Fara á efnissvæði
Viðtal

Deildarforseti hjúkrunarfræðideildar og brautryðjandi í náminu sem hún stýrir í dag

Fortunate Atwine er doktor í hjúkrun og deildarforseti hjúkrunarfræðideildar Mbarara University of Science and Technology (MUST) í Úganda. Hún hefur átt viðburðaríka ævi, lifað tímana tvenna og hefur einstaka sýn á samfélag sitt og nærumhvefi.

Viðtal: Kristín Inga Viðarsdóttir | Myndir: Úr einkasafni

Dr. Atwine og Brynja Ingadóttir, sérfræðingur á Landspítala og dósent í hjúkrun við Háskóla Íslands, hafa undanfarin ár verið í forsvari fyrir samstarfsverkefni skólanna, sem er styrkt af Erasmus, og miðar að því að vinna saman að kennslu og deila reynslu milli skólanna og þessara ólíku landa í norðri og suðri. Ég hitti dr. Fortunate á Landspítalanum á köldum og vindasömum eftirmiðdegi í maí þegar hún var stödd hér á landi í sinni annarri heimsókn. Þessi glaðværa og vinalega kona lét veðrið á Íslandi ekki hafa nein áhrif á sig og við áttum gott spjall um nám hennar, starf og samstarfið við Ísland. Ég byrjaði á að spyrja hana út í uppruna hennar og bakgrunn.

„Ég kem frá Suð-vestur Úganda, frá Ankole. Ég er annað barn foreldra minna, önnur stelpan, og við urðum margar stelpurnar. Faðir minn tók sér svo aðra konu vegna samfélagslegs þrýstings, í okkar menningu þótti það eðlilegt, ekki síst vegna allra þessara dætra. En pabbi vissi að stelpum myndi vegna betur ef þær hlytu menntun. Þess vegna gekk hann á móti siðvenjunni sem stóð í vegi fyrir menntun kvenna. Á þessum tíma var ekki auðvelt að mennta stúlkur, ég er fædd árið 1958. Svo ég var heppin, faðir minn stóð fast á sínu og ég fór í skóla.“

Er höfuð fjölskyldunnar og hefur átta börn á framfæri

Fortunate segist vera lánsöm, hún telur sig greinilega bera nafn með rentu. Í dag býr hún í borginni Mbarara, sem er í um 20 km fjarlægð frá æskuþorpinu. Hjá henni býr móðir hennar og eldri systir en að auki hefur Fortunate átta börn á framfæri sínu, fjórar stúlkur og fjóra drengi. Hún útskýrir að ekkert þeirra sé hennar líffræðilega afkvæmi en að fjölskyldan beri sameiginlega ábyrgð á börnum sem tengjast henni.

Ef foreldrarnir eru einhverra hluta vegna ekki til staðar taka þeir fjölskyldumeðlimir sem geta við þeim. „Í okkar kerfi sé ég um heimilið,“ segir hún og á þá við að hún sé höfuð fjölskyldunnar og eigandi hússins sem þau búa í, en systir hennar er hætt að vinna. Fortunate kostar þessi börn til náms því hún telur mikilvægt að þau mennti sig og segir mér hreykin að tvö elstu séu að fara í háskóla og miðjubörnin í framhaldsskóla. Hún segir að ef enginn í stórfjölskyldunni taki börnin að sér alist þau upp í fátækt og verði útsett fyrir sjúkdómum og alls kyns erfiðleikum en ef hlúð sé að þeim frá upphafi dafni þau og verði styrkur fyrir fjölskylduna.

Gekk berfætt marga kílómetra í skólann

Við ræðum stöðu kynjanna í Úganda og leggur Fortunate áherslu á að menntun sé besta leiðin til að losa konur úr vítahring fátæktar og erfiðra hjónabanda, en að því miður séu mjög margar konur ekki í sömu stöðu og hún hvað þetta varðar. Stúlka sem fæðist í fátækt sé líkleg til að giftast ung, eignast börn ung, og þessi hringrás haldi svo áfram kynslóð fram af kynslóð. Það sama megi segja um marga stráka og karla, lífið snúist fyrst og fremst um að hafa í sig og á og margir séu fastir í fátæktargildru. Í slíku umhverfi sé ekkert svigrúm til að mennta börn þar sem skólaganga er alfarið kostuð af fjölskyldunni. Það er ekki síst af þessum sökum sem hún leggur svo mikla áherslu á menntun barnanna sem hún ber ábyrgð á. „Við berum þau eins langt áleiðis og við getum,“ segir hún.

