Fara á efnissvæði
Frétt

Jórunn Ósk Frímannsdóttir Jensen

Jórunn Ósk er frambjóðandi til formanns Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga. Kosningarnar hefjast föstudaginn 28. febrúar kl. 12:00 og lýkur þriðjudaginn 4. mars kl. 12:00.

Kæri hjúkrunarfræðingur

Ég heiti Jórunn Ósk Frímannsdóttir Jensen og býð mig fram til formanns Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga (Fíh) í komandi kosningum. Ég er stolt af því að vera hjúkrunarfræðingur og heiti því að leggja mig alla fram í starfi fyrir hjúkrunarfræðinga um allt land. Verkefni formanns eru ærin, ég er tilbúin að takast á við þau og vinna þeim brautargengi. Ég hef ríkan metnað fyrir faginu okkar og störfum og sé fjölmörg tækifæri fyrir hjúkrunarfræðinga til framtíðar.

Hjúkrunarfræðingar eru mikilvægir í störfum sínum og í samfélaginu öllu. Stéttin er vel menntuð með einstaka þekkingu sem nýtist við störf okkar hvar sem við erum og hver sem þau eru. Þessi þekking og reynsla veitir okkur innsýn í mannlegan breyskleika og skilning á líkamlegum, sálrænum og félagslegum þörfum skjólstæðinga okkar og samfélagsins. Mikilvæg verkefni eru framundan, nauðsynlegt er að leiðrétta kjör hjúkrunarfræðinga. Menntun hjúkrunarfræðinga, reynslu og ábyrgð þarf að meta til launa, eigi að viðhalda stéttinni.

Þróun hjúkrunar og annarra heilbrigðisstétta verður mikil á næstu árum. Nýsköpun og tölvugreind skapa ný tækifæri en koma ekki í stað hjúkrunarfræðinga. Þörfin fyrir stéttina verður áfram mikil og munu hjúkrunarfræðingar eftir sem áður lenda í aðstæðum þar sem taka þarf ákvarðanir í skyndi.

Hver er ég?

Ég útskrifaðist sem hjúkrunarfræðingur B.Sc. árið 1993 og lauk meistaranámi í Opinberri stjórnsýslu árið 2015 MPA, (Master of Public Administration). Ég hef langa og víðtæka reynslu í faginu bæði af störfum við hjúkrun og sem stjórnandi, hvort sem um er að ræða hjá einkafyrirtækjum eða hinu opinbera.

Ég hef verið forstöðumaður á hjúkrunarheimilinu Droplaugarstöðum frá 2018. Þar hef ég innleitt gæðakerfi og fengið ISO 9001 vottun auk þess að innleiða Eden hugmyndafræðina. Mér hefur þótt gott að viðhalda klínískri reynslu og hef því starfað samhliða í hlutastarfi á Réttargeðdeild Lsh, sem mér finnst afar gefandi. Ég hef verið formaður Öldrunarráðs Íslands frá árinu 2019 og sit í samráðsnefnd um málefni eldri borgara á vegum Heilbrigðisráðuneytisins. Ég var deildarstjóri frá 2012 -2018 á aðgerðasviði Landspítala, Blóðbankanum.

Ég hef mikla reynslu af félagsstörfum, á sviði stjórnsýslunnar og í samskiptum við hagsmunaaðila. Var fulltrúi í samninganefnd Sambands íslenskra sveitarfélaga í fjögur ár. Ég hef setið í stjórn Fíh, fyrst sem varaformaður og nú sem gjaldkeri en áður sat ég í samninganefnd félagsins við Reykjavíkurborg. Þessi reynsla hefur gefið mér góða innsýn í starfsemi félagsins og þau fjölbreyttu verkefni sem takast þarf á við. Áður átti ég og rak vefinn doktor.is, sat í borgarstjórn eitt kjörtímabil þar sem ég var m.a. formaður velferðarráðs, sat í stjórn ECAD (European cities against drugs), var formaður stjórnar Strætó ásamt fleiri nefndar- og trúnaðarstörfum.

Ég er gift, saman eigum við fjögur uppkomin börn og fimm barnabörn. Fjölskyldan er mér mikilvæg og áhugamál mín eru m.a. hreyfing, útivera, ferðalög, sjómennska (er með smábátaréttindi), fornleifar, matargerð, menning og listir.

