga, þar sem þýðið (P=population) skilgreindist af orðinu „gjörgæsludeild“, því það lýtur að sjúklingum og aðstandendum þar. Íhlutanir eða áhrif sem leitað var eftir (I=intervention) skilgreindust af orðunum „umönnunarþættir hjúkrunar“. Útkoman sjálf (O=outcome) var skilgreind með orðunum „áhrif á lífslokameðferð“ og vísar þá til gæða þeirra (Echevarria og Walker, 2014). Síðari spurningin var mótuð með „SPIDER“ viðmið í huga, en þau henta eigindlegum rannsóknarspurningum betur (Cooke o.fl., 2012). Úrtakið (S=sample) kom fram í orðinu „gjörgæsludeild“, táknaði aðstandendur sjúklinga þar. Fyrirbærið sem leitast var við að skoða (Pi=phenomenon of interest) var táknað með orðinu „lífslokameðferð“ og matið (E=evaluation) fólst í orðunum „upplifun aðstandenda“.
Í töflu 1 má sjá yfirlit yfir þau leitarorð sem notuð voru við leit í rafrænum gagnasöfnum PubMed og CINAHL. Leitað var eftir 64 samsetningum leitarorða og haldið utan um niðurstöður leitar í exel-forriti og á síðari stigum einnig í EndNote-forritinu. Nokkrar greinar fundust við handleit eða í heimildaskrám annarra greina.

Inntökuskilyrði og útilokun rannsókna
Í töflu 2 má sjá þau inntöku- eða útilokunarskilyrði sem horft var til við leit og skimun á rannsóknum í samantektina. Sjá má myndrænt flæðirit (PRISMA) yfir leit, skimun og val á greinum á mynd 1.

Val á heimildum og gæðamat
Tuttugu og tvær greinar uppfylltu skilyrðin til að komast í samantektina. Af þeim 117 greinum sem komu til greina í byrjun, var flestum hafnað fremur snemma í ferlinu vegna þess að þær uppfylltu ekki inntökuskilyrði (94). Áhrifastuðull (impact factor) birtingartímarita rannsóknanna var hafður til hliðsjónar við skimun rannsókna en gæðamat rannsóknanna var ekki háð honum. Tuttugu og þrjár greinar voru lesnar í heild sinni og gert ítarlegt gæðamat á þeim. Af þeim var einni grein hafnað vegna lágs gæðamats.

Til að auka réttmæti samantektarinnar var stuðst við viðurkennd gæðamatsverkfæri frá Joanna Briggs Institute (JBI Critical Appraisal Tools, 2021). Yfirlit yfir þessi matsverkfæri má sjá í töflu 3.

Báðir rannsakendur framkvæmdu gæðamat. Hæsti stigafjöldi gat verið á bilinu 8 til 11. Því voru stig reiknuð í prósentuhlutfall af 100, til að auðvelda yfirsýn yfir gæði rannsóknanna í heild, svo og gæðasamanburð milli rannsókna. Miðað var við að rannsóknir skoruðu 60% eða meira til þess að vera teknar með í samantektina. Þó æskilegast hefði verið að finna sem flestar rannsóknir með sterkasta sniðinu, fundust afar fáar rannsóknir með tilraunasniði um efnið. Eina rannsóknin sem fannst með tilraunasniði og slembun í hópa uppfyllti ekki inntökuskilyrðin við skimun.
Gagnagreining
Stuðst var við leiðbeiningar í grein Whittemore og Knafl (2005) um aðferðina til þess að flokka og greina gögnin. Þær 22 rannsóknir sem völdust í samantektina voru yfirfarnar og komið auga á sameiginlegar breytur í þeim. Hver rannsókn var sett upp í niðurstöðutöflu (sjá töflu 4) þar sem fram komu upplýsingar um ártal, höfunda, gæðamat, rannsóknarsnið, aðferðir, úrtak, mælitæki, tímamælingar, niðurstöður og ályktanir höfunda. Við samþættingu rannsókna voru rannsóknarniðurstöður greindar í fjögur þemu sem svöruðu rannsóknarspurningunum.
Siðfræðileg álitamál
Ekki þurfti að sækja um leyfi fyrir samantektinni þar sem öll gögnin komu úr áður birtum rannsóknargreinum.
