Fara á efnissvæði
Frétt

Kjarasamningur við SFV undirritaður

Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga hefur skrifað undir kjarasamning við Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu. Kynningar verða haldnar á mánudag og þriðjudag.

Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga skrifaði undir nýjan kjarasamning við Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu í hádeginu 5. desember 2024.

Kjarasamningurinn er til fjögurra ára og gildir afturvirkt frá 1. apríl 2024 til 31. mars 2028. Í samningnum eru tekin mikilvæg skref til að hækka laun og önnur kjör hjúkrunarfræðinga til samræmis við aðra háskólamenntaða sérfræðinga auk þess sem vinnutími dagvinnufólks verður festur í sessi miðað við 36 klukkustunda vinnuviku. Þá verður starfsmenntunarsjóður efldur og framlag hækkað á samningstímanum. Einnig er lagður grunnur að markvissum stuðningi í vegferð að sérfræðileyfi hjúkrunarfræðinga. Launatöfluauki fylgir með samningnum sem tryggir að launaþróun hjá SFV haldist svipuð og á almennum vinnumarkaði á tímabilinu.

Kynningar

Tvær kynningar verða á samningnum fyrir hjúkrunarfræðinga sem starfa undir samningnum:

Mánudaginn 9. desember kl. 16:30 á Engjateig 9 og kynning með fjarfundi þriðjudag 10. desember kl. 12. Hlekkur á fundinn er aðgengilegur á Mínum síðum.

Atkvæðagreiðsla

Samningurinn tekur gildi ef hann er samþykktur með meirihluta atkvæða. Rafræn atkvæðagreiðsla fer fram á Mínum síðum. Þar má finna nánari upplýsingar.

Á kjörskrá eru hjúkrunarfræðingar sem starfa undir kjarasamningi við SFV og eru með fulla aðild að félaginu, aðrir fá ekki kjörseðil. Ef þú færð ekki kjörseðil en telur þig eiga rétt á því að taka þátt í atkvæðagreiðslunni þá er hægt að hafa samband við kjara- og réttindasvið Fíh, [email protected].