Mikilvægt er að allir sem að heilbrigðismálum koma leggist á eitt um að efla og bæta geðheilbrigðisþjónustu í landinu. Eitt af hlutverkum Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga (Fíh) er að hafa frumkvæði að og taka þátt í umræðu um heilbrigðismál með hagsmuni skjólstæðinga heilbrigðisþjónustunnar að leiðarljósi. Í gegnum tíðina hefur Fíh komið fram með ýmsar tillögur til úrbóta varðandi geðheilbrigðisþjónustuna m.a. á formi umsagna um þingsályktunartillögur og breytinga á lögum. ( Fylgirit A)
Tilgangur þessarar skýrslu er að kynna mögulegt framlag geðhjúkrunarfræðinga og geðhjúkrunar til eflingar geðheilbrigðisþjónustu hér á landi. Til að þjónusta við einstaklinga með geðræn vandamál verði einstaklingsmiðuð, heildræn og örugg þarf að vera til staðar þekking og færni í geðhjúkrun auk viðeigandi mönnunar geðhjúkrunarfræðinga og annars fagfólks.

Geðhjúkrun: Framlag hjúkrunarfræðinga til eflingar geðheilbrigðisþjónustu á landinu
Skýrsla unnin af fagsviði og fagdeild geðhjúkrunarfræðinga Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga frá árinu 2017 í tengslum við stefnu og aðgerðaráætlun velferðarráðuneytis í geðheilbrigðismálum til fjögurra ára.