Niðurstöður
Af þeim tuttugu og tveim rannsóknum sem völdust í samantektina voru fjórtán megindlegar rannsóknir, fimm eigindlegar rannsóknir og þrjár höfðu blandaða aðferð. Rannsóknirnar birtust á tímabilinu 2016–2022, og voru þátttakendur frá Frakklandi (1.878 ættingjar og 458 sjúklingar), Hollandi (212 ættingjar og 90 sjúklingar), Danmörku (126 ættingjar og 88 sjúklingar), Bandaríkjunum (94 ættingjar, 38 sjúklingar og 139 heilbrigðisstarfsmenn (116 af þeim voru hjúkrunarfræðingar)), Ástralíu (100 hjúkrunarfræðingar), Ísrael (122 hjúkrunarfræðingar), Nýja-Sjálandi (fjórir ættingjar, 59 hjúkrunarfræðingar), Kanada (27 heilbrigðisstarfsmenn (af þeim voru 16 hjúkrunarfræðingar)), Kína (149 ættingjar og 149 sjúklingar), Indónesíu (127 hjúkrunarfræðingar), Suður-Kóreu (44 hjúkrunarfræðingar), Noregi (27 ættingjar) og Suður-Afríku (17 ættingjar). Fjögur þemu birtust eftir greiningu gagnanna: „Mikilvægi þekkingar hjúkrunarfræðinga á hjúkrun við lífslok“, „Góð einkennameðferð við lífslok“, „Þátttaka fjölskyldu í umræðum um meðferðartakmarkanir gjörgæslusjúklinga“ og „Fjölskyldumiðuð hjúkrun við lífslok gjörgæslusjúklinga“.


Mikilvægi þekkingar hjúkrunarfræðinga á hjúkrun við lífslok
Átta rannsóknir fjölluðu um þekkingu hjúkrunarfræðinga á lífslokameðferð á gjörgæsludeildum (Ganz o.fl., 2020; Graham o.fl., 2018; Kentish-Barnes o.fl., 2022; Kurnia o.fl., 2020; Noome o.fl., 2017; Shifrin, 2016; Wilson o.fl., 2017; Yang og Shin, 2021) og voru 652 heilbrigðisstarfsmenn sem tóku þátt en 636 af þeim voru hjúkrunarfræðingar. Niðurstöður bentu til þess að íhlutanir til að efla þekkingu hjúkrunarfræðinga gjörgæsludeilda á lífslokameðferð væru líklegar til þess að bera árangur (Graham o.fl., 2018; Kentish-Barnes o.fl., 2022; Noome o.fl., 2017; Shifrin, 2016; Wilson o.fl., 2017; Yang og Shin, 2021) og gætu nýst til að bæta útkomu hjá þessum sjúklingum (Kurnia o.fl., 2020; Shifrin, 2016; Wilson o.fl., 2017). Þá mátti líklega bæta útkomu fræðslunnar með því að kanna fyrst þekkingarskort hjúkrunarfræðinga á ákveðnum sviðum lífslokameðferðar og leggja áherslu á þau í fræðslunni (Graham o.fl., 2018). Íhlutanir sem miðuðu að því að hafa jákvæð áhrif á viðhorf hjúkrunarfræðinga til þess að þiggja slíka fræðslu, juku árangur fræðslunnar. Ýmis módel gátu stutt við innleiðingar á breytingum í klínískum starfsháttum (Noome o.fl., 2017; Shifrin, 2016). Aukin þekking hjúkrunarfræðinga á lífslokameðferð á gjörgæslu var líkleg til að skila sér í auknu öryggi þeirra við að veita þessa meðferð, þó var bent á að hjúkrunarfræðingar gátu líka verið öruggir við að veita meðferðir við lok lífs án nægjanlegrar þekkingar og að slíkt bætti ekki árangur meðferðanna (Kurnia o.fl., 2020).