Fortunate er af Banyankole ættbálki og tungumál hennar er runyankole sem er eitt af bantu tungumálunum. Enskan tók síðan við þegar hún hóf skólagönguna en hún er opinbert mál Úganda. Þriðja tungumál hennar er er svo luganda, sem er eitt útbreiddasta tungumál landsins. Nú er þrýst á fólk að læra swahili og segir Fortunate það m.a. vera vegna hugsjónar um stofnun Austur-Afrísks ríkjabandalags þar sem swahili er útbreitt á svæðinu, til að mynda í nágrannaríkjunum Kenía og Tansaníu, en einnig til að yfirvinna enskuna sem sameinandi mál þvert á ættbálkamál. Hún efast þó um að það verði ofan á og tengir tregðuna við að læra swahili meðal annars við stríðsátök í gegnum tíðina en málið er ráðandi innan hersins. Forrunate vill helst ekki ræða stjórnmál, segist ekki vera pólitísk og teiknar upp þrjá hringi, hvern innan í öðrum. Innsta hringinn segir hún tákna það sem einstaklingurinn stýrir sjálfur, þann næsta það sem hann getur haft einhver áhrif á en þann ysta það sem er utan þess sem við getum haft í hendi okkar. Hún segist einbeita sér að því að hafa áhrif á nærsamfélag sitt og láti gott af sér leiða þar sem hún getur. Það gerir hún með stuðningi við börnin og aðra fjölskyldumeðlimi, kennslu og starfi sínu við háskólann og svo síðast en ekki síst með því að rækta landið, en fjölskyldan stundar matvælaframleiðslu og sjálfsþurftarbúskap.

Barnaskólinn sem Fortunate gekk í var rekinn af kaþólskum trúboðum í héraðinu og barnahópurinn þurfti að ganga langan veg. „Guð minn góður, það voru engir skólar nálægt okkur svo við þurftum að ganga fleiri, fleiri kílómetra. Við lögðum af stað klukkan fimm á morgnanna og kjóllinn minn varð gegndrepa af morgundögginni á leiðinni. Það voru engir vegir, bara slóðar, og yfir fjall að fara. Þetta var erfitt, við vorum berfætt og þetta gerði ég í sjö ár. Ég fór fyrst í skó þegar ég fór í framhaldsskóla, það var heimavistarskóli og þangað fór ég með rútu. Þar voru rafljós, klósett og annað sem ég hafði aldrei kynnst áður.“

Breytti öllu þegar hjúkrunarnámið fór á háskólastig

Fortunate segir að lífið hafi verið margbreytilegt og hún hafi þurft að aðlagast ýmsu í gegnum tíðina, en leggur áherslu á hve lánsöm hún hafi verið að fá ýmis tækifæri sem ekki öllum voru gefin. Það kom að því að foreldrar Fortunate gátu ekki lengur kostað hana til náms, enda voru eiginkonur föður hennar þá orðnar þrjár og börnin fjölmörg. Hún tók þá þann kost að fara í hjúkrunarnám í höfuðborginni Kampala, þar sem hún gat unnið með námi. Á þessum tíma var hjúkrunarnám starfsnám sem var ekki á háskólastigi. Aðspurð segist hún hafa valið hjúkrun því hún hafi litið upp til hjúkrunarkvenna í æsku sem sterkra kvenna en einnig hafi hún fetað í fótspor systur sinnar sem lærði til ljósmóður.

