Fara á efnissvæði
Frétt

Fimm hlutu hvatningarstyrk Fíh í ár

Fimm hjúkrunarfræðinga hlutu hvatningarstyrk á aðalfundi Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga 2023 sem haldinn var í Hörpu.

Markmið hvatningarstyrkja er að styðja við hjúkrunarfræðinga sem hafa á einhvern hátt skarað fram úr á sínu sviði. Viðurkenningin byggir á gildum Fíh, ábyrgð, áræðni, árangur og horft skal til þátta sem lúta að klínískri færni, stjórnun, kennslu, rannsóknum og nýsköpun í hjúkrun.

Styrknum er ætlað að styðja hjúkrunarfræðinga til að afla sér frekari þekkingar og/eða þjálfunar sem nýtist þeim til að þróa enn frekar sín verkefni sem tengjast hjúkrun og þeir eru í forsvari fyrir eða leiða. Þessir hvatningarstyrkir eru veittir einstaklingum en ekki fyrir verkefni eða rannsóknir sem eru fjármagnaðar að fullu eða hluta annarstaðar.

Guðrún Jóna Guðlaugsdóttir

Guðrún Jóna er hjúkrunarfræðingur sem hefur verið öflugur talsmaður sjálfsvígsforvarna. Hún hefur langa reynslu af því að stýra verkefnum bæði hjá stofnunum og fyrirtækjum. Hún vinnur nú sem verkefnastjóri sjálfsvígsforvarna hjá Embætti Landlæknis. Guðrún Jóna missti son í sjálfsvígi árið 2010. Hún hefur í mörg ár unnið í gegnum félagasamtök að forvörnum sjálfsvíga og stuðningi við aðstandendur sem misst hafa nákominn í sjálfsvígi. Árið 2011 kom hún að stofnun Minningarsjóðs Orra Ómarssonar og kostaði sá styrktarsjóður þýðingu bókarinnar Þrá eftir frelsi sem ætluð er fyrir aðstandendur sem missa í sjálfsvígi. Hún er fagstjóri Sorgarmiðstöðvar, var varamaður í stjórn Sorgarmiðstöðvar við stofnun hennar og formaður stjórnar 2020-2021.

Helena Bragadóttir

Helena er hjúkrunarfræðingur með meistaragráðu í geðhjúkrun og hefur helgað sína starfskrafta þeim sem glíma við fíknivanda og nú síðast föngum. Helena er einstakur fagmaður, hún nálgast sína skjólstæðinga af mikilli virðingu og fagmennsku. Hún hefur verið ötul í að vekja athygli á andlegri heilsu þeirra sem glíma við fíkn og sitja í fangelsum. Helena var ein af stofnendum Geðheilsuteymis fangelsa og er hún teymisstjóri í því teymi. Hún rannsakaði áhrif núvitundariðkunar á einstaklinga sem hafa glímt við, eða eru að glíma við áfengis- eða vímuefnafíkn. Hún er frumkvöðull í að nýta þekkingu eins og skaðaminnkun og núvitund fyrir fanga sem glíma við fíkn. Hún hefur í störfum sínum skarað fram úr er varðar ábyrgð, áræðni og árangur er lúta að klínískri færni, stjórnun og nýsköpun í hjúkrun.

Iðunn Dísa Jóhannesdóttir

Iðunn Dísa er hjúkrunarfræðingur og starfar á Heilsugæslu Heilbrigðisstofnunarinnar í Vestmannaeyjum. Iðunn er klínískur fagmaður fram í fingurgóma. Í störfum sínum nýtur Iðunn ómældrar virðingar samstarfsfólks og skjólstæðinga fyrir einstaka fagmennsku og nærveru. Hún er traustur bakhjarl nema og hjúkrunarfræðinga sem eru nýir í starfi. Hún er drífandi og framkvæmdarsöm og smitar aðra með vinnugleði sinni. Hún hefur barist fyrir bættum aðbúnaði samstarfsfólks og skjólstæðinga. Iðunn, sem er borinn og barnfæddur Vetmannaeyingur, fór og sótti sér hjúkrunarfræðimenntun og reynslu sem hún sneri með tilbaka í heimabyggð og auðgar og tryggir öryggi þannig í samfélagi sínu, sem oft og tíðum er einangrað í dreifbýlinu.

Frá afhendingu hvatningarstyrkja Fíh í Hörpu. Margrét Héðinsdóttir, önnur f.h.

Margrét Héðinsdóttir

Margrét er hjúkrunarfræðingur sem hefur starfað hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins síðustu ár. Þar hefur hún verið mikill leiðtogi og frumkvöðull. Margrét þekkir ekki vandamál – bara lausnir og kom það berlega í ljós þegar hún stóð eins og klettur í covid faraldrinum. Þar kom lausnarmiðuð hugsun hennar skýrt fram við sköpun verkferla og stýringu á blöndun og gjöf bóluefnis. Margrét tók við sem fagstjóri hjúkrunar í nýstofnaðri Upplýsingamiðstöð heilsugæslunnar og skarar þar fram úr í nýsköpun varðandi nýtingu gervigreindar og forritunar. Hún hefur verið leiðandi í þróun Veru sem er spjallmenni, í því miði að draga úr álagi á heilsugæslustöðvar og beina réttum spurningum, tímanlega til hjúkrunafræðinga og annarra fagmanna með hag og öryggi skólstæðinga að leiðarljósi.

Þorsteinn Jónsson

Þorsteinn Jónsson er sérfræðingur í gjörgæsluhjúkrun, kennslustjóri hermináms á menntadeild Landspítala og aðjúnkt við Háskóla Íslands í bráða- og gjörgæsluhjúkrun. Utan virkra stjórnunarstarfa á Landspítala og í Hjúkrunar- og ljósmóðurfræðideild hefur hann setið í stjórn Endurmenntunar HÍ, stjórn Endurlífgunarráðs Íslands og verið formaður Skyndihjálpar Íslands. Þorsteinn er óumdeildur leiðtogi í uppbyggingu hermináms á Íslandi. Hann, ásamt samstarfsfólki, hefur byggt upp herminám við Hjúkrunar- og ljósmóðurfræðideild Háskóla Íslands og við Landspítala. Með sína miklu reynslu og djúpu þekkingu er hann lykilmaður í vinnuhópi um byggingu nýs heilbrigðisvíssindahúss, þar sem sérþekking hans á sérhönnuðum færni- og hermisetrum er ómetanleg. Með framtíðarsýn sinni og natni við uppbyggingu hermináms á Íslandi hefur hann lagt grunn að auknu öryggi sjúklinga og heilbrigðisstarfsfólks, að fjölgun nemenda í klínísku námi og þar með aukinni sjálfbærni hjúkrunarfræði og hjúkrunarfræðinga.