Ég heiti Hulda Björg Óladóttir og er 43 ára gömul. Hjúkrunarfræðingur að mennt og útskrifaðist frá Háskóla Íslands árið 2006. Síðan þá hef ég starfað á ólíkum vinnustöðum og er því með reynslu víða að.
Starfsreynsla
Eftir útskrift starfaði ég á bráðamóttöku LSH í Fossvogi og á Heilsugæslunni í Árbæ. Árið 2009 tók ég við starfi hjá Icepharma sem viðskiptastjóri/markaðsstjóri. Þar sá ég um sölu og markaðssetningu á lyfjum, hjúkrunarvörum og lækningatækjum.
Árið 2018 langaði mig að breyta til og réði mig sem aðstoðardeildarstjóri á Hrafnistu. Þaðan lá leið mín í heilsugæsluna í Salahverfi, þar sem ég starfaði einnig sem trúnaðarmaður. Eftir nokkurt skeið í heilsugæslunni tók ég við stöðu hjúkrunarstjóra í Sóltúni en færði mig fljótlega aftur til heilsugæslunnar. Heilsugæslan hefur alltaf togað fast í mig og einhvernveginn hefur leiðin alltaf legið þangað aftur.
Í dag starfa ég sem fagstjóri hjúkrunar á Heilsugæslunni í Mjódd. Síðastliðin þrjú ár hef ég setið í stjórn Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga sem aðalmaður og gjaldkeri stjórnar. Síðastliðið starfsár hef ég gegnt hlutverki varaformanns Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga. Á þessum árum sem ég hef starfað í stjórn félagsins og sem varaformaður hef ég öðlast dýrmæta reynslu sem snýr að rekstri félagsins og hagsmunamálum hjúkrunarfræðinga.
Menntun og framhaldsnám
Samhliða starfi mínu hjá Icepharma aflaði ég mér framhaldsmenntunar á sviði markaðsfræða og alþjóðaviðskipta. Árið 2020 hóf ég svo diplómanám í hjúkrunarstjórnun sem ég útskrifaðist úr í febrúar 2022. Í dag er ég í meistaranámi í hjúkrunarstjórnun.
Áhugasvið innan hjúkrunar
Áhugasvið mitt innan hjúkrunarfræðinnar, eins og má lesa úr starfsreynslu minni og menntun hér að ofan, eru heilsugæsluhjúkrun, öldrunarhjúkrun og hjúkrunarstjórnun.
Mínar áherslur
Fyrir þremur árum bauð ég mig fyrst fram í stjórn félagsins. Það hafði lengi blundað í mér að starfa fyrir félagið okkar á einhvern hátt. Starfsumhverfi hjúkrunarfræðinga og kjaramálin voru þeir málaflokkar sem ég brann fyrir þegar ég kom inn í þessa vinnu og eru enn mín áherslumál.
Mikilvægt er að fjölga sérfræðingum í hjúkrun og það er einnig eitt af þeim málum sem ég tel brýn og eru ofarlega á forgangslistanum.
Bætt starfsumhverfi hjúkrunarfræðinga
Starfsumhverfi hjúkrunarfræðinga þarf að stórbæta. Því mun ein af megináherslum mínum í starfi verða að vinna að því að vinnuumhverfi hjúkrunarfræðinga sé öruggt, líkamlega og tilfinningalega, hvetjandi og eftirsóknarvert.
Þessi síðasta setning er tilvitnun í Stefnumið til 2030 sem samþykkt voru á aðalfundi Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga í maí 2021. Í þessu samhengi mætti nefna mikilvægi þess að setja mönnunarviðmið í hjúkrun sem byggja á umfangi og gæðum þjónustunnar.
Viðmið um mönnun tel ég eitt af brýnustu verkefnum til að bæta öryggi, ekki bara sjúklinganna heldur einnig hjúkrunarfræðinganna sem standa vaktina hverju sinni. Í viðhorfskönnun sem FÍH gerði síðastliðið haust meðal félagsmanna kom fram að 80% hjúkrunarfræðinga hafa áhyggjur af að lenda í alvarlegu atviki í starfi. Þessar niðurstöður sýna enn frekar hversu brýnt er að bæta starfsumhverfið.
Kjaramál
Við stöndum á þeim tímamótum núna að vera nýlega búin að skrifa undir kjarasamninga. Mikilvæg vinna er því fram undan í stofnanasamningum við hverja stofnun fyrir sig, og mikilvægt er að sú vinna gangi hratt og vel.
Einnig tel ég mikilvægt að ná til hjúkrunarfræðinga svo þeir þekki kjarasamninga og stofnanasamninga og viti með hvaða hætti þeir geti sótt framgang í sinni launaþróun. Þegar líður aftur að kjarasamningum er mikilvægt að gera könnun meðal félagsmanna um hvað þeim finnst brýnast að ná fram í næstu samningum og fara í vegferðina með þær upplýsingar að leiðarljósi.
Sérfræðingar í hjúkrun
Sérfræðingar í hjúkrun eru hópur sem þarf að tryggja að fari stækkandi. Hjúkrunarfræðingar þurfa að sjá hag í að fara í þessa vegferð og því er mikilvægt að sérfræðileyfi sé sannarlega metið til launa. Fjöldi þeirra þarf að vera í takt við þarfir skjólstæðinganna. Stuðla þarf að því að framhaldsnám í hjúkrun sé í stöðugri þróun.
Lokaorð
Ég vona að þessi fáu orð gefi ykkur innsýn í hver ég er og hvað ég stend fyrir. Auðvitað er þetta bara brot af þeim verkefnum sem ég tel hvað brýnust. Ég brenn fyrir málefnum hjúkrunarfræðinga og býð því fram krafta mína og vonast eftir þínum stuðningi.