Fara á efnissvæði
Frétt

Hjúkrunarfræðingar eru ekki uppljóstrarar

Ríkisstjórn Svíþjóðar hefur lagt fram frumvarp sem gerir allt opinbert starfsfólk skyldugt til að tilkynna stjórnvöldum um ólöglega innflytjendur.

Frumvarpið hefur fengið dræmar viðtökur meðal hjúkrunarfræðinga, lækna, kennara og hjá öðru opinberu starfsfólki sem eiga þá yfir höfði sér refsingu ef þeim ljáist að tilkynna grun um ólöglega veru í landinu.

Samvinna hjúkrunarfræðinga á Norðurlöndum (SSN), sem Fíh tilheyrir, styður kollega sína í Svíþjóð sem mótmælir þessum fyrirætlunum. Ef frumvarpið verður að lögum mun það fæla fólk frá því að leita sér heilbrigðisþjónustu.

Fram kemur í yfirlýsingu SSN að ef stjórnvöld í Svíþjóð ætla að gera hjúkrunarfræðinga að uppljóstrurum þá grefur það undan grunngildum hjúkrunar. Það er tryggt í Mannréttinda- og Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna að allir sem þurfa geti leitað sér heilbrigðisþjónustu án þess að þurfa að hafa áhyggjur af afleiðingunum. Siðareglur Alþjóðaráðs hjúkrunarfræðinga hafa verið viðmið fyrir hjúkrunarfræðinga um allan heim frá árinu 1953.

Í siðareglum Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga segir skýrt að hjúkrunarfræðingur eigi fyrst og fremst faglegum skyldum að gegna við þá sem þarfnast hjúkrunar. Hjúkrunarfræðingur fer ekki í manngreinarálit, hann stendur vörð um sjálfsákvörðunarrétt skjólstæðings og rétt til bestu mögulegrar þjónustu á hverjum tíma. Ef ráðstafanir stjórnvalda ganga gegn hagsmunum skjólstæðings þá skal hjúkrunarfræðingur vekja athygli á því.

Hjúkrunarfræðingar standa frammi fyrir mikilli siðferðislegri áskorun ef þess er krafist að þeir víki frá grunngildum sínum um að veita þjónustu án þess að fara í manngreinarálit. Skylda hjúkrunarfræðinga er að veita heilbrigðisþjónustu í samræmi við þarfir skjólstæðings, ekki í samræmi við innflytjendastefnu.

Það er óásættanlegt að fólki sé meinaður aðgangur að heilbrigðisþjónustu eða að hjúkrunarfræðingar séu skyldaðir til að víkja frá almennum siðferðisviðmiðum um að aðstoða þá sem eru í neyð.