Talið berst að því hvernig þessar stéttir geti haft áhrif á og breytt samfélögum. „Í dag er hjúkrun eiginlega ný fagstétt í Úganda“, segir Fortunate. „Fyrst var námið diplómanám og það var litið niður á það innan heilbrigðisgeirans. Nú þegar námið hefur færst á háskólastig breytist allt, bæði orðræðan og vinnuaðferðirnar. Það er mikil breyting að eiga sér stað. Þegar námið var starfsnám var markmiðið að klára og fara að vinna, sem var auðvitað gott fyrir samfélagið. En þegar námið hefur færst á háskólastig er komin umgjörð. Nú vinnum við innan ramma á landsvísu sem hjálpar okkur að móta stefnuna. Nú höfum við áætlanagerð, mat og gagnrýna hugsun í öllu ferlinu. Fleira fólk menntar sig og sérhæfingin er að aukast.“ Dr. Fortunate leggur áherslu á að þessi nýi veruleiki skipti sköpum fyrir uppbyggingu heilbrigðiskerfisins í Úganda og þar með heilbrigði í samfélaginu.

„Sérhæfingunni fylgir svo aukin þekking og stefnumótun í öllum greinum. Það kemur að því, þegar aukinn fjöldi fólks menntar sig og starfar í heilbrigðiskerfinu, þegar umræðan þróast, rannsóknir eflast og starfsemin byggist í auknum mæli á rannsóknum, að hlutirnir breytast. Ef við byggjum ekki á gagnreyndum aðferðum getum við ekki breytt neinu, jafnvel þótt við hrópum af öllum lífs og sálarkröftum.“

Slysið sem breytti öllu

Sjálf hefur Fortunate sérhæft sig í meðhöndlun sykursýki en einnig eru smitsjúkdómavarnir henni hugleiknar, ekki síst innan sjúkrahúsa. Upphafið að þeim áhuga má rekja til hörmulegs slyss sem hún varð fyrir í Kampala. Það var árið 1986 þegar uppreisnarmenn börðust gegn herforingjastjórninni, sem loks var felld af stóli. Fortunate varð fyrir bensínsprengju og brenndist afar illa. „Ég var heppin að lifa af. Flestir héldu að ég myndi deyja en vonin dó aldrei þótt mér hafi liðið hræðilega illa. Ég hafði líka gott fólk í kringum mig sem hjálpaði mér og ég gat talað við. Ég var heppin að vera í hjúkrun og að skólinn skyldi vera tengdur sjúkrahúsi.“

Hún segir að mikið hafi vantað upp á hreinlæti á sjúkrahúsum á þessum tíma, kerfið hafi verið vanhæft og innviðir bágbornir vegna slæmrar stjórnunar og stjórnmálaástands, en einnig hafi þekkingu verið ábótavant. „Þess vegna fékk ég sýkingar. Ég fékk ekki rétta meðhöndlun. En ég var heppin því skólinn sendi mig að lokum til Kenía þar sem ég var í eitt ár í endurhæfingu, það bjargaði lífi mínu. Þegar ég kom til baka og tók aftur til við starfsnámið lagði ég ofuráherslu á hreinlæti og smitvarnir. Ég kom mér upp þrifaáráttu af því að ég hafði orðið fyrir þessari reynslu. Ég fékk mörg ör eftir allar sýkingarnar en ég hefði ekki þurft að fá svona slæm ör ef sárin hefðu gróið á réttan hátt.“

Hlaut styrk til að læra um smitsjúkdómavarnir

Það var áhugi Fortunate á smitvörnum sem gerði það að verkum að hún var valin til að fara í starfsnám til Þýskalands þar sem menntun hennar tók nýja stefnu sem átti eftir að breyta miklu í hennar lífi. Tveimur hjúkrunarnemum bauðst að fara til Stuttgart í tengslum við styrktarverkefni, annar átti að kynna sér smitvarnir á sjúkrahúsum og hinn skurðstofutækni. „Ég hafði aldrei látið mig dreyma um að fara til útlanda í nám, en ég var kölluð inn á skrifstofu og mér var tilkynnt að ég hafi hlotið styrk til að fara til Þýskalands að læra um smitsjúkdómavarnir. Auðvitað varð ég mjög spennt, ég vissi ekkert um þetta, ég var bara heppin. Og svo fór ég.“

