Fara á efnissvæði
Frétt

Kjaraviðræður við ríkið ganga of hægt

Kjaraviðræður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga við ríkið ganga hægar en ástæða er til. Þetta er meðal þess sem kom fram í viðtali við Guðbjörgu Pálsdóttur, formann Fíh, í þættinum Rauða borðið á Samstöðinni í vikunni.

Kjaraviðræður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga við ríkið ganga hægar en ástæða er til. Þetta er meðal þess sem kom fram í viðtali við Guðbjörgu Pálsdóttur, formann Fíh, í þættinum Rauða borðið á Samstöðinni í vikunni. Ásamt henni var Magnús Þór Jónsson formaður Kennarasambandsins í þættinum en það félag skipuleggur nú verkfallsaðgerðir. Kom meðal annars fram hjá Guðbjörgu að ekki væri enn tímabært að vísa kjaraviðræðum hjúkrunarfræðinga inn á borð Ríkissáttasemjara og hún kallaði eftir dýpri viðræðum við samninganefnd ríkisins.

„Við erum enn í samtali þó ég geti ekki farið á dýptina út í það, það gengur núna hægt. Það má fara að slá í klárinn af hálfu þeirra. Við erum mjög vel undirbúin frá því síðasta vetur. Stéttin er orðin mjög óþreyjufull að heyra eitthvað meira en við höfum verið að láta frá okkur,“ sagði Guðbjörg. „Mér finnst ekki ástæða til að vísa, ekki fyrr en það er komin meiri dýpt í umræðuna frá mínum mótaðila.“

Mikil álag er á hjúkrunarfræðingum um þessar mundir líkt og fram kom í viðtali við Ólaf Guðbjörn Skúlason, framkvæmdastjóra hjúkrunar á Landspítala, í kvöldfréttum Stöðvar 2 á fimmtudag. Þar kom fram að starfsemi þeirrar stofnunar væri komin að algjörum þolmörkum og ástæðan fyrir því væri að innviðir heilbrigðiskerfisins hefðu ekki vaxið í samræmi við þarfir samfélagsins. Kallaði Ólafur eftir því að stjórnvöld gerðu gangskör í því að skala kerfið upp.

Í viðtalinu á Samstöðinni sagði Guðbjörg að horft væri til kjarasamnings til fjögurra ára. Á borðinu í dag fyrir háskólamenntaðar stéttir væri 3,25% og 3,5% launahækkun á ári, sagði Guðbjörg það ekki vera nóg í ljósi þess að launabilið milli sérfræðinga og annarra sé að minnka. „Við erum með mjög mörg dæmi um það að fólk sem starfar við hjúkrun eða umönnun er á sambærilegum eða jafnvel hærri launum en hjúkrunarfræðingarnir, sem sitja uppi með ábyrgðina á starfinu öllu saman. Þetta bara gengur ekki,“ sagði hún. „Það er ekki hægt að leggja á borðið annan lífskjarasamning eða rammasamning eins og í fyrra.“ Ekki sé í boði að klappa bara fyrir hjúkrunarfræðingum. „Það þarf að koma eitthvað meira til.“

Frekari fréttir um gang viðræðna munu birtast eftir því sem þær þokast áfram.