Góð einkennameðferð við lífslok
Niðurstöður sex rannsókna fjölluðu um mögulega áhrifaþætti hjúkrunar á líðan gjörgæslusjúklinga við lífslok (Gerritsen o.fl., 2018; Han o.fl., 2021; Kentish-Barnes o.fl., 2016; Robert o.fl., 2020; Robert o.fl., 2017; Yeh o.fl., 2019) en 496 gjörgæslusjúklingar og 912 ættingjar tóku þátt í rannsóknunum. Þrjár rannsóknir bentu til þess að það að fjarlægja barkarennu snemma í lífslokameðferð gæti valdið meiri vanlíðan (hryglu og verkjum) hjá sjúklingum (Robert o.fl., 2020; Robert o.fl., 2017; Yeh o.fl., 2019), en hefði lítil áhrif á líðan aðstandenda eða mat þeirra á gæðum meðferða (Robert o.fl., 2017). Þrjár rannsóknir bentu til þess að verkir og andnauð deyjandi gjörgæslusjúklinga væru vanmeðhöndluð (Han o.fl., 2021; Robert o.fl., 2020; Yeh o.fl., 2019). Við réttmætisprófun kínverskrar útgáfu mælitækisins “Quality of Dying and Death” var það mat aðstandenda að verkjastjórnun hjá deyjandi ættingjum þeirra væri ekki góð (22,54 að meðaltali). Lágt mat (18,12) sömu aðstandenda á öndunarvélarmeðferð þessa hóps gæti líka bent til vanmeðhöndlunar á erfiðum einkennum eins og andnauð (Han o.fl., 2021). Helmingur sjúklinganna í rannsókn Roberts og félaga (2020) upplifði einnig vanlíðan þegar dregið var úr stuðningi með öndunarvél og að fjarlægja barkarennu í lífslokameðferð virtist tengjast meiri vanlíðan sjúklinganna. Í rannsókn Yeh og félaga (2019) upplifðu 73,7% sjúklinganna meiri vanlíðan eftir að barkarenna var fjarlægð. Hins vegar var það mat meirihluta ættingja frá Frakklandi, Hollandi og Danmörku í rannsóknum Kentish-Barnes og félaga (2016) og Gerritsen og félaga (2018), að verkjameðferð sjúklinganna væri góð. Þó var það mat heilbrigðisstarfsfólks í Frakklandi og Bandaríkjunum að verkir og andnauð gjörgæslusjúklinga í lífslokameðferð væri vanmeðhöndluð (Robert o.fl., 2020; Yeh o.fl., 2019). Það að meta einkenni sjúklinga sem ekki geta tjáð sig um þau er krefjandi og krefst ákveðinnar færni og þekkingar. Því er ekki ólíklegt að stundum gætu slík einkenni verið til staðar án þess ættingjar átti sig á þeim. Niðurstöður samantektarinnar bentu til að gera megi betur í einkennameðferð deyjandi gjörgæslusjúklinga.
Þátttaka fjölskyldu í umræðum um meðferðartakmarkanir gjörgæslusjúklinga
Átta rannsóknir fjölluðu um þarfir og upplifun fjölskyldu, þegar umræður og ákvarðanir voru teknar um meðferðir eða takmarkanir þeirra hjá gjörgæslusjúklingum við lok lífs (Brekelmans o.fl., 2022; Gerritsen o.fl., 2018; Gul o.fl., 2019; Hutchinson og Van Wissen, 2017; Kisorio og Langley, 2016; Lind, 2019; Noome o.fl., 2016; Ranse o.fl., 2016). Alls 405 ættingjar og 159 hjúkrunarfræðingar tóku þátt í þessum rannsóknum. Niðurstöður bentu til þess að bæta megi þátttöku fjölskyldna í ákvörðunarferlinu við lífslok gjörgæslusjúklinga og að ættingjar vilji taka þátt í því (Brekelman o.fl., 2022; Gerritsen o.fl., 2018; Kisorio and Langley, 2016; Lind, 2019). Það er þó krefjandi fyrir ættingja að taka þátt og því þurfa þeir stuðning frá heilbrigðisstarfsfólki til þess að vera færir um það (Gul o.fl., 2019; Hutchinson og Van Wissen, 2017; Lind, 2019; Noome o.fl., 2016; Ranse o.fl., 2016). Ættingjar upplifa oft yfirþyrmandi ábyrgðartilfinningu í ákvörðunarferlinu (Gul o.fl., 2019; Hutchinson og Van Wissen, 2017; Lind, 2019; Noome o.fl., 2016) og þurfa aðstoð frá heilbrigðisstarfsfólki til þess að greina á milli eigin ábyrgðar og þeirrar sem hvílir á heilbrigðisstarfsfólki (Lind, 2019; Noome o.fl., 2016).
