Starfshópi heilbrigðisráðherra hefur verið falið að innleiða verklag um mönnunarviðmið í hjúkrun á bráðalegudeildum Landspítala og Sjúkrahússins á Akureyri. Þetta er jákvætt skref í samræmi við kjarasamning Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga við ríkið sem undirritaður var í nóvember í fyrra. Fíh lagði mikla áherslu á að mönnunarviðmið yrðu hluti af kjarasamningnum eins og fram kemur í bókun 15.
Í tilkynningu frá heilbrigðisráðuneytinu segir að hópnum sé meðal annars ætlað að kostnaðargreina viðmiðin, skilgreina mælikvarða mönnunar, og hvernig skuli bregðast við ónógri mönnun.
Guðlaug Rakel Guðjónsdóttir, forstjóri Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja, er formaður starfshópsins. Vinna hópsins byggir meðal annars á niðurstöðum starfshóps sem Guðlaug Rakel fór einnig fyrir og var að mestu skipaður sömu fulltrúum.
Hérlendis gildir almennt að heilbrigðisstofnanir setja sjálfar mönnunarviðmið út frá umfangi starfseminnar og fjárhagsramma. Eins og bent er á í skýrslu fyrri vinnuhóps sem skilaði niðurstöðum sínum í á liðnu ári er það ekki nóg því „áreiðanlegar mælingar á hjúkrunarþörf sjúklinga eru nauðsynlegar þegar kemur að því að áætla mönnun, skipuleggja þjónustu, tryggja gæði hennar og öryggi sjúklinga“ eins og segir í skýrslunni.
Gert er ráð fyrir að starfshópurinn ljúki þeirri vinnu í október næstkomandi með tillögum til heilbrigðisráðherra. Í framhaldi af því er hópnum ætlað að skoða hvaða mælitæki á hjúkrunarþyngd henti best á sjúkradeildum heilbrigðisstofnana. Við þá vinnu munu starfa með hópnum fulltrúar frá þeirri heilbrigðisstofnun sem er til skoðunar hverju sinni. Gert er ráð fyrir að þeirri vinnu ljúki eigi síðar en 1. apríl 2026.