Fortunate var í Þýskalandi árin 1992 og 1993 og segir það hafa breytt sér á ýmsan hátt. Viðbrigðin voru mikil fyrst en hún kunni vel við námið og fólkið, sem hún segir hafi flest tekið sér vel. „Vegna þess að ég var að læra um sjúkrahúshreinlæti vann ég með öllum starfsstéttum á spítalanum. Fólkinu í eldhúsinu, hreingerningafólkinu, öllu hjúkrunarfólkinu, háum sem lágum. Ég kynntist því mörgum og fékk alls konar spurningar, eins og: „Af hverju eruð þið svona fátæk þarna í Úganda? Er fátæktin vegna hitans, forðist þið að vinna útaf honum? Og: „Þegar þú ferð aftur heim til Úganda skaltu tala minna og vinna meira.“ Hún segist þó kunna að meta vinnusemi Þjóðverja og að dvölin í Þýskalandi hafi verið viss vendipunktur í hennar lífi. Hvað svo sem segja megi um fordómana og þau viðhorf sem hún mætti hafi hún farið heim með þann ásetning að leggja enn harðar að sér og það hafi hún gert.

Brautryðjandi og deildarforseti

Eftir heimkomuna vann hún á sjúkrahúsi í Kampala en fluttist svo nær heimahögunum árið 1998, til Mbarara, eftir að faðir hennar dó. „Hann dó í fanginu á okkur, á spítalanum þar sem ég vann.“ Hún segir ýmsar fjölskylduflækjur og mikla erfiðleika hafi komið upp eftir dauða hans sem áttu þátt í að hún flutti til Mbarara og tók til starfa á sjúkrahúsinu þar og varð um leið ábyrg fyrir fjölskyldunni. Árið 2002 var svo farið að bjóða upp á hjúkrunarnám á háskólastigi við MUST fyrir þau sem höfðu lokið starfsnámi og þá settist hún aftur á skólabekk. Hún var því einn af brautryðjendunum í náminu sem hún stýrir í dag, en hún varð deildarforseti hjúkrunarfræðideildar MUST árið 2017.

Færðu nemendum nýja þekkingu og breyttu viðhorfum

Leiðir Fortunate og Brynju Ingadóttur lágu fyrst saman þegar þær stunduðu báðar doktorsnám við Linköping háskóla í Svíþjóð. Fortunate bauðst að fara þangað á skólastyrk vegna samstarfs MUST og Linköping háskóla og enn og aftur talar hún um hvað hún hafi verið heppin að verða fyrir valinu, en hún hafði verið hvött til að halda áfram námi eftir að hún lauk grunnnámi, m.a. vegna þarfarinnar á að mennta framtíðarkennara fyrir MUST. Í Svíþjóð sérhæfði Fortunate sig í meðhöndlun krónískra sjúkdóma, með áherslu á sykursýki og hlaut doktorsgráðu í júní 2017. Síðan hefur hún leitt hjúkrunarfræðideild MUST og þar leggur hún áherslu á að þróa og bæta námið, m.a. í gegnum alþjóðlegt samstarf líkt og það sem þær Brynja leiða. Hún segist eiga erfitt með að lýsa því hvað slíkt samstarf sé mikilvægt, en orðar það á þá leið að við getum ekki staðið í stað þegar við deilum reynslu. Það hafi líka sýnt sig að heimsókn Brynju til Úganda 2019 og heimsókn þeirra Helgu Gottfreðsdóttur, ljósmóður á Landspítala og prófessors í ljósmóðurfræði við HÍ, í ár hafi ekki bara fært nemendum og kennurum nýja þekkingu heldur beinlínis breytt viðhorfum heima fyrir til deildarinnar og námsins, jafnvel innan háskólans.