Fjölskyldumiðuð hjúkrun við lífslok gjörgæslusjúklinga
Níu rannsóknir fjölluðu um mikilvægi framlags hjúkrunar til fjölskyldna gjörgæslusjúklinga við lífslok (Brekelman o.fl., 2022; Gerritsen o.fl., 2018; Gul o.fl., 2019; Han o.fl., 2021; Kentish-Barnes o.fl., 2022; Kentish-Barnes o.fl., 2016; Kisorio og Langley, 2016; Noome o.fl., 2016; Vanstone o.fl., 2020) en þátttakendur voru 2.074 ættingjar og 72 heilbrigðisstarfsmenn (af þeim voru 56 hjúkrunarfræðingar). Niðurstöður þeirra bentu til að tilfinningalegur stuðningur frá hjúkrunarfræðingum væri mikilvægur gæðaþáttur í lífslokameðferð sjúklinga (Gul o.fl., 2019; Noome o.fl., 2016), og að fjölskyldur upplifðu lakari gæði meðferða þegar hann skorti (Kisorio og Langley, 2016). Ættingjar kunnu að meta opna heimsóknartíma (Noome o.fl., 2016) og fannst erfitt þegar heimsóknir voru takmarkaðar (Kisorio og Langley, 2016). Þörf fjölskyldna til þess að verja sem mestum tíma með sjúklingnum kom líka fram í niðurstöðum 3WP-verkefnisins (“three wishes project”) í rannsókn Vanstone og félaga (2020), en þriðjungur óskanna fólu í sér meiri viðveru fjölskyldu hjá sjúklingnum í gegnum persónulegar eða trúarlegar athafnir. Nokkrar rannsóknir sýndu fram á þörf fjölskyldu fyrir heiðarlegar og auðskiljanlegar upplýsingar frá heilbrigðisstarfsfólki (Brekelmans o.fl., 2022; Gul o.fl., 2019; Kisorio og Langley, 2016; Noome o.fl., 2016). Mikilvægi kveðjustundar fyrir fjölskyldur kom fram í nokkrum rannsóknum (Brekelmans o.fl., 2022; Gul o.fl., 2019; Kisorio og Langley, 2016; Noome o.fl., 2016). Kveðjustund var líka einn af mörgum gæðaþáttum í mælitækjum sem mátu gæði lífslokameðferðar (Gerritsen o.fl., 2018; Han o.fl., 2021; Kentish-Barnes o.fl., 2016) en í rannsókn Han og félaga (2021) tjáðu einmitt margir aðstandendur eftirsjá yfir því að hafa ekki getað kvatt sjúklinginn. Í rannsókn Vanstone og félaga (2020) mátti sjá mikilvægi kveðjustundar endurspeglast í mörgum þeim óskum sem voru uppfylltar í lífslokameðferð sjúklinganna. Í tveimur rannsóknum (Kisorio og Langley, 2016; Noome o.fl., 2016) höfðu ættingjar þörf fyrir að fá að taka beinan þátt í umönnun sjúklingsins en þeir þurftu stuðning hjúkrunarfræðinga á gjörgæslu til þess að geta verið öruggir í því hlutverki. Nýleg rannsókn Kentish-Barnes og félaga (2022) sem kannaði áhrif þriggja skrefa íhlutunar fyrir ættingja deyjandi gjörgæslusjúklinga á gæði lífslokameðferðar sýndi fram á jákvæð áhrif íhlutunarinnar. Íhlutunin byggðist á þremur fundum milli ættingja og heilbrigðisstarfsfólks í ferlinu við lífslok gjörgæslusjúklinga. Árangur var mældur með því að meta skor ættingja á langvarandi sorgarviðbrögðum eftir sex mánuði og einkennum um áfallastreituröskun (PTDS) eftir þrjá og sex mánuði. Íhlutunin dró marktækt úr hlutfalli aðstandenda sem glímdu við flókin sorgarviðbrögð (15% í íhlutunarhóp en 21% í viðmiðunarhóp). Áhugavert væri að sjá fleiri rannsóknir á notkun og árangri þessarar íhlutunar hjá fjölbreyttari hóp gjörgæslusjúklinga en þátttakendur voru 688 frá frönskum gjörgæsludeildum.
Samkvæmt niðurstöðum samantektarinnar benti flest til að gæði lífslokameðferðar væru alla jafna nokkuð góð, þó bæta mætti ákveðin svið hennar. Ættingjar frá Kína mátu gæði meðferðarinnar minni en ættingjar frá Evrópu eða Bandaríkjunum en rannsaka þyrfti betur hvort um raunverulegan mun sé að ræða þar sem þátttakendur frá Kína voru einungis 149 ættingjar frá einu stóru háskólasjúkrahúsi (Han o.fl., 2021).
