Fara á efnissvæði
Frétt

Formannskjör 2025

Er röðin komin að þér? Framboðsfrestur er til og með 31. janúar 2025.

Kjörnefnd Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga auglýsir eftir framboðum til formanns félagsins. Framboðsfrestur er til og með 31. janúar 2025.

Í febrúarmánuði mun Fíh standa fyrir kynningum á frambjóðendum. Ef um er að ræða eitt framboð telst viðkomandi frambjóðandi sjálfkjörinn.

Ef um er að ræða fleiri framboð verður formaður kjörinn í allsherjaratkvæðagreiðslu sem hefst föstudaginn 28. febrúar og lýkur þriðjudaginn 4. mars.

Kjörtímabil formanns er fjögur ár og má hann að hámarki sitja tvö kjörtímabil.

Starf formanns Fíh er fullt starf og ber formaður ábyrgð á rekstri félagsins og stjórn. Formaður er talsmaður félagsins á öllum stigum stjórnsýslunnar og í málefnum er varða hjúkrunarfræðinga og heilbrigðisþjónustuna í landinu. Hann stendur vörð um sjálfstæði, réttindi, stefnu og kjör hjúkrunarfræðinga ásamt því að efla þróun hjúkrunar, þekkingu og hæfni þeirra.

Félagsfólk með fulla aðild að Fíh getur boðið sig fram í embætti formanns en fulla aðild hefur hjúkrunarfræðingur sem greiðir félagsgjöld til Fíh samkvæmt 2. kafla, 3. gr. 3. mgr. laga Fíh. Formannskjör fer fram samkvæmt 10. grein laga Fíh.

Þeir hjúkrunarfræðingar sem hafa hug á að bjóða sig fram til formanns félagsins þurfa að skila til kjörnefndar skriflegu framboði ásamt 29 meðmælum, eða 0,6% félagsfólks, Fíh á netfangið [email protected].

Hægt er að skila inn meðmælum með rafrænum undirskriftum, þá þarf frambjóðandi að fylla út nafn og kennitölu, prenta út skjalið og undirrita með penna, og skanna það inn áður en það er sent til rafrænnar undirritunar.

Hjúkrunarfræðingar sem eru skráðir í Fíh hafa atkvæðisrétt í formannskosningum. Atkvæðagreiðslan verður rafræn og kjörseðill aðgengilegur í gegnum Mínar síður.

Ef einn frambjóðandi nær ekki meira en 50% atkvæða þá verður farið í aðra umferð kosninga milli þeirra tveggja sem hljóta flest atkvæði.

Niðurstöður munu liggja fyrir í síðasta lagi 19. mars. Nýr formaður tekur svo formlega við á aðalfundi Fíh fimmtudaginn 15. maí.

Nánari upplýsingar um formannskjör má finna í 10. gr. laga Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga, smelltu hér til að skoða lög félagsins: