Fara á efnissvæði
Viðtal

Hjúkrunarfræðingur í doktorsnámi gefur út bók

Viðtal í 2. tbl. Tímarits hjúkrunarfræðinga 2024 við Aðalbjörgu Stefaníu Helgadóttur, hjúkrunarfræðing og rithöfund

Texti: Þórunn Sigurðardóttir | Myndir: Þórunn Sigurðardóttir og úr einkasafni

Aðalbjörg Stefanía Helgadóttir er hjúkrunarfræðingur með marga hatta. Nýverið kom út bókin Einmana eftir hana en áður hefur hún gefið út bækurnar Samskiptaboðorðin og Samfélagshjúkrun auk þess sem hún ritstýrði bókaröð um hjúkrun fyrir sjúkraliðanema. Við fengum að heimsækja Aðalbjörgu og Díönu, hundinn hennar ljúfa, á fallegt heimili þeirra í Laugardalnum og spyrja út í líf Aðalbjargar og störf.

„Ég ólst upp úti á landi og þar starfaði skólahjúkrunarfræðingur sem hét Adda. Eins og svo mörg þá lenti ég í einelti í grunnskóla en Adda mætti mér alltaf af svo mikilli hlýju og var ein af mínum fyrirmyndum úr æsku. Það var alltaf draumur minn að verða eins og hún en svo bara gerðist lífið, ég flutti til Reykjavíkur þegar ég kláraði grunnskóla, fór í FB og var í hljómsveit sem hét Afródíta. Svo flutti ég til Akureyrar þegar ég var 18 ára. Þar kynnist ég barnsföður mínum og við eignumst þrjú börn, fyrst son þegar ég er tvítug og svo tvíbura. Ég lauk ekki framhaldsskóla á réttum tíma, var að njóta þess að vera til og tók einn og einn kúrs í VMA. Við barnsfaðir minn skildum og tveimur árum seinna kynntist ég núverandi manni mínum sem bjó í Reykjavík. Ég ákvað því að flytja til höfuðborgarinnar haustið sem elsti strákurinn minn byrjaði í grunnskóla. Við eignumst svo tvær dætur saman og þegar ég var 29 ára var ég orðin fimm barna móðir.

Þegar sú yngsta var þriggja ára ákvað ég að fara í nám. Ég fór í FÁ og útskrifaðist sem sjúkraliði árið 2006 og fór þá að vinna á vökudeild Landspítalans, kláraði svo stúdentinn og fór svo í kjölfarið í hjúkrun árið 2007. Þegar ég fór í hjúkrun rættist gamall draumur en ég man þegar ég var í kvöldskóla VMA og tók strætó heim sem keyrði fram hjá SAk að ég hugsaði með mér að ég ætlaði mér að verða hjúkrunarfræðingur fyrir fertugt. Þá var ég bara 24 ára og gaf mér því rúman tíma en ég náði markmiðinu og kláraði hjúkrun þegar ég var 39 ára árið 2011. Þetta lá einhvern veginn alltaf fyrir mér, mér finnst allt við fagið ótrúlega áhugavert og skemmtilegt.“

Verkefni í náminu varð seinna að bók og námskeiði

Hvert lá leið þín eftir útskrift árið 2011?

„Ég starfaði á vökudeildinni samhliða náminu og deildarstjórinn minn þar, Ragnheiður Sigurðardóttir, veitti mér mikinn stuðning. Ég var í hlutastarfi á vökudeildinni til ársins 2015 en ég var líka skólahjúkrunarfræðingur í Langholtsskóla í þrjú ár. Fór svo að kenna í Fjölbraut í Ármúla en árið 2016 fékk ég stöðu deildarstjóra á Heilsustofnun í Hveragerði og starfaði þar til ársins 2020. Þá hafði ég fengið styrk hjá Sjálfstætt starfandi fræðimönnum til að skrifa bókina Einmana, en styrkveitingunni fylgdi sú regla að ég mátti ekki vinna launaða vinnu á sama tíma og ég fékk styrkinn. Ég hafði klárað meistaranám frá HA 2018 samhliða öllum þessum störfum og fór svo í kjölfarið í doktorsnám. Ég byrjaði frekar gömul í námi og kannski þess vegna fannst mér allt þetta nám svo gefandi og veita mér mörg tækifæri. Þegar ég var í grunnnámi í hjúkrun áttum við að gera verkefni í heilsugæsluhjúkrun, sem var að búa til fræðsluefni, ég gerði leiðarvísi um góð samskipti sem urðu svo Samskiptaboðorðin og komu út árið 2012. Í kjölfarið skrifaði ég svo bók um samskipti sem kom út 2016. Núna átta árum seinna er ég enn að nýta þessa afurð á námskeiði sem ég kenni í Bataskólanum sem mér finnst vera mjög gefandi og áhugavert.