Umræður
Þessi samantekt miðaði að því að finna nýlegar rannsóknir sem gætu varpað ljósi á þá umönnunarþætti hjúkrunar sem bæta gæði lífslokameðferðar á gjörgæsludeildum. Leitað var í gagnagrunnum að gagnreyndri þekkingu um hjúkrun þessa sjúklingahóps. Þessi þekking var síðan greind til að finna þá hjúkrunarþætti sem gagnast þessum sjúklingum og fjölskyldum þeirra. Niðurstöður samantektarinnar birtast í fjórum þemum hennar sem lýsa á fremur einfaldaðan máta þeirri hjúkrun sem þessi sjúklingahópur fær í flóknum aðstæðum og umhverfi gjörgæsludeilda. Þeir umönnunarþættir hjúkrunar sem lýst er hafa möguleika á að hafa jákvæð áhrif á þrjú svið lífslokameðferðar á gjörgæsludeildum. Þessi þrjú svið eru í fyrsta lagi þekking og hæfni hjúkrunarfræðinga, í öðru lagi velferð sjúklinga og í þriðja lagi velferð fjölskyldu sjúklinga. Í töflu fimm má sjá tillögur að umönnunarþáttum hjúkrunar sem geta bætt gæði lífslokameðferðar á þessum þremur sviðum.
Sýnt hefur verið fram á að þekking hjúkrunarfræðinga um líknarmeðferð getur aukið sjálfstraust þeirra og öryggi við hjúkrun gjörgæslusjúklinga við lífslok (Kurnia o.fl., 2020; Yang og Shin, 2021). Því er mikilvægt að hvatt sé til fræðslu, námskeiða og umræðna um líknarmeðferð og lífslokameðferð fyrir alla hjúkrunarfræðinga sem starfa á gjörgæsludeildum. Þetta samræmist niðurstöðum nýlegrar kögunarrannsóknar á lífslokameðferð utan sérhæfðra líknardeilda en höfundar telja kunnáttu og reynslu hjúkrunarfræðinga styðja við góða meðferð sjúklinga og fjölskyldna (Guðríður Ester Geirsdóttir o.fl., 2023). Þörf fjölskyldna fyrir heiðarlegar og auðskiljanlegar upplýsingar kom greinilega fram í þessari samantekt (Gul o.fl., 2019; Kisorio og Langley, 2016; Noome o.fl., 2016). Hjúkrunarfræðingar gegna mikilvægu hlutverki í umræðum um meðferðir og takmarkanir þeirra við lok lífs (Coombs o.fl., 2017) og framlag þeirra er mikilvægt fyrir gæði lífslokameðferðar á gjörgæslum (Anderson o.fl., 2016; Vanderspank-Wright o.fl., 2019). Þátttaka krefst þó ákveðinnar hæfni og því ætti þjálfun í samskiptum að vera hluti af þeirri fræðslu og menntun sem er í boði fyrir hjúkrunarfræðinga á gjörgæsludeildum. Niðurstöður samantektarinnar benda til vanmeðhöndlunar á erfiðum einkennum deyjandi gjörgæslusjúklinga. Í rannsókn Guðríðar Esterar Geirsdóttur og fleiri (2023) kom einnig fram að bæta mætti einkennameðferð hjá deyjandi sjúklingum utan sérhæfðra líknardeilda. Því má álykta að hjúkrunarfræðingar á gjörgæslum þurfi að eiga frumkvæði að því að bæta einkennameðferð sjúklinga sinna. Skortur á lyfjafyrirmælum ætti ekki að tefja of lengi eða hindra góða einkennameðferð. Góð og einstaklingsmiðuð einkennameðferð sjúklinga krefst virks samstarfs hjúkrunarfræðinga og lækna á gjörgæslu. Einnig er mikilvægt að hjúkrunarfræðingar temji sér notkun mælitækja sem auðvelda þeim að meta verki og andnauð þessa sjúklingahóps. Áhrif umhverfis gjörgæslu á lífslokameðferð komu fram í þessari samantekt (Gul o.fl., 2019; Hutchinson og Van Wissen, 2017) og hjúkrunarfræðingar reyndu að aðlaga umhverfið að þörfum sjúklinga og fjölskyldna þeirra (Noome o.fl., 2016; Vanstone o.fl., 2020). Þetta samræmist niðurstöðum samantektar Coombs og fleiri (2017) sem skoðuðu stuðning hjúkrunarfræðinga til fjölskyldna gjörgæslusjúklinga við lífslok. Þetta kemur ekki á óvart þar sem líknandi nálgun leggur áherslu á heimilið eða heimilislegt umhverfi í meðferðum við lífslok (Cottrell og Duggleby, 2016) og sýnt hefur verið fram á áhrif hönnunar og umhverfis sjúkrahúsa á gæði lífslokameðferðar (Sagha Zadeh o.fl., 2018).
