Hjúkrunarfræðingar í Svíþjóð hefja í dag, þriðjudaginn 4. júní, verkfallsaðgerðir sem ná til háskólasjúkrahúsa í fimm héruðum í landinu. Í apríl hófu hjúkrunarfræðingar aðgerðir með yfirvinnu- og ráðningabanni. Kröfur hjúkrunarfræðinga snúa að bættum vinnutíma, sjálfbærum kjörum í fullu starfi og nýju starfsmati.
Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga lýsir yfir fullum stuðningi við aðgerðirnar.
Verkfallsaðgerðirnar ná til Stokkhólms, Austur-Gautlands, Vestur-Gautlands, Skánar og Vesturbotns. Ná aðgerðirnar til stórra vinnustaða á borð við Sahlgrenska, Karolinska, Södersjukhuset, Danderyds, Norrland, Scania og Linköping.
Kjaraviðræður Vårdförbundet við SRK/Sobona, Samtök héraðs- og sveitarfélaga, hafa strandað á kröfum um styttri vinnutíma í ljósi þess hve margt heilbrigðisstarfsfólk hefur þurft að fara í veikindaleyfi eða minnkað við sig vinnu. Snýr krafan um 75 mínútur á viku eða 15 mínútur á dag í styttri vinnutíma sem fyrsta skref, slík ákvæði eru þegar til staðar í samningum Vårdförbundet á almennum vinnumarkaði í Svíþjóð.
Mikill stuðningur er við aðgerðirnar af hálfu almennings í Svíþjóð, samkvæmt könnun Novus styðja 7 af hverjum 10 Svíum styttri vinnutíma fyrir heilbrigðisstarfsfólk.
„Við vildum alls ekki fara þessa leið,“ segir Sineva Ribeiro, hjúkrunarfræðingur og formaður Vårdförbundet í tilkynningu. „Við höfum reynt í hálft ár að sannfæra SRK en það er ekki vilji til að stytta vinnudaginn um korter, það er meiri vilji til þess að við grípum til verkfallsaðgerða. Það veldur mér vonbrigðum en ég stend keik. Við þurfum styttingu vinnutíma og það er breiður stuðningur fyrir því í samfélaginu.“
Sineva segir að hjúkrunarfræðingum beri að hugsa um þarfir sinna skjólstæðinga. „Við berum hins vegar ekki ábyrgð á vandamálum heilbrigðiskerfisins. Það er á ábyrgð stjórnmálamannanna og stjórnenda sjúkrahúsanna.“
Hjúkrunarfræðingar í Noregi taka þátt í aðgerðum þar í landi
Félag norskra hjúkrunarfræðinga er hluti af Unio, samtökum háskólamenntaðs starfsfólks í Noregi. Unio stendur nú í verkfallsaðgerðum til að knýja á um betri kjör á opinberum vinnumarkaði. Þar hafa kjaraviðræður strandað á kröfum um betri kjör í samræmi við menntun, tilboð hins opinbera minnkar launamun á milli þeirra sem hafa lokið háskólamenntun og þeirra sem eru með framhaldsskólamenntun.