Stundum engin úrræði en alltaf hlýtt andrúmsloft

Aðalbjörg hafði starfað í Hveragerði í um fjögur ár þegar hún tók sér pásu til að skrifa bókina en núna er hún aðeins byrjuð að vinna þar aftur. „Það var í raun mjög erfitt að taka þessa ákvörðun að hætta og fara í leyfið en mér fannst ég verða að skrifa þessa bók um einmanaleikann. Ef ég hefði ekki skrifað hana þá hefði örugglega enginn annar gert það. Á Heilsustofnuninni í Hveragerði finnst mér yndislegt að starfa og þar hittir maður fólk sem er með alls konar áföll og erfiða reynslu á bakinu en maður sér fólk rísa upp við veruna þarna. Þetta eru engin geimvísindi, þarna fá þau bara tíma og næði til að hlúa að sér. Við erum búin að læra um þetta í náminu; hve mikilvægt það er að annast sjálfan sig svo unnt sé að annast aðra, en að horfa á þetta raungerast þarna er stórkostlegt,“ segir hún brosandi.

Hvernig er hefðbundin vakt á Heilsustofnuninni í Hveragerði?

„Hún er öðruvísi en á öðrum vinnustöðum sem ég hef starfað á. Hjúkrunarfræðingar og sjúkraliðar vinna í nánu samstarfi á vaktinni. Við erum kannski með um 120 manns í húsinu og hluti af þeim þarf mögulega smá aðstoð. Sum eru að koma til okkar í lyfjagjafir eða sáraskipti og þetta minnir stundum á hjúkrunarmóttöku á heilsugæslu. Eitt sem er frábrugðið þarna er að við tölum um gesti en ekki skjólstæðinga. Við tökum á móti gestunum okkar og tökum ítarlegt komuviðtal. Þannig erum við fyrsta snertingin. Svo eru fastir liðir eins og slökun á kvöldin og samflot í sundlauginni tvisvar í viku. Einnig felst starfið líka í því að vera til staðar, eiga samtöl við gestina, hlúa að þeim og vera vakandi yfir þeim sem þurfa stuðning, svo eru göngur einu sinni á dag.“

Bókakynning í Sölku á nýjustu bók Aðalbjargar.

Aðalbjörg segir að sér finnist erfiðast við starfið að vera með gesti sem ekki er hægt að gera neitt fyrir; „það eru stundum engin úrræði og það er erfitt en þarna er alltaf hlýlegt andrúmsloft og gestir finna fyrir umhyggju. Við sem þarna störfum gefum okkur tíma til að eiga samtal við fólk. Það er auðvitað ýmislegt sem getur komið upp á og stundum þurfum við að hringja út sjúkrabíla því fólk er misjafnlega á sig komið en það er yndislegt að vera þarna.“

Hlúir að tengslamyndun á vökudeildinni

Aðalbjörg starfar ekki eingöngu á Heilsustofnun í Hveragerði því árið 2022 fór hún aftur að starfa á vökudeildinni. „Bæði vökudeildin og heilsustofnun eru gefandi vinnustaðir. Vökudeildin fangaði hjarta mitt þegar ég kom þangað fyrst í verknám sem sjúkraliðanemi. Þar er ég núna í 40% starfi og finnst það vera forréttindi. Þessi tvö ólíku störf mín sýna vel tækifærin sem felast í því að vera í hjúkrun. Þetta eru mjög ólíkir vinnustaðir, gjörgæsla og endurhæfing, en mér finnst ég aldrei vera slitin í sundur, þetta gengur allt upp. Á vökudeildinni er gjörgæsla, hágæsla og svo vaxtarrækt þar sem börnin eru orðin meira stabíl en eru enn að læra að drekka og slíkt. Ég flakka svolítið milli þess að vera í vaxtarræktinni og hágæslunni. Skemmtilegast finnst mér að hlúa að tengslamyndun milli foreldra og barna. Það eru þessi augnablik í starfinu eins og til dæmis að færa lítinn fyrirbura í fang móður þess eða föður í fyrsta skiptið, sem er mest gefandi. Það getur verið mjög krefjandi fyrir foreldra að vera með barnið sitt á vökudeild og það að geta valdeflt foreldra til að taka á sig þetta stóra hlutverk er líka mjög gefandi fyrir mig í starfi.“

Hún segir enn meiri áherslu vera á fjölskylduhjúkrunina en var fyrir nokkrum árum. „Það eru fleiri fjölskylduherbergi og við erum meira að fara til fjölskyldunnar; inn á sængurkvennagang og fæðingardeildina, í stað þess að barnið fari frá fjölskyldunni og til okkar. Það gerir það að verkum að starfið okkar er umfangsmeira, við þurfum að vera í öllum þessum tæknilega krefjandi atriðum og líka að sinna þessari fjölskylduhjúkrun og starfið meira krefjandi. Á sama tíma, þegar það gengur vel, þá er það meira gefandi.“