Helstu áherslumál

Hagsmunagæsla hjúkrunarfræðinga fer fram á mörgum vígstöðum og mikilvægt að félagið eigi sterkan talsmann meðal aðildarfélaga og innan stjórnsýslunnar. Þó nú sé í höfn kjarasamningur til næstu fjögurra ára er ástæða til að hefja undirbúning fyrir næstu kjaraviðræður. Laun hjúkrunarfræðinga þurfa að hækka, hækkun grunnlauna er forsenda þess að viðhalda stéttinni og tryggja áfram gott heilbrigðiskerfi til framtíðar. Jákvætt skref var tekið með vörpun í nýja töflu sem styrkir okkur í samanburði til frekari hækkunar grunnlauna. Það er aldrei mikilvægara en nú að standa vörð um menntun, þekkingu og símenntun okkar ásamt skilgreiningu ábyrgðar. Eftirspurn eftir hjúkrunarfræðingum er þegar meiri en framboð og mun aukast, framtíð hjúkrunar er björt og tækifærin mörg.

Mönnunarviðmið í hjúkrun er stórt og brýnt mál sem snýst fyrst og fremst um gæði og öryggi. Ég tel að koma verði á fót embætti yfirhjúkrunarfræðings innan stjórnsýslunnar sem vinni að faglegum málefnum hjúkrunar.

Sérfræðingum í hjúkrun er alltaf að fjölga og þurfum við að halda áfram að hvetja hjúkrunarfræðinga til að mennta sig til sérfræðings, þar eru mikil tækifæri. Vinna er í gangi varðandi þróun hjúkrunarfræðinámsins og skipulag þess til framtíðar. Skoða þarf hvernig best er að haga náminu til samræmis við aðrar háskólastéttir.

Margir menntaðir hjúkrunarfræðingar starfa ekki við fagið. Félagið þarf að stuðla að því að auðvelt sé að endurmennta sig og koma aftur til starfa við hjúkrun. Um 8% starfandi hjúkrunarfræðinga í dag eru af erlendu bergi. Við þurfum að leggja áherslu á íslenskukennslu, kynna starfsmenningu okkar og bjóða upp á leiðtoga- og stjórnunarþjálfun fyrir þennan hóp. Félagsfólk endurspeglar fjölbreytileika samfélagsins, inngilding allra er nauðsynleg til að tryggja jöfn tækifæri.

Persónuleg gildi og styrkleikar

Ég brenn fyrir starfinu okkar, hef ríka réttlætiskennd, er áreiðanleg, sanngjörn, trygg og félagslynd manneskja. Mér er umhugað um velferð og heilsu allra í samfélaginu. Hef góða samskipta- og skipulagshæfni og vinn vel með öðrum. Ég er lausnamiðuð, geng beint í verkefni, á auðvelt með að koma auga á tækifæri og vinna þeim brautargengi. Ég legg metnað minn í að efla samstarfsfólk mitt, greina áskoranir og tækifæri og leysa þau í sameiningu. Ég hef leiðtogahæfileika, hef gott auga fyrir mismunandi þörfum okkar og styrkleikum og leitast við að laða fram það besta í hverjum og einum. Ég hef gott vald á íslensku, dönsku, þýsku og ensku, skil að auki sæmilega sænsku, norsku og frönsku. Ég hef haldið fjölda fyrirlestra og á auðvelt með að koma fyrir mig orði og rökstyðja mál mitt.

Framtíðin er björt

Kæri hjúkrunarfræðingur, ég hvet þig til að veita mér traust og atkvæði til formennsku Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga. Með þínum stuðningi mun ég leggja mig alla fram fyrir stéttina, nýta tækifæri framtíðarinnar og efla enn frekar það góða starf sem þegar er unnið í félaginu.

Frekari upplýsingar um stefnumál mín og áherslur má finna á www.jorunn.is Ef þið hafið spurningar eða viljið heyra mér ekki hika við það. [email protected] Sími: 8245944

Kærar hjúkrunarkveðjur

Jórunn Ósk Frímannsdóttir Jensen