Fara á efnissvæði
Frétt

Guðrún Jóna hlaut hvatningarstyrk

Guðrún Jóna Guðlaugsdóttir er hjúkrunarfræðingur sem hefur verið öflugur talsmaður sjálfsvígsforvarna. Hún meðal þeirra sem hlaut hvatningarstyrk Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga í ár.

Guðrún Jóna Guðlaugsdóttir er hjúkrunarfræðingur sem hefur verið öflugur talsmaður sjálfsvígsforvarna. Hún hefur langa reynslu af því að stýra verkefnum bæði hjá stofnunum og fyrirtækjum. Hún vinnur nú sem verkefnastjóri sjálfsvígsforvarna hjá Embætti Landlæknis. Guðrún Jóna missti son í sjálfsvígi árið 2010. Hún hefur í mörg ár unnið í gegnum félagasamtök að forvörnum sjálfsvíga og stuðningi við aðstandendur sem misst hafa nákominn í sjálfsvígi. Árið 2011 kom hún að stofnun Minningarsjóðs Orra Ómarssonar og kostaði sá styrktarsjóður þýðingu bókarinnar Þrá eftir frelsi sem ætluð er fyrir aðstandendur sem missa í sjálfsvígi. Hún er fagstjóri Sorgarmiðstöðvar, var varamaður í stjórn Sorgarmiðstöðvar við stofnun hennar og formaður stjórnar 2020-2021.

Fimm hjúkrunarfræðingar, þar á meðal Guðrún Jóna, hlutu hvatningarstyrk á aðalfundi Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga 2023 sem haldinn var í Hörpu.

Frá afhendingu hvatningarstyrkja Fíh í Hörpu.

Markmið hvatningarstyrkja er að styðja við hjúkrunarfræðinga sem hafa á einhvern hátt skarað fram úr á sínu sviði. Viðurkenningin byggir á gildum Fíh, ábyrgð, áræðni, árangur og horft skal til þátta sem lúta að klínískri færni, stjórnun, kennslu, rannsóknum og nýsköpun í hjúkrun.

Styrknum er ætlað að styðja hjúkrunarfræðinga til að afla sér frekari þekkingar og/eða þjálfunar sem nýtist þeim til að þróa enn frekar sín verkefni sem tengjast hjúkrun og þeir eru í forsvari fyrir eða leiða. Þessir hvatningarstyrkir eru veittir einstaklingum en ekki fyrir verkefni eða rannsóknir sem eru fjármagnaðar að fullu eða hluta annarstaðar.