Fara á efnissvæði
Frétt

Helga Rósa Másdóttir

Helga Rósa er í framboði til formanns Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga. Kosningarnar hefjast föstudaginn 28. febrúar kl. 12:00 og lýkur þriðjudaginn 4. mars kl. 12:00.

Kæri hjúkrunarfræðingur

Ég heiti Helga Rósa Másdóttir og útskrifaðist sem hjúkrunarfræðingur frá Háskóla Íslands árið 2004 og lauk meistaragráðu í hjúkrun frá University of Toronto árið 2011.

Ég er uppalin á Seltjarnarnesi en bý nú í Garðabæ ásamt eiginmanni, 3 sonum og hundi.

Ferill

Þessi 20 ár sem ég hef starfað sem hjúkrunarfræðingur hafa verið bæði fjölbreytt og gefandi. Kynni mín af faginu hófust þó áður en ég útskrifaðist sjálf, þar sem móðir mín er hjúkrunarfræðingur og mín helsta fyrirmynd. Ég man vel þegar ég, 12 ára, ákvað að feta í fótspor hennar, ákvörðun sem ég hef ekki séð eftir.

Reynsla mín af hjúkrun er víðtæk. Á námsárum mínum kynntist ég hjúkrun á ólíkum vettvangi í gegnum störf samhliða námi. Á heilsugæslunni upplifði ég teymisvinnu og hlutverk hjúkrunarfræðinga þar. Ég vann með fólki sem glímdi við geðsjúkdóma og minnisskerðingu og lærði hversu mikilvæg samtal og nærvera eru í umönnun. Á skurðstofunni lifnaði líffærafræðin við, og þar gerði ég mér grein fyrir mikilvægi þess að hjúkrunarfræðingar séu málsvarar sjúklinga á þeirra varnarlausustu stundum.

Á bráðamóttöku fann ég hvar ég átti heima. Ég lærði að hlúa að fólki á verstu tímum þess og öðlaðist hæfni í verklegum þáttum hjúkrunar. Þetta kom sér vel þegar ég útskrifaðist og réði mig til starfa á Fjórðungssjúkrahúsinu í Neskaupstað. Þar lærði ég að treysta betur á eigin dómgreind og nýta þekkingu mína til fulls og var sú reynsla ómetanleg.

Eftir tvö ár í Neskaupstað sótti ég um starfaskipti til Indlands. Þar vann ég sumarlangt á heilsugæslu og sinnti fræðslu til íbúa í litlu þorpi um helgar. Þessi reynsla gaf mér dýpri skilning á fjölbreytileika heilbrigðiskerfa og hvað við höfum margt að þakka fyrir hér á Íslandi.

Að lokinni dvöl minni á Indlandi sneri ég aftur til starfa á bráðamóttökuna í Fossvogi, sem hefur verið minn helsti starfsvettvangur.

Árið 2011 hóf ég meistaranám í hjúkrunarfræði við University of Toronto og lauk þar klínísku meistaranámi með áherslu á innleiðingu gagnreyndrar þekkingar í klínísk störf.

Eftir útskrift frá Toronto starfaði ég áfram á bráðamóttökunni, sem aðstoðardeildarstjóri frá 2012 og deildarstjóri frá 2020-2023. Ábyrgðarhlutverkin þar voru umfangsmikil og fólu í sér rík mannaforráð, gæðastjórnun og fjármálarekstur. Verkefnin voru fjölbreytt, krefjandi, snúin og oft þung, en jafnframt skemmtileg og gerðu það að verkum að reynsla mín þaðan er bæði djúp og viðamikil.

Síðan 2023 hef ég starfað sem sviðstjóri fagsviðs hjá Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga, þar sem ég hef fengið tækifæri til að vinna að eflingu og framþróun hjúkrunar og hef notið þess mjög.

Ég er stolt af ferli mínum, sem sýnir hversu fjölbreytt og víðfemt hjúkrunarstarfið getur verið. Þessi reynsla hefur mótað mig og gert mig að þeim hjúkrunarfræðingi sem ég er í dag.

Áherslumál

Gildi Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga (Fíh) eru Ábyrgð – Áræði – Árangur og mun ég hafa þau að leiðarljósi í störfum mínum eins og nú.

Hjúkrunarfræðingar eru kjarninn í starfsemi Fíh. Ég vil eiga opið og uppbyggjandi samtal við hjúkrunarfræðinga þannig að sameiginlegur skilningur um markmið náist. Samstaða er mér mikilvæg því þegar hún er öflug erum við líklegri til árangurs.

