Fara á efnissvæði
Frétt

Mönnun snýst um öryggi sjúklinga

Alþjóðaráð hjúkrunarfræðinga (ICN) sendi yfirlýsingu á ríkisstjórnir heims um að auka fjárveitingar til að fjölga hjúkrunarfræðingum og halda í þá sem fyrir eru. Slík fjárfesting eykur öryggi sjúklinga.

Alþjóðaráð hjúkrunarfræðinga (ICN) sendi yfirlýsingu á ríkisstjórnir heims um að auka fjárveitingar til að fjölga hjúkrunarfræðingum og halda í þá sem fyrir eru. Slík fjárfesting eykur öryggi sjúklinga. Öryggi sjúklinga á ávallt að vera ofarlega í forgangsröðun gagnsærra heilbrigðiskerfa, þar er hvatt til að öll atvik og mistök séu tilkynnt.

Í yfirlýsingunni eru ríkisstjórnir hvattar til að bregðast við aðkallandi vanda með lagasetningum og áætlunum sem tryggja að heilbrigðisstarfsfólk geti mætt öllum þeim þörfum sem kallað er eftir. Þá eru ríkisstjórnir hvattar til að skrifa undir stofnskrá Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar um vernd heilbrigðisstarfsfólks.

Skýr tengsl mönnunar við dánartíðni

Í tilkynningu ICN vegna yfirlýsingarinnar er vitnað í orð Howard Catton, framkvæmdastjóra ICN, á ráðstefnu World Economic Forum nýverið. „Þegar það eru ekki nógu margir hjúkrunarfræðingar til staðar þá eykur það áhættu sjúklinga. Það eru skýr tengsl milli ófullnægjandi mönnunar hjúkrunarfræðinga og hækkaðrar dánartíðni sjúklinga. Við sjáum það á tölum frá öllum löndum og svæðum. Næg mönnun snýst um öryggi sjúklinga. Þrátt fyrir það rekumst við á vegg þegar kemur að umræðu um fjárfestingar í mönnun,“ sagði Catton.

Í tilkynningu ICN vegna yfirlýsingarinnar er vísað í nýlega grein í vísindatímaritinu Lancet þar sem fjallað er um áhrif Covid-19 faraldursins á öryggi sjúklinga. „Faraldurinn afhjúpaði nauðsyn þess að koma í veg fyrir að öryggi sjúklinga og heilbrigðisstarfsfólks sé stefnt í hættu. Það þarf að tryggja að hægt sé að veita örugga heilbrigðisþjónustu. Allur heimurinn þarf að bregðast við til að tryggja öryggi sjúklinga,“ segir í greininni.

Í yfirlýsingu ICN segir einnig að það séu órjúfanleg tengsl milli öryggi sjúklinga og öryggi heilbrigðisstarfsfólks. Ofbeldi, kulnun, óhóflegt álag, undirmönnun, veikindi og fleira sem hjúkrunarfræðingar verða fyrir hafa áhrif á gæði þjónustunnar og öryggi sjúklinga. Nauðsynlegt er að tryggja hjúkrunarfræðingum sem og öðru heilbrigðisstarfsfólki öruggt vinnuumhverfi, vernda geðheilsu þeirra og stuðla þannig að öryggi sjúklinga.

Fjallað um málefnið á Hjúkrun 2023

Samspil mönnunar og öryggi sjúklinga er Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga afar hugleikið. Í niðurstöðum síðustu kjarakönnunar Fíh kom fram að meira en helmingur hjúkrunarfræðinga hér á landi hefur oft mætt til vinnu þar sem mönnun var ekki næg til að tryggja lágmarksöryggi skjólstæðinga. Fíh hefur margsinnis ályktað um nauðsyn þess að koma á mönnunarviðmiðum hér á landi.

Fíh er með áheyrn í verkefnahópi heilbrigðisráðherra sem ætlað er að leggja fram mönnunarviðmið í hjúkrun á legudeildum Sjúkrahússins á Akureyri og Landspítala. Niðurstöður verkefnahópsins verða kynntar næsta vor og er það jákvætt fyrsta skref. Fjallað verður um málefnið á ráðstefnunni Hjúkrun 2023 sem fram fer í lok september en það er sérssvið Peter Griffiths sem er einn aðalfyrirlesara á ráðstefnunni.

Alþjóðlegur dagur sjúklingaöryggis er haldinn árlega 17. september. Hér á landi verður haldin ráðstefna í tilefni dagsins í fyrirlestrasal Íslenskrar erfðagreiningar milli kl. 13 og 16, yfirskriftin er Mennska er máttur - líka í heilbrigðiskerfinu.