Fjölmennasti útifundur Íslandssögunnar fór fram á Arnarhóli á kvennafrídaginn 24. október. Auk þess voru fjölmennir samstöðufundir og viðburðir í tilefni dagsins um allt land. Konur og kvár í höfuðborginni skunduðu á baráttufund í blíðskaparveðri þar sem þess var krafist að kynbundnu og kynferðislegu ofbeldi verði útrýmt og að störf kvenna og kvára verði metin að verðleikum. Baráttuandinn lá í loftinu og samstaðan og stemning sem myndaðist var einstök.
Hjúkrunarfræðingar voru áberandi í kvennaverkfallinu 2023 en vegna þess að störf hjúkrunarfræðinga eru oft ómissandi þá gátu margir þeirra ekki tekið þátt í viðburðum og birtu þess í stað myndir af sér á samfélagsmiðlum undir myllumerkinu #ómissandi.
Kvennaverkfall 24. október 2023!
Við krefjumst leiðréttingar á vanmati „svokallaðra“ kvennastarfa!
Að atvinnurekendur hætti að veita sér afslátt á launum kvenna og kvára!
Við krefjumst sértækra aðgerða til þess að leiðrétta kjör þeirra kvenna og kvára sem lægstar tekjur hafa, því engin á að þurfa að lifa við fátækt!
Við krefjumst þess að launamisrétti og mismunun verði útrýmt!
Að konur og kvár geti lifað af launum sínum og fái tækifæri til að þróast í starfi til jafns við karla!
Að fatlaðar konur og kvár hafi tækifæri til atvinnuþátttöku til að geta bætt kjör sín!
Að menntun og hæfni kvenna af erlendum uppruna sé metin að verðleikum!
Að konum og kvárum verði ekki lengur refsað fjárhagslega fyrir þá ólaunuðu umönnunarábyrgð sem þau axla yfir ævina og gjalda fyrir þegar á lífeyrisaldur er komið.
Að gert verði samfélagslegt átak til að útrýma fordómum gegn fólki með fötlun, hinsegin fólki, fólki af erlendum uppruna og öðrum jaðarhópum.
Við krefjumst þess að karlar taki ábyrgð á við konur og kvár!
Taki ábyrgð á ólaunuðum heimilisstörfum og við umönnun fjölskyldumeðlima!
Taki ábyrgð á ólaunaðri þriðju vaktinni!
Við krefjumst þess að konur og kvár séu ekki í fjárhagslegum fjötrum ofbeldismanna!
Að konur og kvár fái stuðning við að byggja upp fjárhagslegt sjálfstæði eftir að hafa lifað af kynbundið fjárhagslegt ofbeldi!
Við krefjumst réttlætis og réttarbóta fyrir þolendur kynferðislegs og kynbundins ofbeldis!
Að ofbeldismenn sæti ábyrgð og kynfrelsi sé virt!
Að konur og kvár njóti öryggis og frelsi frá ofbeldi og áreitni í vinnunni, heima og í almannarými!
Að kynbundnu og kynferðislegu ofbeldi verði útrýmt!
Við krefjumst þess að stjórnmálin geri kröfur Kvennaverkfalls að forgangsmáli!
STRAX!
VIÐ KREFJUMST AÐGERÐA OG BREYTINGA!
NÚNA!
- Ályktun Kvennaverkfallsins 2023Þátttaka hjúkrunarfræðinga á þessum heimssögulega viðburði fór ekki fram hjá neinum þar sem Guðbjörg Pálsdóttir, formaður félags hjúkrunarfræðinga, hélt þrusuræðu.
Kæru konur og kvár,
Það hefur verið magnað að finna kraftinn um landið allt í aðdraganda dagsins, og enn ótrúlegra að fá að standa hér með ykkur - og finna þennan mikla stuðning.
Við þorum, viljum og getum!
Við erum hér til að krefjast aðgerða.
Aðgerða sem binda enda á hið kynbundna misrétti sem birtist okkur með mismunandi hætti á hverjum einasta degi.
Við, konur og kvár, búum við meiri mótvind en karlar. Það er staðreynd.
Að minnsta kosti 40% kvenna verður fyrir kynbundnu og kynferðislegu ofbeldi í þessari svokölluðu jafnréttisparadís sem Ísland á að vera í dag.
Ofbeldi og áreitni eru ekki einangruð samskipti milli gerenda og þolenda heldur sögulegt, kerfisbundið misrétti og valdaójafnvægi sem er okkur hættulegt - og jafnvel lífshættulegt. Það er hættulegt að vera kona – og það er enn hættulegra að vera kona af erlendum uppruna, fötluð eða trans kona.
Sama kerfisbundna valdaójafnvægið veldur líka gífurlegu vanmati á störfum kvenna, hvort sem það er á vinnumarkaði eða heima fyrir. Þetta vanmat hefur bein áhrif á fjárhagslegt öryggi okkar og gerir það að verkum að stórir hópar kvenna búa ekki við fjárhagslegt öryggi, þrátt fyrir að vinna fullt starf.
