Fara á efnissvæði
Frétt

Aldrei mikilvægara að heimsbyggðin standi saman

„Þessi ákvörðun getur orðið til þess að við verðum lengur að ná sameiginlegum markmiðum þegar kemur að því að bæta heilsu á heimsvísu. Þegar kemur að þessum áskorunum þá er engin þjóð eyland, til að segja það hreint út þá stoppa smitsjúkdómar ekki á landamærum til að sýna vegabréfið sitt,“ segir Catton.

Howard Catton, framkvæmdastjóri Alþjóðaráðs hjúkrunarfræðinga (ICN), segir í samtali við tímaritið Nursing Times að ákvörðun Donalds Trump, forseta Bandaríkjanna, að draga Bandaríkin úr Alþjóðaheilbrigðisstofnunni (WHO) geti haft slæmar og víðtækar afleiðingar fyrir heilbrigði fólks á heimsvísu. Í dag hafi aldrei verið mikilvægara fyrir þjóðir heimsins að standa saman frammi fyrir stórum áskorunum í heilbrigðismálum.

„Þessi ákvörðun getur orðið til þess að við verðum lengur að ná sameiginlegum markmiðum þegar kemur að því að bæta heilsu á heimsvísu. Þegar kemur að þessum áskorunum þá er engin þjóð eyland, til að segja það hreint út þá stoppa smitsjúkdómar ekki á landamærum til að sýna vegabréfið sitt,“ segir Catton.

„WHO hefur leitt stór mikilvæg verkefni þegar kemur að smitsjúkdómum, síðast Marburg-veiran í Afríku. Við höfum einnig haft Mpox frá því að kórónuveirufaraldurinn gekk yfir heimsbyggðina. Sá faraldur var stærsta dæmið um áskorun sem riðlar til heilbrigðiskerfum heimsins.“

Fleira spilar inn í en fjármögnun

WHO samanstendur af 194 þjóðum og hefur það að markmiði að bæta heilsu heimsbyggðarinnar. Bandaríkin eru meðal stofnenda og hafa staðið straum af stórum hluta kostnaðar við að rekja WHO. Ástæðan sem er gefin fyrir brotthvarfinu er að WHO hafi ekki staðið sig sem skyldi í COVID-19 faraldrinum, þeim hafi mistekist að ráðast í innri endurskipulagningu og ekki staðið vörð um sjálfstæði sitt frá pólitískum þrýstingi einstakra aðilarríkja. ICN hefur starfað reglulega með WHO að ýmsum verkefnum frá stofnun árið 1948.

Catton segir meira spila inn í en fjármögnun. „Þeir skipta miklu máli þegar kemur að fjármögnun en þeir skipta líka miklu máli þegar kemur að vísindalegri þekkingu og reynslu sem þeir hafa komið með í gegnum sínar stofnanir sem og fræðafólk frá Bandaríkjunum. Ef ég lít á þetta frá þeirra sjónarhóli þá tel ég Bandaríkjunum best borgið með því að vera hluti af WHO, en er WHO fullkomið? Það er ekki til neitt sem er fullkomið,“ segir Catton.

Brotthvarf þeirra úr WHO getur haft miklar afleiðingar þegar kemur að bólusetningum barna. „Þetta getur leitt til þess að börn fá ekki þær bólusetningar sem þau þurfa og fólk fái ekki jafn góðan aðgang að heilbrigðisþjónustu.“

Smitsjúkdómar virða engin landamæri

Jennifer Mensik Kennedy, forseti American Nurses Association (ANA), segir verið sé að fara í gegnum mikið magn tilskipana frá Hvíta húsinu og meta áhrifin á heilbrigðisþjónustu sem og hjúkrunarfræðinga. „Við höfum lært það að hræðilegir smitsjúkdómar virða engin landamæri og við sem hluti af alþjóðasamfélagi þurfum að koma saman til að leysa vandamál þegar þau koma upp. Við höfum miklar áhyggjur af brotthvarfi Bandaríkjanna úr WHO og hvaða afleiðingar það mun hafa á heilbrigðiskerfið hér og á heimsvísu.“