Fortunate segir mér frá fyrstu kynnum þeirra Brynju. Hún segist hafa dregist að þessari opnu og hjartahlýju konu og þegar hún hafi sagt sér að hún kæmi frá Íslandi, eyju lengst norður í Atlantshafi, hafi spruttið upp í huga hennar slitrur úr ljóði frá barnaskólaárunum sem persónugerði Atlantshafið og sveipaði það ævintýraljóma. Úganda liggur hvergi að hafi og því tók þetta stóra úthaf sér bólfestu í huga barnsins og Fortunate var full eftirvæntingar þegar hún kom hingað til lands í fyrra og notaði fyrsta tækifæri til að fara niður á strönd til að snerta loksins þennan óstýriláta bernskuvin. Hún segir að tilfinningin hafi verið góð þótt sjórinn hafi verið kaldur og hlær dátt þegar hún talar um rokið og lætin í hafinu og segist aldrei hafa getað ímyndað sér svo úfnar og stórbrotnar öldur. „Hversu reitt getur eitt haf verið, þessu bjóst ég ekki við,“ segir hún og tekur bakföll af hlátri. Landslagið og veðurfarið hér er sennilega álíka framandi í hennar huga og það í Úganda fyrir fólk héðan úr norðrinu sem ekki hefur komið þangað. Það er hins vegar fyrst og fremst það sameiginlega sem lögð er áhersla á í samstarfsverkefni MUST og Háskóla Íslands, fyrrnefndu verkefni um kennslu í hjúkrun sem er styrkt af ERASMUS.

ERASMUS-verkefni sem skilar miklu

Verkefnið felur bæði í sér nemendaskipti og heimsóknir kennara milli skólanna. Fortunate segir það hafa skilað miklu nú þegar, í fyrra var Harriet Nabulo doktorsnemi í ljósmóðurfræðum hér í tvo mánuði og vann undir handleiðslu dr. Helgu Gottfreðsdóttur. Þetta segir Fortunate skipta miklu máli fyrir kennslu í ljósmóðurfræðum við MUST og þróun hennar til framtíðar, en skortur er á fagmenntuðu fólki þar. Eins og áður sagði fóru þær Brynja og Helga til Úganda fyrr á þessu ári þar sem þær komu að kennslu og námsmati og tóku þátt í málþingi. Þær kynntu sér starfsemi MUST og sjúkrahússins en einnig heilbrigðiskerfið og menntun heilbrigðisstarfsfólks almennt og heimsóttu heilsugæslustöðvar og skóla. Bæði grunn- og framhaldsmenntun hvílir á störfum hlöðnu starfsfólki deildar dr. Fortunate og vildu þær kynnast þessu unga kerfi vel. Það sama gerði Brynja í upphafi verkefnisins árið 2019. Fortunate tekur svo einnig þátt í kennslu hér og hefur kynnt sér starfsemi Landspítala og fleiri stofnanna í ferðum sínum hingað. Þegar ég spyr hana út í helstu áskoranirnar í heilbrigðiskerfinu heima fyrir nefnir hún skort á tækjum og ýmsum búnaði og einnig sé greiningarferli ábótavant. Eitt sé að kenna fræðin en síðan geti veruleikinn þegar út á sjúkrahúsin og heilsugæsluna er komið verið allt annar, bæði vegna skorts á búnaði og ýmsum ferlum. Ekki síst þess vegna hefur hún mikinn áhuga á starfi Landspítala sem háskólasjúkrahúss og samstarfi háskólans og spítalans, nokkuð sem hún segir að þörf sé á að auka heima í Mbarara. Hún vill auka tengslin milli akademísks náms og starfsnáms og leggur áherslu á hversu mikilvægt það sé að nemendur geti farið út á akurinn og komið svo aftur í skólann með reynsluna þaðan. Þessi gagnvirkni heillar hana og hana vill hún þróa heima fyrir. Samstarfið gengur því út á að deila reynslu og læra hvert af öðru, en einnig vinna þær Brynja saman að rannsóknarverkefni tengdu sjúklingum með langvinna sjúkdóma þar sem áhersla er lögð á sjálfsumönnun, lífsstíl og fyrirbyggjandi aðgerðir. Þetta verkefni tengir Fortunate svo við annað hugðarefni sitt, matvælaframleiðsluna sem fjölskyldan leggur stund á.