Laun og kjör hjúkrunarfræðinga eiga að endurspegla ábyrgð, menntun, hæfni og reynslu þeirra. Það þarf að byggja á því jákvæða skrefi sem tekið var við síðustu kjarasamninga þar sem samið var um nýja launatöflu sem gerir samanburð við aðra háskólamenntaða sérfræðinga auðveldari. Brýnt er að halda þeirri vinnu áfram við stofnanasamninga til að mynda en þar liggja tækifæri til frekari kjarabóta og starfsþróunar hjúkrunarfræðinga.

Huga þarf sérstaklega að landsbyggðinni, þar sem starfsumhverfi og starfsþróun hjúkrunarfræðinga hafa ekki náð sömu viðmiðum og eru á stærstu stofnunum. Þetta á bæði við um möguleika á starfsþróun fyrir hjúkrunarfræðinga og skort á faglegum stuðningi og úrræðum vegna óvæntra atvika.

Starfsumhverfi hjúkrunarfræðinga er hagsmunamál sem verulega þarf að bæta eins og fram hefur komið í könnunum Fíh undanfarin ár. Áframhaldandi vinna við gerð mönnunarviðmiða var tryggð í síðustu kjarasamningum, sem er mikilvægt skref. Með skýrum mönnunarviðmiðum tryggjum við að skjólstæðingar okkar fái örugga hjúkrun og að hjúkrunarfræðingar nái að sinna þeim á þann hátt sem þeir telja þörf á.

Annað stórt hagsmunamál er vald og ábyrgð á klínískum ákvörðunum en lítið hefur þokast í færslu verkefna milli heilbrigðisstétta. Gerð var bókun samhliða síðasta kjarasamningi um víkkað starfssvið sérfræðinga í hjúkrun. Það verður skýlaus krafa mín að gera sérfræðingum í hjúkrun kleift að nýta faglega þekkingu sína að fullu og er það upptakturinn að frekari viðurkenningu á störfum hjúkrunarfræðinga. Hæfni og þekking hjúkrunarfræðinga er mikil og sýnt hefur verið fram á að víkkun á starfssviði hjúkrunarfræðinga er örugg, hagkvæm og skilar sér í aukinni ánægju sjúklinga með þjónustu heilbrigðiskerfisins.

Rannsóknir eru undirstaða vísinda, og hjúkrunarfræði sem vísindagrein byggir á þeim grunni. Ég mun tryggja að Fíh muni áfram styrkja rannsóknir í hjúkrun á Íslandi og styðja þannig við sívaxandi rannsókna- og vísindastarf í faginu.

Nauðsynlegt er að halda áfram samstarfi Fíh við HÍ og HA um fyrirkomulag hjúkrunarfræðináms, með það að markmiði að námið verði eftirsótt og hagnýtt.

Forysta hjúkrunarfræðinga er lykilatriði á öllum stjórnstigum heilbrigðiskerfisins. Sem stærsta heilbrigðisstéttin eru þeir málsvarar sjúklinga og hafa sérþekkingu á lýðheilsu og forvörnum, sem gerir þá hæfa til að móta stefnu í heilbrigðismálum. Til að efla hlut hjúkrunar í forystu tel ég brýnt að knýja á um stofnun embættis yfirhjúkrunarfræðings (Chief Government Nursing Officer) til að tryggja faglega framtíðarsýn og sjálfbæra þróun heilbrigðiskerfisins.

Fjölbreytni stuðlar að framþróun. Hjúkrun þarf að vera raunhæfur kostur fyrir alla, óháð kyni eða uppruna. Mikilvægt er að laða að fjölbreyttan hóp og tryggja að stéttin endurspegli skjólstæðinga sína. Sérstaklega þarf að styðja hjúkrunarfræðinga af erlendum uppruna, sem eru um 8% innan Fíh, með markvissri aðlögun og jöfnum tækifærum til starfsþróunar.

Ég býð mig fram til formanns Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga af heilum hug. Með víðtæka reynslu, hæfni og brennandi áhuga á framgangi hjúkrunar vil ég leggja mitt af mörkum til að efla stéttina. Ég óska eftir stuðningi þínum og samvinnu að bjartri framtíð fyrir hjúkrunarfræðinga og íslenskt heilbrigðiskerfi.