Texti: Sigríður Elín Ásmundsdóttir | Myndir: Sigríður Elín Ásmundsdóttir og úr einkasafni
Drífa Leonsdóttir, hefur starfað sem hjúkrunarfræðingur á flestum Norðurlöndunum; í Danmörku, Færeyjum, Noregi og hér á Íslandi. Þegar blaðamaður heyrði í henni var hún stödd í Noregi og nýkomin af vakt. Drífa ætlaði upphaflega í læknisfræði, fór samt í hjúkrunarfræði og svo mörgum árum seinna í læknisfræði. Örlögin gripu í taumana, hún náði ekki að klára námið en heillaðist af barnahjúkrun. Drífa hafði ekki starfað á Íslandi í yfir tuttugu ár þegar hún kom hingað til lands í sumar og vann á barnadeildinni. Það varð til þess að nú kemur hún reglulega hingað frá Danmörku, þar sem hún býr, til að taka þar vinnutarnir; frábær samvinna á deildinni varð til þess að hún ætlar að vera með annan fótinn á Íslandi.
„Ég fæddist í Reykjavík 1962, móðir mín gat ekki hugsað sér að setja mig á dagheimili og ákvað því þegar ég var nokkurra vikna að flytja með mig heim til foreldra sinna á Ísafirði. Mamma var alla tíð einstæð móðir en pabbi sem var giftur annarri konu fórst við köfun þegar ég var 11 ára. Þetta var flókið fyrir mömmu því á þessum árum fylgdi því mikil skömm að eiga lausaleiksbarn. Það hefur sem betur fer orðið algjör kúvending í viðhorfum síðan þetta var og í dag þykir ekki tiltökumál að vera einstæð móðir.“
Drífa segist hafa átt góða æsku á Ísafirði fyrstu tíu árin en árið 1972 breyttist lífið mikið. „Amma mín fékk krabbamein og lést stuttu eftir greiningu en allar mínar bestu æskuminningar tengjast ömmu. Hún passaði mig á meðan mamma var í vinnunni og þegar hún lést varð ég lyklabarn og lífið tók kúvendingu. Faðir minn lést svo tæpu ári seinna og eftir þessi stóru áföll fullorðnaðist ég hratt. Í mínum huga varð Ísafjörður grár eftir þetta og hefur verið það síðan. Ég tók stúdentspróf frá Menntaskólanum á Ísafirði og flutti svo til Reykjavíkur tvítug og hóf þá nám í hjúkrunarfræði.“
Lág laun halda fólki í ákveðnum farvegi
Aðspurð hvers vegna hún hafi valið að nema hjúkrun segir hún að það hafi aldrei staðið til, fyrr en á síðustu stundu: „Ég ætlaði mér alltaf í læknisfræði en tilvonandi eiginmaður minn taldi mig ofan af því, hann sagði mér að ég væri ekki nógu klár. Unga konan sem var brotin á sálinni eftir einelti í mörg ár trúði honum og ákvað þess vegna að skrá sig í hjúkrun. Ég hafði unnið á Sjúkrahúsinu á Ísafirði þrjú sumur þar sem ég var gangastúlka og mér líkaði það vel. Sjúkdómafræði heillaði mig og líka mannlegi þátturinn við starfið; samskipti við sjúklinga og samvinna milli heilbrigðisstétta. Það kom aldrei til greina að fara í Hjúkrunarskólann því að í háskóla ætlaði ég mér þar sem ég gæti fengið að grúska og blanda saman kenningum og klíník.“
Drífa segist hafa seinkað náminu um eitt ár vegna barneigna og útskrifaðist því vorið 1987. „Mér líkaði vel í hjúkrun en læknisfræðin blundaði samt alltaf í mér og þegar ég var 41 árs ákvað að láta reyna á þann gamla draum. Ég komst í fyrstu tilraun inn í læknisfræði í Háskólanum í Kaupmannahöfn en kláraði því miður ekki námið því ég vann mikið samhliða og svo skildum við hjónin og álagið var því mikið. Ég sé alltaf eftir því að hafa ekki klárað læknisfræðina en ég hafi ekki bolmagn til þess fjárhagslega. Það má segja að lág laun haldi fólki í ákveðnum farvegi og aðstæðum sem er ekki endilega sá sem það kýs sér; hvort sem það er hjónaband, starf eða annað,“ segir Drífa hugsi.