Þess vegna segjum við saman – fokk feðraveldið! Má ég heyra í ykkur – aftur – fokk feðraveldið!! og einu sinni enn svo ekki fara framhjá neinun! – FOKK FEÐRAVELDIÐ!
-----
Ég hef lengi tilheyrt stórri kvennastétt. Og það sem einkennir störf okkar, rétt eins og öll önnur kvennastörf, er að þau fela gjarnan í sér persónuleg samskipti, mikla ábyrgð og tilfinningalegt álag þar sem hlaupið er hratt og sköpuð eru óáþreifanleg verðmæti.
Það er engin tilviljun að t.d. umönnunar- og menntastörf séu svona illa launuð, eða að þetta séu störfin sem er erfiðast að fá fólk til að starfa við - sem leiðir til þess að of fá standa vaktina, starfsmannavelta er mikil og álagið sligandi.
En þetta eru m.a. störfin sem halda velferðarsamfélaginu okkar gangandi á hverjum degi - eins og sást svo glöggt í COVID faraldrinum – og núna, þegar ekki allir hafa tækifæri til að taka þátt hér í dag, þar sem við erum ómissandi. Og fyrir ykkur sem eruð á vaktinni: við erum hér í dag fyrir okkur ÖLL.
Vinna kvenna er oft ósýnleg og vanmetin, hvort sem um er að ræða launaða vinnu eða ólaunaða. Við sinnum eldra fólki, börnum, fötluðu fólki og veiku. Svo komum við heim og önnumst börnin, ættingjana og heimilið. Og þegar fyrstu og annarri vaktinni loksins lýkur, þá tekur sú þriðja við. Sem margir karlar viðurkenna ekki einu sinni að sé til!
Ofan á þetta allt saman bætist svo andlegt eða líkamlegt kynbundið ofbeldi eða áreitni.
Kallarðu þetta jafnrétti?
-----
Mig langar að vitna í eina helstu baráttukonu okkar fyrir réttindum kvenna, Bríeti Bjarnhéðinsdóttur: „ í þjóðfjelaginu fer margt aflaga sem karlmennirnir hafa hvorki haft vit nje vilja til að skilja eða þótt hentugleikar til að laga. Nýir, breyttir tímar eru upprunnir, sem útheimta nýjan hugsunarhátt, menningu og stjórn“. Þetta sagði Bríet fyrir 105 árum síðan og á vel við enn þann dag í dag. 105 ár!
Hættum að tala um það sem hefur áunnist síðan þá, tölum í staðinn um það sem eftir stendur og klárum dæmið!
Við erum margar – við erum mörg. Við sættum okkur ekki við að búa í ofbeldissamfélagi sem vanmetur störf kvenna á kerfisbundinn hátt.
Við krefjumst samfélags sem greiðir laun í samræmi við þau verðmæti sem störfin skapa, sem tryggir konum og kvárum öruggt og heilsusamlegt vinnuumhverfi, og tryggir fólki jafna möguleika í lífinu. Samfélags þar sem karlmenn sinna annarri og þriðju vaktinni til jafns við okkur, og þar sem gerendur eru látnir sæta ábyrgð á gjörðum sínum.
En þótt baráttan virðist stundum erfið – og það geti reynst auðveldara fyrir okkur í daglegu amstri að horfa fram hjá misrétti sem við búum við eða sjáum í kringum okkur – þá getum við saman fært fjöll.
Það sáum við á Kvennafrídaginn 1975. Og það sjáum við hér í dag – og það ætlum við að gera!
Áfram stelpur!
Áfram stálp!
- Guðbjörg Pálsdóttir, formaður Fíh, á Arnarhóli.73% hlynnt kvennaverkfallinu
Um 73% Íslendinga voru hlynntir verkfallsaðgerðum Kvennaverkfallsins. Marktækur munur voru á afstöðu eftir kyni. Um 87% kvenna voru hlynnt verkfallsaðgerðum í samanburði við um 59% karla. En tæp 26% karla voru hvorki hlyntir né andvígir á meðan 15% karla voru andvígir, samanborið við um 3,5% kvenna
Þetta kemur fram í könnun sem Prósent framkvæmdi dagana 30. október til 9. nóvember. Þar fengu 2.300 Íslendingar kost á að taka þátt í könnuninni, þó aðeins 51% þeirra svöruðu.
Í ljós kom að 26,7% kvenna hefði mætt á fundinn á Arnarhóli, 8,6% mætt á fund annars staðar á landinu en 64,8% ekki mætt á samstöðufund.
Um 66% þjóðarinnar voru sammála fullyrðingunni að Kvennaverkfallið muni hafa jákvæð áhrif á réttindabaráttu kvenna og kvára, 22% eru hvorki sammála né ósammála og 12% eru ósammála. Marktækur munur var eftir kyni þátttakanda. Tæp 79% kvenna eru sammála fullyrðingunni í samanburði við rúm 54% karla.