Mikilvægt að hlúa vel að starfsfólki

Í B.S.-náminu í hjúkrun gerði ég rannsókn á handleiðslu fyrir hjúkrunarfræðinga, sem var ekki áberandi í umræðunni á þeim tíma en er það í dag. Það getur verið snúið að sinna alls konar fjölskyldum og stuðningur fyrir fagfólk hefur aukist. Stuðningsog ráðgjafateymi spítalans kemur til dæmis inn og býður upp á stuðning en ég tel það vera lykilatriði fyrir starfsfólk að fá stuðning til að geta verið í þessu starfi. Við erum að takast á við erfiða hluti, jafnvel á hverjum degi og svo má ekki gleyma því að það eru ekki öll börn sem hafa það af. Þess vegna skiptir máli að það sé gætt að því að hlúa vel að starfsfólkinu, hjúkrunarfræðingar eru dýrmætir starfskraftar og sinna oft skjólstæðingum við erfiðar aðstæður, það þarf þá líka að hlúa að þeim sjálfum og það hefur aukist að það sé gert, að ég tel.“

Aðalbjörg nefnir líka að stór hluti gestanna sem komi á Heilsustofnunina í Hveragerði sé fólk sem er komið í kulnun eða í veikindaleyfi af einhverjum orsökum. „Þetta er oft fólk sem starfar með fólki, eins og til að mynda kennarar og hjúkrunarfræðingar, og þess vegna er svo mikilvægt að við pössum upp á okkur sjálf.“

Vanlíðan í starfi tengd einmanaleika

Þá vindum við okkur að öðru; bókaskriftum og spyrjum Aðalbjörgu fyrst að því hvort hún hafi alla tíð haft áhuga á skrifum? „Já, ég hef alltaf haft mjög gaman af því að skrifa, það hefur verið mitt líf og yndi. Varðandi bókina Samskiptaboðorðin, þá var ég eiginlega beðin um að skrifa hana. Fyrst byrjaði ég á því að skrifa fræðibók um samskipti en hún var of þurr. Ég hafði í þá bók sett sögur úr mínu lífi sem tengdust samskiptum og var með dásamlegan ritstjóra sem heitir Guðrún. Hún eiginlega lagði til að ég skrifaði mína sögu og samskiptin út frá því, þannig að við snerum þessu svolítið við. Það var ótrúlega skemmtilegt ferli. Í kjölfarið var ég beðin um að ritstýra kennslubókum fyrir sjúkraliða sem voru þýddar úr dönsku. Ég staðfærði þær og aðlagaði að íslenskum aðstæðum. Þær voru þrjár talsins en svo kom á daginn að það vantaði eina bók sem var ekki til í seríunni og því var ég líka beðin um að skrifa þá bók, sem fjallar um samfélagshjúkrun. Þegar ég var að kenna samfélagshjúkrun þá hafði ég búið til lítið hefti um efnið og það var byrjunin. Upp úr því varð bókin Samfélagshjúkrun til. Ég ákvað að skrifa hana þannig að hún gæti nýst öðrum líka, hjúkrunarfræðinemum og öðrum sem hafa áhuga á þessu efni. Þessi bók gekk vel og ég fékk tilnefningu frá Hagþenki fyrir hana,“ segir hún.

Fljótlega eftir að Aðalbjörg gaf út Samskiptaboðorðin fór hugmyndin að næstu bók að banka upp á. „Kannski af því að ég hef alltaf haft áhuga á tengslum þá fór ég árið 2018 af alvöru að skoða einmanaleikann, þetta var eftir að ég kláraði meistaranámið. Það kveikti eflaust líka áhugann að í meistaraverkefninu tók ég viðtöl við hjúkrunardeildastjóra um allt land þar sem ég spurði um upplifun af starfi, álag og bjargráð. Þá kom í ljós að þeim sem leið ekki vel í vinnunni sögðust upplifa sig svo einar sem kveikti áhugann enn frekar og hvort við upplifum öll þessa tilfinningu að vera einmana.“

Hvernig var ferlið þegar þú skrifaðir bókina Einmana?

