Fara á efnissvæði
Frétt

Hulda Björg Óladóttir

Hulda Björg Óladóttir býður sig fram í stjórn Fíh kjörtímabilið 2024-2026. Stjórnarkjör fer fram á aðalfundi 16. maí.

Ég heiti Hulda Björg Óladóttir og útskrifaðist sem hjúkrunarfræðingur frá HÍ árið 2006.

Eftir útskrift starfaði ég á bráðamóttöku LSH í Fossvogi og á Heilsugæslunni í Árbæ. Árið 2008 tók ég við starfi hjá Icepharma sem viðskiptastjóri/markaðsstjóri. Þar sá ég um sölu og markaðsetningu á lyfjum, hjúkrunarvörum og lækningatækjum. Árið 2019 langaði mig að breyta til og réði mig sem aðstoðardeildarstjóri á Hrafnistu. Þaðan lá leið mín í heilsugæsluna og í dag starfa ég sem fagstjóri hjúkrunar á Heilsugæslunni Mjódd. Síðastliðin tvö ár hef ég setið í stjórn Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga sem aðalmaður og gjaldkeri stjórnar.

Samhliða starfi mínu í Icepharma aflaði ég mér framhaldsmenntunar á sviði markaðsfræða og alþjóðaviðskipta. Árið 2020 hóf ég svo diplómanám í Hjúkrunarstjórnun sem ég útskrifaðist úr í febrúar 2022. Í dag er ég í meistaranámi í hjúkrunarstjórnun.

Ég er meðlimur í fagdeild heilsugæsluhjúkrunarfræðinga, fagdeild öldrunarhjúkrunar og fagdeild um forystu í hjúkrun og rammar það nokkuð vel inn helstu áhugasvið mín innan hjúkrunarfræðinnar þ.e.a.s. öldrun, heilsugæslu og stjórnun.

Fyrir tveimur árum bauð ég mig fyrst fram í stjórn félagsins. Það hafði lengi blundað í mér að starfa fyrir félagið okkar á einhvern hátt. Ég vona að reynsla mín og menntun hafi nýst og geti nýst félaginu til góða í baráttunni um bætt launakjör og starfsumhverfi hjúkrunarfræðinga sem og öðrum störfum innan stjórnar félagsins. Starfsumhverfi og launakjör eru þeir þættir sem ég brenn fyrir.