Fara á efnissvæði
Frétt

Ákall til fulltrúa á COP28

Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga hefur ásamt félögum hjúkrunarfræðinga á Norðurlöndunum sent ákall til fulltrúa sinna þjóða á Loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna, COP28, um aðgerðir gegn loftslagsbreytingum.

COP 28 verður haldin í Sameinuðu arabísku furstadæmunum frá 30. nóvember til 12. desember. Í bréfi allra félaga í Samvinnu hjúkrunarfræðinga á Norðurlöndum (SSN) eru stjórnvöld á Norðurlöndum og fulltrúar þeirra á COP28 hvattir til að stuðla að gerð bindandi samkomulags sem minnkar kolefnisfótspor jarðarbúa.

Áhrifa loftslagsbreytinga gætir um allan heim og eru neikvæð áhrif þeirra ekki lengur framtíðarspár heldur veruleiki sem endurspeglast í neikvæðum áhrifum á heilsu, færri bjargráð og fordæmalausar áskoranir á heilbrigðiskerfi heimsins.

Hjúkrunarfræðingar starfa í framlínu og verða vitni af sívaxandi heilsufarsvanda sem rekja má til loftslagsbreytinga. Má þar nefna nýja smitsjúkdóma, útbreiðsla smitbera á ný svæði, aukning andlegra veikinda ásamt hitabylgjum, flóðum og skógareldum sem hefur áhrif á líf og heilsu fólks.

Á COP28 ráðstefnunni þarf að taka ákvarðanir sem taka mið af heilsu alls mannkyns og plánetunnar okkar.