Fara á efnissvæði
Skýrsla

Efling heilsugæslunnar

Skýrsla Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga frá árinu 2014 með tillögum um eflingu heilsugæslunnar.

Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga (FÍH) vill með þessari skýrslu benda á þau atriði sem það telur mikilvægast að tekið verði á til að efla heilsugæsluna og gera hana að fyrsta viðkomustað innan heilbrigðiskerfisins. Skýrsluna unnu, fyrir hönd FÍH, Aðalbjörg J. Finnbogadóttir, sviðstjóri fagsviðs FÍH og Helga Sæunn Sveinbjörnsdóttir, formaður fagdeildar heilsugæsluhjúkrunarfræðinga FÍH.

FÍH telur að auka þurfi hlut heilsugæslunnar í heilbrigðisþjónustu á Íslandi og gera þar með þjónustuna bæði skilvirkari og hagkvæmari. Til að svo megi verða þarf að bæta aðgengi almennings að heilsugæslu og veita þar meiri og markvissari þjónustu. Jafnframt er brýnt að nýta vel þekkingu og færni mannaflans sem þar er. Hjúkrunarfræðingar hafa verið í forystu frá upphafi í heilsuvernd og frumheilsugæslu og gegna meginhlutverki á þeim vettvangi um heim allan. Þekking hjúkrunarfræðinga og nálægð þeirra við almenning er grundvöllur markvissra forvarna og heilsueflingar. Sérhæfð þekking hjúkrunarfræðinga hefur aukist mjög í takt við þróun þekkingar í hjúkrunar- og heilbrigðisvísindum. Sjálfstæð þjónusta hjúkrunarfræðinga hefur vaxið og er árangur hennar ótvíræður, bæði hvað varðar gæði þjónustunnar og hagkvæmni reksturs. Brýnt er að sinna betur þörfum skjólstæðinganna og nýta betur samskiptatækni, svo sem síma og vefmiðla, sem eru hagkvæmar og árangursríkar leiðir til að styðja sjálfshjálp einstaklinga og getu til sjálfstæðs lífs á eigin heimili. Þannig má draga úr þörf á dýrum úrræðum.

Fagdeild heilsugæsluhjúkrunarfræðinga og Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga leggja til að stofnaður verði starfshópur á vegum ráðherra til að vinna nánar að þessum tillögum um endurskoðun heilsugæslunnar og lýsa sig jafnframt fús til þátttöku í slíkum hóp.