Merki Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga er fyrir löngu orðið sjálfsagður hlutur í hugum hjúkrunarfræðinga. Merkið er mikilvægur hluti af ímynd félagsins eins og það birtist hjúkrunarfræðingum, skjólstæðingum þeirra, samstarfsmönnum og almenningi. Reglulega koma upp vangaveltur um hvað blómið táknar og hvaðan það kemur.
Jóna Sigríður Þorleifsdóttir hjá auglýsingastofunni AUK hannaði merkið í samstarfi við merkjanefnd félagsins við sameiningu Hjúkrunarfélags Íslands og Félags háskólamenntaðra hjúkrunarfræðinga í Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga árið 1994.
Núverandi merki á að tákna jörð, sól og himinn, tákn um lífið. Sem hjúkrunarfræðingar hlúa að með þjónustu sinni frá sólarupprás.
Merkið er með svipuðu blómi og merki Fjelags íslenskra hjúkrunarkvenna, síðar Hjúkrunarfélags Íslands. Samkvæmt ritgerð Erlu Dórisar Halldórsdóttur sagnfræðings, sem fjallað var um í 4. tölublaði Tímarits hjúkrunarfræðinga árið 1999 var það hugmynd Davide Warncke að hafa blágresi í merkinu. Davide var formaður Fíh á árunum 1920 til 1922, hún var dönsk og gegndi stöðu yfirhjúkrunarfræðings á Vífilsstaðaspítala.
Fram kemur í bók Margrétar Guðmundsdóttur sagnfræðings, Saga hjúkrunar á Íslandi á 20. öld sem kom út árið 2010 að Davide hafi talið sjálfsagt að merkið yrði í fánalitunum, Íslendingar elskuðu blágresi og því væri það tilvalið í merkið. Umræðan um merkið var tekin á stjórnarfundum félagsins frá 1921 þangað til endanleg niðurstaða fékkst vorið 1924. Fyrstu nælurnar með merkinu komu til landsins í lok árs 1924 frá Noregi, tóku þau við armbindum með bláum kross sem borin voru á hægri upphandlegg.
Blágresi er algeng blómplanta á Íslandi sem og víðar. Á fyrri öldum var blómið notað sem lækningajurt í bæði Evrópu og af frumbyggjum Norður-Ameríku. Það var mismunandi hvernig það var gert eftir tímum og heimshlutum, er talið að jurtin hafi verið notuð gegn magaverkjum, miklum tíðablæðingum og sem munnskol. Helst hefur blágresi þó verið notað til að lita föt.
Björn Björnsson, teiknikennari, teiknaði merkið árið 1924. Björn lærði að teikna í Berlín snemma á 20. öld og kenndi teikningu við þrjá skóla í einu ásamt því að halda námskeið í hlöðunni fyrir aftan Landlæknishúsið á Amtmannsstíg þangað til hann lést 1939.
Félög hjúkrunarfræðinga erlendis notast oftast við lampa eða Hermesarstafinn. Félag danskra hjúkrunarfræðinga notast við fjögurra laufa smára sem líkist íslenska merkinu meira en öðrum.
Fleira kann að spila inn í, í Tímariti Fjelags íslenskra hjúkrunarkvenna frá 1927 var birt grein Sophiu Mannerheim þar sem hún vitnar í Florence Nightingale sem sagði að ekkert í lífi sínu færði sér jafn mikla ánægju og að fá blómvönd þegar hún lægi í veikindum. Blóm væru tilvalin til að lýsa upp grábrún sjúkraherbergi fyrir föla sjúklinga. Var þá talað um að það væri æskilegt fyrir hjúkrunarfræðinga að hafa blóm inni á sjúkraherbergjum til að halda sjúklingum í jafnvægi og flýta fyrir bata.
Árið 1924 kostaði merkið hjúkrunarfræðinga 10 krónur, há upphæð í þá daga þegar mánaðarlaun hjúkrunarfræðinga voru á bilinu 100 til 300 krónur. Fyrir árslok 1924 höfðu allir hjúkrunarfræðingar hér á landi keypt sér merki. Á árum áður voru hjúkrunarfræðingar skyldugir til að bera einkennisnælu með merkinu við vinnu að geðdeildum undanskyldum. Í nælurnar var grafið félagsnúmer, sérstaklega var tekið fram að gangi nælur í arf þá þurfti að grafa bæði númerin í næluna. Sérstaklega var passað upp á nælurnar og átti að tilkynna það til félagsins ef einhver annar en hjúkrunarfræðingur sæist bera merkið. Síðar var þessu breytt í að hjúkrunarfræðingar mættu bera næluna við vinnu.
Lögð voru drög að vinnu við endurskoðun á merki félagsins á aðalfundi Fíh 2008 en fram kom í greinagerð ári síðar að vinnan hafi verið lögð til hliðar vegna bankahrunsins þar sem það þótti ekki verjandi að kaupa hönnun fyrir nýtt merki og öllu sem því fylgir.