Eysteinn Orri Gunnarsson, prestur á Landspítala, hefur starfað á spítalanum í tæpan áratug og hefur einstaka sýn á starfsemina.
„Maður fær að sjá allan spítalann í þessu starfi. Þegar maður gengur vaktina sína, eins og í dag þá er ég á vakt, þá er allur spítalinn undir. Ég fæ þar af leiðandi að kynnast alveg gríðarlegum fjölda af fólki, það er ekkert nema lúxus,“ segir hann.
Eysteinn Orri þekkir vel til mismunandi menningar á deildum spítalans. „Hún er mismunandi. Sumir einstaklingar fúnkera betur í ákveðnu menningarumhverfi, það á við okkur öll. Það kannski tekur tvær, þrjár deildir að finna það. Það er innri hreyfing innan spítalans, fólk að leita að því sem hentar. Ég tel að innri hreyfing eigi að ganga mjög smurt, ekkert hik þar. Þannig finnur fólk fjölina sína.“
Sjúkrahúsprestur stígur inn í margs konar aðstæður, með sjúklingum, aðstandendum og starfsfólki. Engin trúarleg fyrirstaða er fyrir því að tala við prest. „Sálgæsla er sérkennilegt fyrirbæri. Fólk vill tala um óttann sinn. Það vill tala við einhvern, annað hvort prest eða djákna, af því að þau vilja það. En blessaður vertu, það má tala um geimverur mín vegna, ég get talað um það. Það er engin forsenda fyrir sambandi mín og sjúklings. Núll.“
Þar spila hjúkrunarfræðingar stórt hlutverk, er þá búið að útskýra fyrir sjúklingum hlutverk prestsins. „Ég kem ekki inn í hempu með risa kross að blessa liðið. Nei nei. Ég er aldrei merktur sem prestur nema bara á nafnskírteininu mínu. Ég er þarna til að sinna sálgæslu. Þannig á það að vera.“
Eysteinn Orri rifjar upp eitt erfiðasta atvik sem hann hefur lent í á sínum ferli. „Það var ung stelpa sem tekur sitt eigið líf. Fjórtán ára gömul. Ég var búinn að vera í vinnu í svona korter, eðlilega tók þetta gríðarlega á mig. Mér fannst þetta svo skelfilegt, finnst það ennþá, hugsa oft til hennar. Það reyndi á alla þarna,“ segir Eysteinn. „Þetta var svo gríðarlega sárt. Svo sér maður líka svo ótrúlega fegurð. Hún er uppi á gjörgæslu. Móðir leggst hjá barninu sínu og þá tekur hún síðasta andardráttinn sinn, barn, 14 ára gömul. Ég hef varla séð fallegri atburð, eins og hann var sár og vondur í hundraðasta veldi.“
Eysteinn Orri sá svo um jarðarförina og mörgum árum síðar gifti hann móður og föður stúlkunnar. „Það er eitt af þessu sem maður fær, þessi djúpa tenging sem er ekki hægt að ná á annan hátt. Þessi unga dama sem fór frá okkur er líklega eitt af stærstu lærdómsferlum ævi minnar.“