Fara á efnissvæði
Frétt

Hjúkrunarfélög Norðurlanda skora á stjórnvöld

Ráðstefna Bandalags hjúkrunarfélaga á Norðurlöndunum, NNF, var haldin í Reykjavík 12.-13. september. Skorað var á stjórnvöld að fylgja alþjóðlegum reglum um ráðningar hjúkrunarfræðinga milli landa.

Markmið ráðstefnunnar var að stilla saman strengi hjúkrunarfélaganna á Norðurlöndunum þegar kemur að ráðningu hjúkrunarfræðinga á milli landa og alþjóðlegum skorti á þeim til starfa. Skortur á hjúkrunarfræðingum á Norðurlöndunum má ekki bitna á löndum sem mega enn síður við því að missa þá úr landi.

Aðalfyrirlesarar ráðstefnunnar voru Howard Catton, framkvæmdastjóri ICN, og James Buchan, prófessor í hjúkrunarfræði og ráðgjafi ICN. Mikil ánægja var með ráðstefnuna meðal gesta og mikill samhljómur í þeim áskorunum sem löndin eru að takast á við þegar kemur að mönnun hjúkrunarfræðinga og alþjóðlegum ráðningum hjúkrunarfræðinga.

Í lok ráðstefnunnar var samþykkt yfirlýsing NNF sem send var á stjórnvöld á öllum Norðurlöndunum þar sem skorað er á þau að fylgja reglum Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar (WHO) um ráðningar hjúkrunarfræðinga milli landa.

Í yfirlýsingunni var farið yfir þær aðgerðir sem þarf að ráðast í til að tryggja sjálfbærni heilbrigðisþjónustu landanna á sama tíma og uppfylla þarf alþjóðlegar skuldbindingar um siðferðileg vinnubrögð og jafnan rétt til heilsu á alþjóðavísu eins og WHO mælir til.

Hér má lesa yfirlýsinguna.

Nánar verður fjallað um ráðstefnuna í næsta tölublaði Tímarits hjúkrunarfræðinga.