„Ég byrjaði á fræðilega hlutanum og bauð svo fólki að hafa samband við mig ef það vildi deila reynslu sinni af einmanaleika. Það voru mjög margir sem sendu mér inn sína sögu og ég fékk einnig símtöl frá fólki sem vildi deila sinni reynslu. Ég tók líka viðtöl við einstaklinga og vann úr þeim. Ég hef mikinn áhuga á vellíðan og að varpa ljósi á það hvernig fólk fer að því að líða vel og upplifa hamingju þrátt fyrir mótlæti.“

Upplifði spennufall þegar bókin kom út

Aðalbjörg segir aðspurð að samskiptaboðorðin séu horfa, heilsa, hlusta, hljóma, hrósa og hjálpa. „Það að hjálpa þýðir ekki að við séum með plástur í vasanum heldur að við gegnum því hlutverki, hvert og eitt okkar, að geta séð til þess að við njótum öll sem bestu lífsgæða og það finnst mér vera rauði þráðurinn í öllu sem ég hef verið að gera. Bókin Einmana byggir á fræðilegri vinnu, sem er grunnurinn í bókinni, en ég vil samt höfða til almennings; að allir geti lesið hana og haft gagn af. Það er kúnst að höfða til allra og flétta þetta fræðilega saman við þetta mannlega. Að fara úr því að vera doktorsnemi þar sem ég þarf að hafa heimildir fyrir öllu, í það að leyfa mér að segja mínar skoðanir, þetta var lærdómsríkt. Ég er stolt af þessari bók og það var mikið spennufall þegar hún kom út. Mér finnst ég njóta mikilla forréttinda að hafa fengið tækifæri til að vinna við klíníska hjúkrun eins og ég geri í dag og líka að við skrifa, kenna og halda fyrirlestra. Þetta eru oft margir hattar og erfitt en í lok dags finnst mér ég vera lánsöm.“

Aðalbjörg á heimili sínu. Aðalbjörg í útgáfuboði bókarinnar Einmana.

Nýtti heimsfaraldurinn til að tala við stjórnendur í auga stormsins

Nú ertu í doktorsnámi við Háskóla Íslands, geturðu sagt okkur aðeins frá því?

„Ég er í doktorsnámi í stjórnun við viðskiptafræðideild Háskóla Íslands. Þegar ég var búin með meistaranámið í HA hvatti leiðbeinandinn minn, Sigrún Gunnarsdóttir, mig til að halda áfram. Upphaflega ætlaði ég að halda áfram með þetta efni, tala við fleiri millistjórnendur í fleiri geirum og halda áfram með fyrirbærafræðilegu aðferðina en svo kom covid, þegar ég var nýbyrjuð í náminu. Ég ákvað þá að nýta tækifærið og taka viðtöl við stjórnendur í auga stormsins og leiðbeinendur mínir, þær Sigrún og Erla Sólveig Kristjánsdóttir, samþykktu það. Það varð úr að ég tók viðtöl við skólameistara í framhaldsskólum og æðstu stjórnendur heilbrigðisstofnana á Íslandi í fyrstu bylgju af covid. Þetta voru alls 43 viðtöl og ég er að skoða upplifun þeirra sem ég ræddi við af þessum aðstæðum, áskorunum, álagi og hvað þau gerðu til að komast í gegnum þetta.

Ég hef áhuga á að skoða hvernig fólki getur liðið vel og átt gott líf þrátt fyrir svakalegt mótlæti. Hvað er það sem gerir það að verkum að fólk nær að eiga gott líf og vera hamingjusamt? Þetta er það sem ég er að skoða í doktorsnáminu. Þannig að þetta tengist allt. Í bókinni Einmana tala ég um að upplifa tilgang þrátt fyrir að vera einmana. Það er má segja rauði þráðurinn í því sem ég er að gera og er ástæða þess að ég held alltaf áfram.“

Fleiri bækur og húsbílaferðir í framtíðinni

Aðspurð um hvar Aðalbjörg ætli að vera eftir fimm til tíu ár segist hún sjá fyrir sér að hún verði búin að skrifa aðra bók: „Jafnvel upp úr doktorsverkefninu sem væri einnig fyrir almenning. Mig langar líka til að skrifa skáldsögu. Svo keypti ég húsbíl í fyrra sem mér finnst gaman að keyra og hafa Díönu með. Kannski verð ég bara að keyra um og skrifa bækur, kannski líka að kenna, mér finnst það mjög skemmtilegt. Ég kenni alltaf einn áfanga í fjarnámi í FÁ, mér finnst svo gefandi að hjálpa fólki að koma auga á hvað það í raun veit mikið og að hjálpa því við að koma þekkingunni sinni frá sér og nýta hana. Ég er samt ekkert endilega alltaf besti kennarinn fyrir mig sjálfa. Stundum getur verið erfitt að vera í svona mörgum hlutverkum og undir miklu álagi á tímabilum. En ég á góða að, góða fjölskyldu, góðan mann og yndisleg börn sem eru mér allt. Stundum held ég að maður sé betri í því að segja öðrum til en að fara eftir hlutunum sjálfur. Það sem ég þarf kannski að gera meira af er bara að njóta og draga andann.