Fara á efnissvæði
Frétt

Breyting á úthlutunarreglum Styrktarsjóðs Fíh

Frá og með 1. mars 2024 verða sjúkradagpeningar greiddir að hámarki í fjóra mánuði í stað sex mánaða áður. Fjárhæðir styrkja sjóðsins eru óbreyttar frá fyrra ári.

Síðustu ár hefur orðið gríðarleg aukning á langvarandi veikindum hjúkrunarfræðinga. Það staðfesta tölur frá Styrktarsjóði félagsins en eins og sjá má á línuritinu hér fyrir neðan hafa greiðslur úr sjóðnum vegna sjúkradagpeninga fjórfaldast á síðustu sex árum.

Þróun sjúkradagpeninga Styrktarsjóðs Fíh 2017-2023, mánaðarlegar greiðslur.

Aukning á greiðslum sjúkradagpeninga hefur haft mjög mikil áhrif á fjárhagsstöðu Styrktarsjóðs og nú er svo komið að eigið fé hans er neikvætt um tugi milljóna króna. Vegna þeirrar stöðu og þess að horfur gera ráð fyrir áframhaldandi halla hafa verið gerðar breytingar á úthlutunarreglum sjóðsins á þá leið að sjúkradagpeningar verða greiddir að hámarki í fjóra mánuði í stað sex mánaða áður. Breytingin tekur gildi frá og með 1. mars 2024 og á við um umsóknir sem berast frá þeim tíma. Fjárhæðir styrkja sjóðsins eru óbreyttar frá fyrra ári.

Þetta er sambærileg þróun og hefur verið hjá öðrum stéttarfélögum en þar hefur veikindatíðni vegna langvarandi veikinda aukist verulega, sérstaklega hjá starfsfólki hins opinbera. Erfitt er að segja til um hvað valdi aukinni aðsókn í sjóðinn en ástæðurnar án efa margþættar. Má til að mynda nefna skort á hjúkrunarfræðingum til starfa en það hefur skapað áralangt aukið álag á þá sem fyrir eru í vinnu, nýafstaðinn heimsfaraldur og mikil krafa um yfirvinnu.