Fara á efnissvæði
Frétt

Ferðatíma í vinnu skal greiða sem vinnutíma

Niðurstaða dómsins þýðir í raun að starfsfólk sem ferðast á vegum vinnu sinnar og er lengur á ferðalagi til áfangastaðar heldur en dagleg vinnuskylda þeirra segir til um, ætti að fá greidda yfirvinnu fyrir þann tíma sem fer umfram þeirra vinnuskyldu.

Landsréttur hefur komist að þeirri niðurstöðu að ferðatími starfsmanns á vegum vinnu sinnar til annars áfangastaðar en sinnar venjulegu starfsstöðvar, teljist til vinnutíma. Er þetta sama niðurstaða og í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur.

Þetta mál telst fordæmisgefandi fyrir allan vinnumarkað, þar á meðal hjúkrunarfræðinga, en hafa þarf í huga að íslenska ríkið gæti sótt um áfrýjunarleyfi til Hæstaréttar og því er óvíst hvort niðurstaðan sé endanleg.

Í málinu hafði flugvirki hjá Samgöngustofu stefnt íslenska ríkinu og sett fram þessa viðurkenningarkröfu. Þannig fór viðkomandi fram á að sá tími frá því hann yfirgaf heimili sitt og þar til hann komst á áfangastað erlendis, og öfugt, væri vinnutími sem ætti að greiða fyrir. Fyrir héraðsdómi hafði dómstóllinn leitað ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins sem taldi þá vinnutímatilskipun sem hefur verið innleidd hér á landi og lögfest með vinnuverndarlögunum tryggja þennan rétt. Héraðsdómur hafði því komist að þeirri niðurstöðu að ferðatími starfsmanns á vegum vinnu sinnar til annars áfangastaðar en hefðbundinnar starfsstöðvar teljist vera vinnutími hans og staðfesti Landsréttur þá niðurstöðu.

Í tilfelli starfsmannsins sem um ræðir voru ákvæði í kjarasamningi hans sem fólu í sér ákveðnar álagsgreiðslur vegna ferðalags á vegum vinnu og slík ákvæði má finna í mörgum kjarasamningum en þar sem þau ákvæði fólu í sér lakari rétt heldur en lög tryggja voru þau ekki talin geta gilt gagnvart starfsmanninum.

Niðurstaðan þýðir í raun að starfsfólk sem ferðast á vegum vinnu sinnar og er lengur á ferðalagi til áfangastaðar heldur en dagleg vinnuskylda þeirra segir til um, ætti að fá greidda yfirvinnu fyrir þann tíma sem fer umfram þeirra vinnuskyldu.