Fara á efnissvæði
Frétt

Konum í Afganistan meinað að læra hjúkrunar- og ljósmóðurfræði

Stjórnvöld í Afganistan meina konum að læra hjúkrunar- og ljósmóðurfræði þrátt fyrir mikinn skort í landinu. ICN kallar eftir að ákvörðunin verði afturkölluð.

Konur sem stunda nám í hjúkrunar- og ljósmóðurfræðum í Afganistan hefur verið vísað úr námi af þarlendum menntamálayfirvöldum. Með þeirri aðgerð er búið að loka á alla mögulega kvenna til að stunda framhaldsnám, stefnir þetta bæði konum og börnum í landinu í hættu. Þetta kemur fram í umfjöllun breska ríkisútvarpsins BBC.

Alþjóðaráð hjúkrunarfræðinga, ICN, harmar þessa stöðu í yfirlýsingu. „Það eru engar réttlætingar á bak við þessa ákvörðun. Þetta eyðileggur vonir þeirra kvenna sem ætluðu sér að verða hjúkrunarfræðingar eða ljósmæður til þess að þjóna sínu samfélagi,“ segir Pamela Cipriano, forseti ICN. „Menntun er leið til að verða sér út um fjárhagslegt sjálfstæði og skiptir sköpum þegar kemur að því að jafna rétt kynjanna.“

Ríkisstjórn Talibana hefur stöðugt þrengt að rétti kvenna í Afganistan frá því stjórnin tók við árið 2021. Til þessa hefur nám í hjúkrunar- og ljósmóðurfræðum í einkaskólum, þá með lagalegum krókaleiðum, verið eina leið kvenna í landinu til að verða sér út um framhaldsmenntun. Samkvæmt bandarísku fréttastofunni NPR geta karlmenn ekki orðið ljósmæður í Afganistan, nú þegar sé þörf á 18 þúsund ljósmæðrum til að tryggja grunnþjónustu.

„ICN hvetur stjórnvöld í Afganistan til að snúa þessari ákvörðun þegar í stað til að mæður, dætur og systur í þeirra landi sé gert kleift að fá þá grunnþjónustu sem þær eiga rétt á,“ segir Cipriano. „ICN hvetur Afganistan til að virða sáttmála Sameinuðu þjóðanna um rétt kvenna og alþjóðasamfélagið til að taka höndum saman til að tala máli kvenna alls staðar.“