Fara á efnissvæði
Viðtal

Kalla eftir aðgerðum um allan heim

Í nýrri skýrslu Alþjóðaráðs hjúkrunarfræðinga, ICN, er kallað eftir aðgerðum frá stjórnvöldum um allan heim um að bæta stöðu hjúkrunarfræðinga. Pamela Cipriano, forseti ICN, hvetur til fjárfestingar í hjúkrun.

Alþjóðaráð hjúkrunarfræðinga, ICN, hefur gefið út skýrslu í tilefni af alþjóðlegum degi hjúkrunarfræðinga í ár þar sem kallað er eftir aðgerðum frá yfirmönnum heilbrigðismála og stjórnmálamönnum í löndum heimsins.

Kallað er eftir fimm aðgerðum:

1. Valdefla hjúkrunarfræðinga – Nýta þarf betur menntun og þekkingu hjúkrunarfræðinga innan heilbrigðiskerfisins og þróa enn frekar leiðtogahlutverk þeirra.

2. Fjárfesta enn frekar í menntun og störfum hjúkrunarfræðinga – auka þarf fjármagn til menntunar stéttarinnar og skapa frekari tækifæri í starfsþróun innan starfsins.

3. Bæta starfsumhverfi – innleiða þarf raunhæfar aðgerðir til að bæta starfsumhverfið, þ.á.m. fullnægjandi mönnun, aðgang að réttum úrræðum, öruggt starfsumhverfi, stuðning í starfi og velferð.

4. Viðurkenna og launa samkvæmt virði starfsins – tryggja að hjúkrunarfræðingar fái samkeppnishæf laun sem endurspegla færni þeirra, ábyrgð og virði starfsins.

5. Efla hlutverk hjúkrunarfræðinga í samfélaginu -Leggja áherslu á mikilvægi framlags hjúkrunarfræðinga til heilbrigðis fólks með almennri vitundarvakningu og þátttöku í ákvarðanatökum er lúta að heilbrigðismálum þjóðarinnar.

Efnahagslegur ábati að fjölga hjúkrunarfræðingum

Í skýrslunni kemur fram að slæm heilsa kostar alþjóðasamfélagið 15% allrar vergrar landsframleiðslu, skýr tengsl eru á milli slæmrar heilsu og ófullnægjandi heilbrigðisþjónustu.

Pamela Cipriano, forseti ICN, segir skýrsluna varpa ljósi á tengsl efnahags við fjölda hjúkrunarfræðinga. „Við vitum að heilbrigðara fólk skapar meiri hagvöxt en milljónir búa við skort á nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu sem er helst veitt af hjúkrunarfræðingum,“ segir hún í yfirlýsingu á vef ICN. Til þess að ná alþjóðlegum markmiðum um að bjarga milljónum mannslífa og auka lífslíkur þá þarf að fjölga hjúkrunarfræðingum.

„Það sem ríkisstjórnir heimsins þurfa að átta sig á er að fjárfesting í hjúkrunarfræðingum er ekki kostnaður, í raun sparar það kostnað og okkar sérfræðingar telja að með því að hafa heilbrigt þjóðfélag geti það aukið hagvöxt á heimsvísu um allt að 8% eða 12 billjónir Bandaríkjadala.

Færri vilja verða hjúkrunarfræðingar

Núna í viku hjúkrunar kom út skýrsla Efnahags- og framfarastofnunarinnar, OECD, sem sýnir 8% fækkun í hópi stúdenta sem vilja læra hjúkrunarfræði. Þar segir að þrátt fyrir að Covid-19 heimsfaraldurinn hafi sýnt hjúkrunarfræðinga sem hetjur þá hafi hann einnig varpað ljósi á erfiðar starfsaðstæður og slæm launakjör.

Cipriano segir skýrslu OECD valda áhyggjum. „Núverandi staða er afleiðing rótgróinnar og langvarandi skorts á fjárfestingum í hjúkrun, ástand sem ágerðist í heimsfaraldrinum,“ segir hún. „Í stað þess að fjárfesta í hjúkrun með því að bjóða upp á öruggar og viðunandi starfsaðstæður, sanngjörn kjör og tækifæri til að þróa sig áfram í starfi, þá hafa margar ríkisstjórnir ákveðið að snúa sér frekar í þá átt að nýta verr menntaðra starfsfólk eða sækja hjúkrunarfræðinga til annarra landa. Við skulum tala tæpitungulaust, það eru rangar ákvarðanir sem munu skila okkur á rangan stað.“