Varð ófrísk og missti vinnuna í Danmörku
Hvaða minning stendur upp úr frá námsárunum? „Án vafa verknámið í fæðingarhjúkrun hjá Ólöfu Ástu Ólafsdóttur og Mörgu Thome sem var ein af frumkvöðlunum í hjúkrun í Háskólanum. Þær gerðu verknámið áhugavert, fræðilegt og skemmtilegt. Ég hafði þá tekið kúrs sem hét vöxtur og þroski barna og unglinga, hjá Sigríði Halldórsdóttur og þar fékk ég áhuga á barnahjúkrun. Ég vann á sængurkvennagangi hjá Dóru Halldórsdóttur þegar ég var nemi og á Vökudeildinni eitt sumar eftir útskrift. Eftir það sumar flutti ég til Danmerkur þar sem fyrrverandi eiginmaður minn var að fara í nám. Ég var þá ófrísk að öðru barninu mínu og fór að vinna á vökudeild á Hvidovre, sem var frekar langt frá heimilinu mínu, sem var í Roskilde. Ég fór því að vinna á sjúkrahúsinu í Roskilde en fékk svo ekki þá framlengingu sem búið var að lofa mér vegna þess að ég var ófrísk. Ég var því atvinnulaus komin fjóra mánuði á leið. Á þessum tíma var ómögulegt fyrir ófrískan hjúkrunarfræðing að fá vinnu í Danmörku. Ég gat ekki hugsað mér að vinna þarna framar því viðhorfin og framkoma yfirmanns voru til skammar. Þetta varð til þess að við fluttum aftur til Íslands og ég fékk vinnu á sængurkvennagangi 22B.“
Drífa segist hafa seinkað náminu um eitt ár vegna barneigna og útskrifaðist því vorið 1987. „Mér líkaði vel í hjúkrun en læknisfræðin blundaði samt alltaf í mér og þegar ég var 41 árs ákvað að láta reyna á þann gamla draum. Ég komst í fyrstu tilraun inn í læknisfræði í Háskólanum í Kaupmannahöfn en kláraði því miður ekki námið því ég vann mikið samhliða og svo skildum við hjónin og álagið var því mikið. Ég sé alltaf eftir því að hafa ekki klárað læknisfræðina en ég hafi ekki bolmagn til þess fjárhagslega. Það má segja að lág laun haldi fólki í ákveðnum farvegi og aðstæðum sem er ekki endilega sá sem það kýs sér; hvort sem það er hjónaband, starf eða annað,“ segir Drífa hugsi.
Varð ófrísk og missti vinnuna í Danmörku
Hvaða minning stendur upp úr frá námsárunum? „Án vafa verknámið í fæðingarhjúkrun hjá Ólöfu Ástu Ólafsdóttur og Mörgu Thome sem var ein af frumkvöðlunum í hjúkrun í Háskólanum. Þær gerðu verknámið áhugavert, fræðilegt og skemmtilegt. Ég hafði þá tekið kúrs sem hét vöxtur og þroski barna og unglinga, hjá Sigríði Halldórsdóttur og þar fékk ég áhuga á barnahjúkrun. Ég vann á sængurkvennagangi hjá Dóru Halldórsdóttur þegar ég var nemi og á Vökudeildinni eitt sumar eftir útskrift. Eftir það sumar flutti ég til Danmerkur þar sem fyrrverandi eiginmaður minn var að fara í nám. Ég var þá ófrísk að öðru barninu mínu og fór að vinna á vökudeild á Hvidovre, sem var frekar langt frá heimilinu mínu, sem var í Roskilde. Ég fór því að vinna á sjúkrahúsinu í Roskilde en fékk svo ekki þá framlengingu sem búið var að lofa mér vegna þess að ég var ófrísk. Ég var því atvinnulaus komin fjóra mánuði á leið. Á þessum tíma var ómögulegt fyrir ófrískan hjúkrunarfræðing að fá vinnu í Danmörku. Ég gat ekki hugsað mér að vinna þarna framar því viðhorfin og framkoma yfirmanns voru til skammar. Þetta varð til þess að við fluttum aftur til Íslands og ég fékk vinnu á sængurkvennagangi 22B.“
Breytti öllu að eignast langveikt barn
Þriðja barn Drífu og eiginmanns hennar fæddist svo nokkrum mánuðum seinna. „Það var drengur og hann fæddist með hydronephrosis og hydroureter, báðum megin, sem er víkkun á þvagleiðurum og nýrum vegna þrengsla við þvagblöðruna,“ útskýrir hún og segir að lífið hafi þá aftur umturnast.
