Fara á efnissvæði
Viðtal

Lætur verkin tala

Eftir að hafa verið stjórnandi á Landspítala í yfir tvo áratugi og farið í gegnum fjölmargar skipulagsbreytingar, ákvað Guðlaug Rakel Guðjónsdóttir að róa á ný mið og nýta reynsluna til að halda áfram að byggja upp heilbrigðisþjónustu í landinu. Hún er óhrædd við að fara ótróðnar slóðir, er metnaðardrifin og hefur sinnt ýmsum stjórnunarstörfum innan heilbrigðskerfisins. Lengst af á Landspítala þar sem hún bar ábyrgð á stefnumótun, þjónustu, mannauðsmálum, fjármálum og rekstri. Guðlaug Rakel var til í spjall um lífið og tilveruna, nýja starfið á Suðurnesjum og Kilimanjaro sem hún ákvað að klífa í sumar.

Viðtal og myndir: Sigríður Elín Ásmundsdóttir

Eftir að Guðlaug Rakel sagði skilið við Landspítala starfaði hún í eitt ár í heilbrigðisráðuneytinu áður en hún tók við starfi forstjóra HSS. Þar tók hún að sér það mikilvæga, og samkvæmt henni sjálfri, skemmtilega verkefni að vinna að mönnunarviðmiðum í hjúkrun. „Skýrslunni með niðurstöðum þeirrar vinnu hefur verið skilað og í framhaldinu mun vonandi koma eitthvað gott út úr því sem nýtist til að auka gæði þjónustunnar og tryggja öryggi sjúklinga.“ Guðlaug Rakel segir að ekki sjái fyrir endann á mönnunarvandanum, ýmislegt geti þó komið til hjálpar eins og til að mynda fjarheilbrigðisþjónusta: „Við getum nýtt tæknina betur en við gerum í dag. Þetta er flókið og að mínu viti þurfum við að horfa á áskorunina í mönnum út frá teyminu í kringum sjúklinginn, við þurfum að horfa meira á það og hvað við getum gert til að nýta sem best fagþekkingu hvers og eins starfsmanns,“ segir hún og við förum út í aðra sálma.

Guðlaug Rakel er að búin að vera í námi, eða réttara sagt verið í samstarfi, við Florence Nightingale Foundation í Bretlandi. „Ég er þeirrar gæfu aðnjótandi að vera í alþjóðlegri samvinnu hjá þeim. Þetta er ekki formlegur skóli í þeim skilningi heldur stuðningur í verkefnum og kjörinn vettvangur til að komast í kynni við frábært fagfólk. Þessi reynsla hefur sannarlega víkkað sjóndeildarhringinn og við eigum að vera duglegri að nýta okkur það sem aðrir hafa gert vel og aðlaga það svo að okkar samfélagi og okkar þörfum. Við þurfum ekki alltaf að finna upp hjólið, horfum meira til þeirra sem gera vel, lærum af þeim og nýtum okkur það,“ segir hún og fær sér kaffisopa.

Leitar lausna og leiða til að þjónusta þegna heilbrigðiskerfisins betur

Guðlaug Rakel útskrifaðist úr hjúkrunarfræði árið 1986 eða sama ár og leiðtogafundur risaveldanna var haldinn í Höfða. Hún bætti við sig diplómanámi og mörgum árum síðar, eða árið 2002, skellti hún sér í MBA-nám og námsþorstinn lætur greinilega reglulega á sér kræla því hún skráði sig svo í doktorsnám fyrir nokkrum árum þar sem hún skoðaði komur á bráðamóttökur og áhrif efnahagshrunsins á heilsu og líðan fólks. Aðspurð hvort hana langi að enda sinn feril sem háskólakennari og miðla þekkingu til verðandi hjúkrunarfræðinga segir hún svo ekki vera. Hún hafi verið stundakennari við Háskóla Íslands síðan árið 1989 og láti það duga. Það gustar af henni, hún segist vera markmiðadrifin og að það henti sér vel að standa í miðjum stormi og finna lausnir og leiðir til að þjónusta þegna heilbrigðiskerfisins betur. Það á því betur við hana að láta til sín taka á öðrum vettvangi en innan veggja háskólasamfélagsins.

Guðlaug Rakel Guðjónsdóttir tók við starfi forstjóra HSS í mars á þessu ári.

