Fara á efnissvæði
Frétt

Klæðumst bleiku

Pistill Guðbjargar Pálsdóttur, formanns Fíh, á kvenréttindadaginn 19. júní 2023.

Kæru hjúkrunarfræðingar.

Í dag, 19. júní 2023, er hátíðis- og baráttudagur kvenna á Íslandi, eru nú liðin 108 ár frá því að konur á Íslandi fengu kosningarétt og kjörgengi til Alþingis. Reyndar var þetta bundið við konur 40 ára og eldri en eins og ég þreytist aldrei á að segja gerast breytingar óþarflega hægt og þurftu konur að bíða í þrjú ár í viðbót til að fá sama kosningarétt og karlar.

Í ræðu sinni á þessum degi tilkynnti Ingibjörg H. Bjarnason að næsta baráttumál kvenna á Íslandi væri stofnun Landspítala og ári síðar stofnaði hún ásamt fleiri konum Landspítalasjóð Íslands. Engin fjárframlög bárust frá ríkinu fyrr en eftir að það var byrjað að byggja spítalann. Það þurfti, og það þarf, sterkar konur til að láta hlutina gerast þegar kemur að heilbrigði þjóðarinnar.

Baráttan fyrir jafnrétti kynjanna heldur áfram nú meira en öld frá því að konur fengu að kjósa sér fulltrúa á Alþingi. Einhverra hluta vegna búum við enn við kerfi þar sem hjúkrunarfræðingar eru settir skör lægra í launastigann en aðrar háskólamenntaðar stéttir sérfræðinga.

Þessi galli í kerfinu veldur því að við sem stétt erum enn að langmestu leyti samansett af konum og mætum enn viðmótinu að störf okkar séu ekki jafn verðmæt. Það þarf ekki að tíunda fyrir hjúkrunarfræðingum í hvaða ógöngur þetta hefur leitt heilbrigðiskerfið. Að neita hjúkrunarfræðingum um sanngirni stofnar öryggi sjúklinga í hættu.

Það hefur sýnt sig að jafnrétti kynjanna skilar bestum árangri á vinnustöðum, við höfum rannsóknir sem sýna það svart á hvítu að starfsfólki líður betur á vinnustöðum þar sem hlutfall karla og kvenna er jafnt. Það hefur náðst árangur í því að hvetja karlmenn til að fara í hjúkrun, 96% hjúkrunarfræðinga eru konur. Hlutfall karlmanna hefur aukist um 1% milli ára. Sama ósýnilega afl og neitar okkur um sanngirni kemur í veg fyrir að karlar séu frelsaðir undan gömlum staðalímyndum og fordómum þegar kemur að náms- og starfsvali.

Þetta afl er það sem við erum að berjast við og á þessum degi fögnum við fyrsta stóra áfanganum þegar konum tókst að fá þau sjálfsögðu réttindi að kjósa. Á síðustu árum hefur orðið til sá siður að klæðast bleiku í tilefni dagsins, það geri ég og hvet alla hjúkrunarfræðinga til hins sama.

Gleðilegan kvenréttindadag!