„María Hreinsdóttir, ljósmóðir á sónar, uppgötvaði gallann á 32. viku meðgöngunnar og henni á ég svo óendanlega mikið að þakka því þá var hægt að grípa strax í taumana þegar sonurinn fæddist. Hann þurfti að fara í margar aðgerðir og rannsóknir en ég var svo lánsöm að móðir mín bauðst til að hætta að vinna til að sinna barnabarninu og flutti þá frá Ísafirði. Þessi lífsreynsla gjörbreytti mínum viðhorfum til lífsins, ég varð miklu ákveðnari því ég varð að berjast fyrir hann. Hans veikindi leiddu svo til þess að ég og fleiri fórum í það koma Umhyggju, félagi langveikra barna, á koppinn. Ég er stolt af því, það er svo mikilvægt að foreldrar hafi stað höfði sínu að halla þegar börn þeirra greinast með langvarandi sjúkdóma. Barnahjúkrunin hefur alla tíð heillað mig og mér finnst allra best þegar góð samvinna er við foreldra og mitt hlutverk er að kenna eða aðstoða þá við að takast á við veikindi barnsins. Það kemur enginn í staðinn fyrir foreldra, mitt starf felur meðal annars í sér að kenna foreldrunum að hjúkra barninu sínu og aðlagast nýjum aðstæðum.“
París, Ísland, Danmörk
Eftir fæðingarorlofinu lauk árið 1991 var Drífu boðin staða aðstoðardeildarstjóri á hinum sængurkvennaganginum, 22A. „Þar lágu frekar veikar konur og konur sem áttu börn á Vökudeildinni. Eitt af verkefnum mínum þar var að koma því á að nýburar væru inni á stofum hjá mæðrum sínum á nóttunni og fengu þá frekar brjóstamjólk en þurrmjólk hjá fagfólki. Eftir tvö ár á 22A bauðst mér starf á barnadeildinni þegar ég var þar með syni mínum í innlögn. Ég hafði verið í vaktavinnu en þarna bauðst mér dagvinna og áhugi minn á barnahjúkrun jókst jafnt og þétt. Ég starfaði þarna í rúm tvö ár en þá fluttum við til Frakklands þar sem ég var heimavinnandi með fjögur börn á aldrinum 2-10 ára. Við vildum upplifa franska menningu og prófa eitthvað nýtt,“ segir hún brosandi og bætir við að þetta hafi verið góður tími.
„Okkur leið vel og börnin voru í breskum skóla þessi rúm þrjú ár sem við bjuggum í útjaðri Parísar. Árið 1999 fluttum við aftur til Íslands, ég fékk starf á dagdeild barna og varð svo aðstoðardeildarstjóri þar. Ekki löngu eftir að ég tók við þeirri stöðu vantaði deildarstjóra á barnaskurðdeildina. Ég var þráspurð hvort ég ætlaði ekki að sækja um og svaraði alltaf neitandi þangað til Guðmundur Bjarnason barnaskurðlæknir bað mig að sækja um. Hann hafði gert allar aðgerðirnar á syni mínum og var alltaf til staðar fyrir okkur í hans veikindum. Ég lét vaða og fékk stöðuna, þetta var gefandi starf og þverfaglega samvinnan á deildinni heillaði mig mikið. Gallinn var að ég þurfti líka að redda vöktum og sinna öðrum verkefnum sem mér þóttu minna áhugaverð.“
Eftir góðan tíma á barnaskurðdeildinni, eða árið 2001 flutti fjölskyldan svo til Danmerkur. „Mig hafði alltaf langað aftur þangað því ég kunni vel við lífið þar, þar fæddist svo fimmta barnið og þegar hann var árs gamall sótti ég um í læknisfræði og komst inn. Við hjónin skildum, eins og fyrr segir á þessum tíma, en þetta var árið 2006, og ég hætti í kjölfarið í náminu. Ég fór þá að starfa hjá fyrirtæki sem leigir út hjúkrunarfræðinga innan Danmerkur og vann mikið á bráðamóttökum og skurðdeildum. Ég valdi þessa leið vegna þess að þá var ég með um 40% hærri laun en ef ég hefði verið fastráðin á spítalanum. Ég gat auk þess unnið færri vaktir. En svo voru svona einkafyrirtæki bönnuð í Danmörku sökum mikils kostnaðar fyrir spítalana. Þá fór ég að vinna við afleysingar á Ríkisspítalanum í Kaupmannahöfn.“
Launin og starfsumhverfið betra í Noregi