Ekki gera ekki neitt

Guðlaug Rakel hefur eins og áður segir verið stjórnandi í heilbrigðiskerfinu í yfir tuttugu ár og fengið margar viðurkenningar fyrir störf sín á þessum vettvangi í gegnum árin. Finnst henni mikið hafa breyst á þessum árum síðan hún mætti fyrst til leiks eftir útskrift úr hjúkrun? „Já, það hefur mjög margt breyst á þessum tíma. Ég hef fylgst með þróun heilbrigðiskerfisins og hef skoðanir á því hvernig hlutirnir hafa þróast, sumt hefur þróast til betri vegar og annað síður eins og gengur. Eitt af því sem við þurfum að minna okkur stöðugt á er fagmennska og fagvitund. Það er ekki einfalt að útskýra það en sumt í umhverfinu okkar er lært atferli og jafnvel skynjar maður stundum lært hjálparleysi, það gerist nefnilega ekkert af sjálfu sér. Þá á ég við þegar finna þarf lausnir eða bregðast við og finna leiðir. Með því að ræða hlutina og koma með hugmyndir að lausnum þá verða til nýjar leiðir. Það að taka ekki afstöðu eða taka ekki þátt er ekki val að mínu mati, ekki gera ekki neitt.“

„Ég hef oft velt því fyrir mér hvort við séum að horfa á leiðtogaskort í samfélaginu og þá líka í hjúkrun. Það er erfitt að festa hönd á ástæðunni en það hefur margt breyst sem hefur kannski orðið til þess að fólk stígur frekar til hliðar en að taka forystu. Líkleg skýring er einnig að fólk skorti hugrekki, hvatningu og stuðning. Það hafa orðið margar sameiningar og skipuritsbreytingar hjá heilbrigðisstofnunum sem eiga eflaust sinn þátt í þessari þróun.“ Og talið berst að sameiningu Sjúkrahúss Reykjavíkur og Ríkisspítala árið 2000 sem Guðlaug Rakel kom að, hvernig gekk sú sameining? „Hún gekk að mestu leyti vel en árið 2009 varð síðan grundvallarbreyting á skipuritinu, skipulagi fagstétta.“ Samfélagið á Íslandi hefur líka breyst mikið á undanförnum árum og hún segir að heilbrigðisþjónustan hafi jafnvel ekki fylgt þeirri breytingu nógu vel eftir. Sjúkrahús og heilbrigðisstofnanir séu í eðli sínu mjög íhaldssamar sem getur hæglega verið þrándur í götu.

Guðlaug Rakel tók við sem forstjóri HSS í mars á þessu ári. Samfélagið á Suðurnesjum er um margt frábrugðið því sem er á höfuðborgarsvæðinu, varðandi samsetningu íbúa til að mynda. Á hvaða hátt vinnur hún með það í sínu starfi sem forstjóri? „Ég horfi mjög til þessa í þeim ákvörðunum sem teknar eru. Ég var til dæmis á fundi á vegum Embættis landlæknis í Grindavík fyrir stuttu þar sem verið var að birta nýja lýðheilsuvísa og þar sést að samfélagið sker sig úr varðandi ýmsa þætti samanborið við önnur heilbrigðisumdæmi. Hérna eru til dæmis hlutfallslega fleiri sem telja líkamlega og/eða andlega heilsu sína vera sæmilega eða lélega, það er hærra hlutfall sem leitar sér ekki heilbrigðisþjónustu vegna kostnaðar og það eru hlutfallslega færri sem sinna skimunum við krabbameinum heldur en í öðrum umdæmum. Við sjáum líka breytingu í nýútgefnum lýðheilsuvísum, núna er meiri þunglyndislyfjanotkun meðal fólks sem er 18 ára og yngra og ég held að við þurfum að vera mjög vakandi fyrir þessum breytingum sem lýðheilsuvísarnir eru að segja okkur varðandi líðan fólks. Ég vil að við reynum eins vel og við getum að nálgast fólk þar sem það er statt, það eiga allir sama rétt á þjónustu og það þarf að koma þeim upplýsingum til fólks. Ég vil að við finnum leiðir til að bæta aðgengi að þjónustunni og eins að finna leiðir til að bæta þjónustuna, til að mynda með því að finna leiðir til að auka skimanir við krabbameinum. Nú erum við úti í miðri á, erum í mikilli stefnumótunarvinnu og erum langt komin með þá vinnu, við sjáum til lands.“