Þessi yfirlitsgrein dregur fram svið lífslokameðferðar á gjörgæslum sem þarfnast frekari rannsókna og umbóta. Þar má nefna stuðning til fjölskyldna við ákvarðanatöku um meðferðir við lífslok sjúklinga. Fjölskyldur vilja oftast vera meiri þátttakendur í ferlinu en eru háðar stuðningi heilbrigðisstarfsfólks til þess að svo megi verða. Þetta samræmist niðurstöðum rannsóknar Endacott o.fl. (2016) sem sýndu skort á skýrri umræðu um horfur sjúklinga, auk þess sem vilji fjölskyldu til þátttöku í ákvörðunarferlinu var oft ekki kannaður. Umræðuferlið þarf að byggja á góðu samstarfi lækna, hjúkrunarfræðinga og fjölskyldna en þátttaka hjúkrunarfræðinga er mikilvæg til að tryggja gæðaútkomu (Anderson o.fl., 2016). Ástæður skorts á þátttöku hjúkrunarfræðinga í ferlinu er áhugavert rannsóknarefni, ásamt því hvað það er helst sem hindrar góða einkennameðferð deyjandi gjörgæslusjúklinga. Í framhaldinu væri hægt að þróa íhlutanir sem miða að því að fjarlægja hindranir og bæta þannig gæði lífslokameðferðar á gjörgæsludeildum.
Ábendingar fyrir hjúkrun
Fræðsla og þjálfun í líknarmeðferð þarf að vera í boði fyrir alla hjúkrunarfræðinga sem vinna á gjörgæsludeildum, með áherslu á sértækar þarfir þessa sjúklingahóps og fjölskyldna þeirra. Stuðningur frá stjórnendum gjörgæsludeilda er mikilvægur í því samhengi en slík fræðsla bætir mögulega gæði lífslokameðferðar á gjörgæslum með aukinni þátttöku hjúkrunarfræðinga í umræðuferlinu við lífslok og bættri einkennameðferð sjúklinga.
Styrkleikar og veikleikar
Þessi yfirlitsgrein hefur nokkrar takmarkanir. Inntökuskilyrði kunna að hafa verið of þröng og þannig útilokað mikilvægar rannsóknir sem gætu hafa styrkt niðurstöðurnar. Hætta á skekkju er einnig til staðar þar sem flókið getur reynst að samþætta niðurstöður svo ólíkra rannsóknarsniða. Þá spannar rannsóknin nokkuð vítt svið, þar sem viðfangsefnið er margþætt, og gætu rannsóknir á afmarkaðri þáttum lífslokameðferðar á gjörgæslu því mögulega gefið áhrifaríkari niðurstöður eða leiðbeiningar í klíník. Það að velja nýlegar greinar, fylgja vandlega viðurkenndum aðferðum við samþættingu og gæðamat rannsókna, ásamt því að halda rannsóknardagbók yfir ferlið hefur mögulega styrkt niðurstöður samantektarinnar.
Ályktun
Hjúkrunarfræðingar gjörgæsludeilda hafa einstakt tækifæri til þess að styðja sjúklinga og fjölskyldur þeirra í lífslokameðferð og til að hafa áhrif sem bæta gæði meðferðarinnar. Til þess þurfa þeir að búa yfir þekkingu sem eflir frumkvæði og sjálfstraust þeirra til þátttöku á öllum sviðum lífslokameðferðar. Bæta má einkennameðferð deyjandi gjörgæslusjúklinga, svo og stuðning við fjölskyldur þeirra í umræðum um meðferðir eða takmarkanir þeirra við lífslok.
Heimildir