Ekkert velferðarkerfi og ekki eftirlaun

Eins og áður sagði býr Fortunate með móður sinni og systur. Barnaskarinn er svo ýmist heima eða í skólum, ekki öll búa í húsi þeirra mæðgna þótt þau séu á framfæri Fortunate. Fjölskyldan á jörð í gamla þorpinu sínu og aðra spildu hefur hún svo keypt síðar meir. Mér leikur forvitni á að heyra meira um ræktunina. „Þegar maður hefur fyrir börnum að sjá þarf maður að vera fyrirhyggjusamur. Við ræktum okkar eigin matjurtir og borðum að mestu leyti það sem við ræktum sjálf. Það þarf að borga fyrir menntun barnanna og þá ekki er mikið eftir til að kaupa mat. Þess vegna reynum við að rækta sem mest sjálf. Ég byrjaði snemma að leggja allt sem til féll til hliðar svo ég gæti keypt land. Sjáðu til, við erum ekki með velferðarkerfi. Þannig að ef maður byrjar ekki að plana snemma er maður í vondum málum þegar starfsferlinum lýkur. Í fyrsta lagi fáum við ekki eftirlaun. Í öðru lagi erum við ekki með sjúkratryggingar. Mér hélst ekki vel á peningum svo ég fór að kaupa land hvenær sem ég gat.“

Fortunate segir landið ekki vera stórt en spildan nægi þó til ræktunar fyrir fjölskylduna. Systir hennar hefur sinnt þessum sjálfsþurftarbúskap eftir að hún hætti ljósmóðurstörfum en fjölskyldan er líka með fólk í vinnu á landi sínu í æskuþorpinu. Þangað er ekki alltaf fært, brýr bresta til að mynda stundum, og fjölskyldan á ekki bíl. Hún segir það vera draum sinn að auka ræktunina þegar hún hætti kennslu og allra helst myndi hún vilja geta tengt framleiðsluna því verkefni sem hún brennur fyrir og snýst um sjálfsumönnun sykursýkissjúklinga og fólks með aðra langvinna sjúkdóma.

Hana langar til að fræða samfélagið um mátt fyrirbyggjandi lífsstíls og leggja sitt lóð þar á vogarskálarnar. Bæði sem matvælabóndi og hjúkrunarfræðingur. Þetta segir hún vera sinn framtíðardraum, en áskorunin felst líka í því að bæta skilyrði fyrir ræktunina, sem snýst ekki síst um vatn eða öllu heldur skort á því. Fortunate talar um hnattræna hlýnun og segir að þau finni nú þegar fyrir loftlagsbreytingum. Þurrkatíminn hafi lengst og það sé mikil þörf á að næra jarðveginn og bæta áveitukerfið. Nái þau ekki að gera það sé borin von að rækta meira en hún er þó vongóð og segist alls ekki ætla að gefast upp. Það er því morgunljóst að þessi kraftmikla kona er hvergi nærri hætt að láta gott af sér leiða þótt hún sé farin að nálgast hefðbundinn eftirlaunaaldur hér á okkar norðlægu slóðum. Það má kannski líka segja að það sé einfaldlega ekki í boði að leggja hendur í skaut í hennar veruleika.

Við gætum talað mun lengur en látum hér staðar numið eftir stuttar umræður um stöðu HIV sem hún segir hafa batnað. Einnig sé berklaveiki haldið betur í skefjum og þakkar hún hvorutveggja alþjóðlegu samstarfi, sem hún vonar að haldi áfram að dafna. Það var svo bara nokkrum dögum eftir viðtalið sem skelfilegar fréttir bárust af enn versnandi stöðu samkynhneigðra í Úganda. Að viðtalinu loknu röltum við saman út í svalt síðdegið og ég smelli af henni mynd. Svo kveð ég dr. Fortunate Atwine, full aðdáunar á öllu því sem hún hefur áorkað, hugsjónum hennar, æðruleysi og atorku. Hún ætti svo sannarlega að tala sem mest um sín góðu verk og jafnvel grunar mig að hún mætti líka stundum alveg hvíla sig aðeins meira.