Kjararáðstefna Fíh fór fram á Hótel Selfossi í byrjun nóvember. Ráðstefnan var ætluð trúnaðarmönnum og öðrum sem koma að gerð kjarasamninga. Tugir trúnaðarmanna af öllu landinu komu saman á Selfossi og lögðu fram gott veganesti í komandi kjaraviðræður.
Miðlægir kjarasamningar flestra hjúkrunarfræðinga losna næsta vor og því mikilvægt að fara vel yfir öll samningsatriði auk þess að heyra sjónarmið frá öllum starfsstöðum hjúkrunarfræðinga. Stóðu trúnaðarmenn að ábyrgri og málefnalegri umræðu um þau fjölmörgu atriði sem koma við sögu í kjarasamningum.
Fyrri daginn var farið í saumana á ýmsum töllfræðilegum gögnum sem liggja fyrir um laun hjúkrunarfræðinga og t.d. annarra háskólamenntaðra stétta á opinberum vinnumarkaði. Skipt var í vinnuhópa til að ræða einstök atriði sem viðkoma kjarasamningum. Guðlaug Rakel Guðjónsdóttir, sérfræðingur í heilbrigðisráðuneytinu, fór yfir vinnuna við gerð mönnunarviðmiða í hjúkrun sem nú er í gangi. Einnig var farið yfir niðurstöður viðhorfskönnunar Fíh og má nálgast þær niðurstöður hér á næstu opnu. Eftir að formlegri ráðstefnudagskrá lauk var boðið upp á kvöldverð og áttu hjúkrunarfræðingar góða stund saman.
Síðari daginn hélt Ragnhildur Vigfúsdóttir markþjálfi bráðskemmtilega vinnustofu um leiðtogahlutverkið. Harpa Ólafsdóttir, sviðsstjóri kjara- og réttindasviðs, hélt að lokum samantekt og sköpuðust mjög líflegar og góðar umræður.
Fljótlega á nýju ári eru fyrirhugaðar fundir með formanni og starfsfólki Fíh um landið í aðdraganda samningana og verða fundardagsetningar auglýstar síðar.
Allir hjúkrunarfræðingar sem láta sig kjaramál varða á sínum vinnustað eru hvattir til að gefa kost á sér til trúnaðarmannastarfa, enda gegna þeir lykilhlutverki þegar línur eru lagðar í ákvörðunum um kjör og réttindi félagsfólks.