Drífa hefur farið víða og starfað á mörgum deildum. „Ég hef unnið á öllum barnadeildunum á Ríkisspítalanum í Kaupmannahöfn og á fleiri en 25 deildum á spítalanum en aðallega á barnadeildum, sængurkvennadeild og skurðdeildum. Ég fæ aðeins hærri laun með þessu fyrirkomulagi en stærsti kosturinn er frjálsræðið; ég get ráðið því hvenær ég tek vaktir. Árið 2011 fór ég svo að fara til Noregs að vinna, oftast í 5-7 daga í einu en lengst hef ég verið tvær vikur í einu. Ástæðan fyrir því að ég tek vinnutarnir í Noregi eru launin, auk þess er starfsumhverfið þar miklu betra. Það eru til dæmis um helmingi fleiri hjúkrunarfræðingar á hverri vakt en í Danmörku sem gerir það að verkum að ég er ekki eins þreytt eftir hverja vakt. Mér finnst norskir hjúkrunarfræðingar vera betur menntaðir en danskir en á móti kemur að þeir vinna ekki eins mikið sjálfstætt. Ástæðan er einföld, í Noregi er miklu meira regluverk og mikil áhersla lögð á að gera ekki neitt sem starfsmaðurinn er ekki 100% öruggur um að kunna eða geta. Þetta er auðvitað mikið öryggi, sérstaklega þegar maður er að koma mikið á nýjar deildir til að vinna í skamman tíma.“
Danska heilbrigðiskerfið handónýtt
Drífa segir að Danir gætu lært ansi mikið af Íslendingum þegar kemur að heilbrigðismálum. „Danskir hjúkrunarfræðingar komast ekki með tærnar þar sem íslenskir hjúkrunarfræðingar hafa hælana. Mín upplifun er að heima á Íslandi séum við miklu betri í að vinna saman á deildum vegna þess að menntun hjúkrunarfræðinga og lækna er nær hvor annarri en í Danmörku. Íslendingar eiga í raun að forðast að taka upp sparnaðarósiðina sem Danir hafa tekið upp og ekki taka upp þetta vonlausa tilvísanakerfi og einnig að vera stoltir af menntun hjúkrunarfræðinga.“
Drífa hafði ekki starfað á Íslandi í rúma tvo áratugi þegar hún ákvað síðastliðið sumar að koma hingað og vinna á barnadeildinni þar sem hún starfaði mörgum árum áður. „Ég verð að segja að starfsumhverfið er miklu betra á barnadeildinni á Íslandi en í Danmörku. Það er búið að skera svo mikið niður í dönsku heilbrigðiskerfi, það má ekki ráða nægilegan fjölda starfsmanna, mönnunarstuðullinn er lágur í Danmörku og 90% af öllum vöktum eru undir öryggisviðmiðum. Það er svo lýjandi því maður getur ekki sinnt skjólstæðingum sínum nema að lágmarki, auk þess er starfsfólk á hlaupum allar vaktir. Ég hef verið á vakt á sængurkvennadeild þar sem við vorum tvær með 30 skjólstæðinga, hvorugar fastráðnar á deildinni, fyrir utan öll nýfæddu börnin sem þarna voru. Þetta voru veikar konur eða með veik börn. Þetta er afleiðing niðurskurðar sem nær langt út fyrir eðlileg mörk. Launin eru auk þess mjög léleg í Danmörku og mér finnst almennt verða lítil stéttarvitund meðal hjúkrunarfræðinga Í Danmörku, það er mín upplifun eftir að hafa starfað þar í mörg ár.“
Hún segir Danmörku þó hafa ýmislegt fram yfir Ísland og þá beri helst að nefna gott veður. „Mér líður best í 30 stiga hita, hef aldrei heillast af nepju og norðangarra. Þá er miklu meira úrval af góðum mat í Danmörku og fallegri hönnun og svo má ekki gleyma að það er bara hægt að setjast upp í lest eða bíl og skjótast til Svíþjóðar.“
Hrósar íslenska heilbrigðiskerfinu í hástert
Hvað hefur Ísland fram yfir Danmörku? „Þar búa gömlu vinirnir, sonur minn og stórfjölskyldan og heilbrigðiskerfið er ekki í molum eins og í Danmörku.
Tveir synir mínir hafa lent í hjólreiðaslysi, annar í Danmörku og hinn á Íslandi og okkar upplifun af heilbrigðiskerfinu var miklu betri á Íslandi. Upplýsingaflæðið, umhyggjan, fagmennskan á bæðibráðamóttökunni, gjörgæslunni og brjóstholsskurðdeildinni 12-G og svo mætti lengja telja. Sonurinn sem lenti í slysi í Danmörku var sendur í aðgerð ansi seint og sendur heim samdægurs með verkjalyf sem hann svo fékk enga aðstoð við til að trappa sig niður með. Ég vil því hrósa íslenska heilbrigðiskerfinu í hásterkt. Frábær þverfagleg samvinna og teymisvinna, frábærir læknar og hjúkrunarfræðingar og frábærir sjúkraliðar og allir að gera sitt besta í alls konar aðstæðum.“
Er á döfinni að flytja aftur til Íslands?
„Örverpið býr enn þá heima og þarf stundum á mömmu sinni að halda, en ég ætla vera í 50% vinnu á barnadeildinni á Íslandi ef ég mögulega get. Vandamálið er hins vegar að þetta er alveg óþekkt innan Landspítalans virðist vera. Ég kem þá til Íslands í níu daga í mánuði til að vinna. Með þessu fæ ég tækifæri til að vinna með íslensku fagfólki, mér fannst það svo gaman í sumar þegar kom og vil fá að vera hluti af þessari frábæru samvinnu sem ég upplifi svo sterkt á Íslandi. Ég verð því vonandi með annan fótinn á Íslandi og hinn heima í Danmörku.“