Fara á efnissvæði
Frétt

Hjartað mitt gleðst yfir góðum niðurstöðum 

Pistill Guðbjargar Pálsdóttur, formanns Fíh.

Kæru hjúkrunarfræðingar.

Í fyrsta skipti í rúman áratug hafa hjúkrunarfræðingar samþykkt miðlæga kjarasamninga með yfirgnæfandi meirihluta atkvæða. Þátttaka stéttarinnar í kosningum hefur í gegnum tíðina verið mjög góð og það sama var upp á teningnum núna, hvort sem verið var að kjósa um nýjan kjarasamning við ríkið, Reykjavíkurborg, Samband íslenskra sveitafélaga eða Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu. Niðurstaðan er ótvíræð og ljóst að hjúkrunarfræðingar eru sáttir við nýgerða samninga sem gilda til ársins 2028, enda náðist að semja um mörg mikilvæg atriði er varða kjör og starfsaðstæður stéttarinnar. Tekið var mikilvægt skref í átt að mögulegum samanburði hjúkrunarfræðinga við aðra háskólamenntaða sérfræðinga í sambærilegum störfum. Faglegur stuðningur í starfi hefur verið tryggður með nýjum samningum og stytting vinnuvikunnar fest í sessi. Einnig ber að nefna mikilvægan stuðning yfirvalda við áframhaldandi greiningu og innleiðingu á mönnunarviðmiðum og víkkuðu starfssviði sérfræðinga í hjúkrun.

Nýir tímar

Nýtt ár er handan við hornið og þá verður nóg um að vera. Stærsti viðburðurinn á vegum félagsins verður ráðstefnan Hjúkrun 2025 sem verður haldin í Hofi á Akureyri næsta haust, nánar tiltekið 25.- 26. september. Skipulagning er hafin og þeir hjúkrunarfræðingar sem hafa hug á að vera með erindi í Hofi ættu því að setja sig í stellingar núna og senda svo inn ágrip. Ég hvet alla hjúkrunarfræðinga til að taka þessa daga frá fyrir Hjúkrun 2025 því síðast þegar við komum saman á Akureyri var stemningin engri lík, þar ríkti mikil gleði og það var gaman að koma saman, fræðast og nærast og styrkja tengslin.

Ég vil einnig nefna áhugaverða ráðstefnu Alþjóðaráðs hjúkrunarfræðinga (ICN) sem verður haldin í Finnlandi í byrjun júní en þá verður tilvalið tækifæri fyrir hjúkrunarfræðinga til að fjölmenna þangað og kynnast kollegum á alþjóðavettvangi. Ísland er hátt skrifað í heimi hjúkrunar þegar kemur að faginu og einnig skipulagningu heilbrigðisþjónustu. Endilega komið til Finnlands en sjálf ætla ég mæta á báða þessa viðburði en þó ekki sem formaður Fíh því fljótlega á nýju ári verður kosið um nýjan formann félagsins. Það kemur í ljós í lok janúar hvaða öflugu hjúkrunarfræðingar verða í framboði og á vef félagsins munu allar upplýsingar verða settar inn þegar það liggur fyrir. Eins og fyrr vil ég hvetja ykkur til að hugsa vel hvort þetta einstaka leiðtogastarf sé eitthvað fyrir ykkur? Nú ef ekki, hvern viljið þið fá í starfið og þá er um að gera að hvetja viðkomandi til framboðs og styðja vel.

Heima er best

Eins og margir vita þá þurfti félagið að flytja tímabundið í húsnæði að Engjateig 9 vegna viðgerða á okkar húsnæði á Suðurlandsbraut 22. Þeim viðgerðum er að ljúka. Það gleður okkur að komast „heim“, við munum opna skrifstofuna í húsnæði Fíh strax eftir áramótin og hlökkum til að taka á móti ykkur þar.

 Á sama tíma erum við alltaf að bæta þjónustuna því nýverið voru Mínar síður á vef félagsins endurbættar til muna sem auðveldar hjúkrunarfræðingum núna að sjá stöðu sína í sjóðum félagsins og einnig að senda inn umsóknir. Nýja viðmótið er bæði þægilegra og persónulegra en áður.

Kæru hjúkrunarfræðingar til sjávar og sveita njótið hátíðanna sem allra best með ykkar nánustu og munið að sýna sjálfum ykkur mildi. Sjálf ætla ég að hvíla andann og hlaða batteríin sem mest yfir hátíðarnar í kjölfar þessarar sögulegu niðurstöðu kjarasamninga, sem er að mínu mati staðfesting á okkar góða árangi. Ég er mjög sátt enda verið mitt hjartans mál að ná sem bestum samningum fyrir stéttina.

Gleðilega hátíð og alveg sérstakar hlýjar kveðjur til þeirra hjúkrunarfræðinga sem ætla að standa vaktina yfir hátíðarnar.