Fara á efnissvæði
Frétt

Helena hlaut hvatningarstyrk

Helena Bragadóttir er hjúkrunarfræðingur með meistaragráðu í geðhjúkrun og hefur helgað sína starfskrafta þeim sem glíma við fíknivanda og nú síðast föngum. Hún meðal þeirra sem hlaut hvatningarstyrk Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga í ár.

Helena er hjúkrunarfræðingur með meistaragráðu í geðhjúkrun og hefur helgað sína starfskrafta þeim sem glíma við fíknivanda og nú síðast föngum. Helena er einstakur fagmaður, hún nálgast sína skjólstæðinga af mikilli virðingu og fagmennsku. Hún hefur verið ötul í að vekja athygli á andlegri heilsu þeirra sem glíma við fíkn og sitja í fangelsum. Helena var ein af stofnendum Geðheilsuteymis fangelsa og er hún teymisstjóri í því teymi. Hún rannsakaði áhrif núvitundariðkunar á einstaklinga sem hafa glímt við, eða eru að glíma við áfengis- eða vímuefnafíkn. Hún er frumkvöðull í að nýta þekkingu eins og skaðaminnkun og núvitund fyrir fanga sem glíma við fíkn. Hún hefur í störfum sínum skarað fram úr er varðar ábyrgð, áræðni og árangur er lúta að klínískri færni, stjórnun og nýsköpun í hjúkrun.

Fimm hjúkrunarfræðingar, þar á meðal Helena, hlutu hvatningarstyrk á aðalfundi Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga 2023 sem haldinn var í Hörpu.

Frá afhendingu hvatningarstyrkja Fíh í Hörpu.

Markmið hvatningarstyrkja er að styðja við hjúkrunarfræðinga sem hafa á einhvern hátt skarað fram úr á sínu sviði. Viðurkenningin byggir á gildum Fíh, ábyrgð, áræðni, árangur og horft skal til þátta sem lúta að klínískri færni, stjórnun, kennslu, rannsóknum og nýsköpun í hjúkrun.

Styrknum er ætlað að styðja hjúkrunarfræðinga til að afla sér frekari þekkingar og/eða þjálfunar sem nýtist þeim til að þróa enn frekar sín verkefni sem tengjast hjúkrun og þeir eru í forsvari fyrir eða leiða. Þessir hvatningarstyrkir eru veittir einstaklingum en ekki fyrir verkefni eða rannsóknir sem eru fjármagnaðar að fullu eða hluta annarstaðar.