Guðlaug Rakel segir að liður í þeirri vinnu hafi verið að halda fundi með starfsfólki stofnunarinnar og íbúum til að fá betri mynd af því sem vel er gert og hvað megi bæta til að auka traust til stofnunarinnar, þannig að hún verði til fyrirmyndar. „Það er okkar samfélagslega ábyrgð að mæta fólki þar sem það er, þessi stefnumótunarvinna verður birt í nóvember og við munum svo nýta hana til að bæta þjónustuna.“

Er einhver óvænt áskorun sem hefur mætt þér hér á nýjum vinnustað? „Í rauninni ekkert sem kom á óvart en mér finnst frábært hvað stofnunin býr yfir miklum mannauði, hér starfar frábært fagfólk og mín upplifun er sú að starfsfólkið vill gera vel og láta hlutina ganga.“

Gríðarlega mikilvægt að hafa sérfræðinga í hjúkrun á HSS

Og þar sem við erum farnar að ræða fagmennsku og mannauðinn er ekki úr vegi að spyrja Guðlaugu Rakel hvort margir sérfræðingar í hjúkrun starfi á HSS? „Við vorum nýlega að ráða fyrsta sérfræðinginn í hjúkrun á HSS og ég kann satt best að segja ekki skýringar á því hvers vegna það var ekki gert fyrr. Í framhaldinu auglýstum við stöðu sérfræðings í bráðahjúkrun en ég tel gríðarlega mikilvægt að sérfræðingar í hjúkrun séu starfandi á þessari heilbrigðisstofnun.“

Stundum þarf hugrekki til að takast á við hlutina. Og það fer ekki milli mála að Guðlaug Rakel veigrar sér ekki við að taka ákvarðanir. Sumir segja að það sé kalt á toppnum, það sé gjarnan fylgifiskur þess að vera í stjórnunarstöðu, ertu sammála því? „Já, það getur verið það alveg sama hvar maður er þá er það nú oft þannig að það segjast allir vilja breytingar en það er samt enginn tilbúin að breyta hjá sér og þar með taka raunverulegan þátt í ákvörðunum og innleiðingu breytinga. Staðan er sú að þessi stofnun er rekin með halla og það þarf að gera breytingar og fara vel með það fé sem við höfum. Reyna að nýta það sem allra best í þágu þeirra sem þiggja þjónustuna, það er mitt hlutverk að gera það.“

Guðlaug Rakel fór í magnað ferðalag upp á Kilimanjaro

Mögnuð upplifun að standa á toppi Kilimanjaro

Guðlaug Rakel hikar aldrei meðan við spjöllum saman, það verður ekki um villst að þetta er eldklár stjórnandi sem veigrar sér ekki við að láta skoðanir sínar í ljós og býr yfir hugrekki til láta til sín taka. En hvaðan kemur þessi seigla og þetta hugrekki, hvaða lífsreynsla hefur mótað hana mest? „Mér finnst ekki auðvelt að svara því, mótunin á sér stað allt æviskeiðið; öll lífsreynsla og allt það sem lífið býður upp á gerir mann að því sem maður er. Ég er mjög meðvituð um það að láta reynsluna vera mér lærdóm og styrkja mig. Ég held til dæmis að það hafi mótað mig, meira en ég hef gert mér grein fyrir, þegar ég var á Barnaspítala Hringsins, þá var ákvörðun tekin að vinna í heilbrigðiskerfinu og þar voru mínar fyrirmyndir. Ég hef alltaf verið mjög viðbragsmiðuð og það hentar mér bara ekki að sitja á hliðarlínunni, það er að segja ef ég hef eitthvað til málanna að leggja. Ég þarf alltaf að hafa eitthvað að moka sem er eflaust ástæðan fyrir því að ég fer í stjórnunarstöðu. En ég viðurkenni að ég sakna sjúklinganna og myndi helst vilja getað tvinnað þetta saman,“ svarar hún einlæg. Það er ákveðið markmið og eflaust finnur hún einhverja leið til að ná því.

Talið berst þá að öðru markmiði, himinháu markmiði sem Guðlaug Rakel átti ekki endilega von á að ná. Segðu okkur frá Kilimanjaro-ævintýrinu? „Þetta kom þannig til að vinkona mín hafði gengið í grunnbúðir á Everest og langaði mikið að fara á Kilimanjaro og fá mig með. Ég hugsaði mér mér að það væri annaðhvort að fara núna eða aldrei og úr varð að við fórum fjórar saman en við vorum allar saman í MBA-náminu í gamla daga. Við fórum á vegum Fjallafélagsins og þetta var einstök lífsreynsla. Maður hefur allan heimsins tíma til að hugsa á leiðinni upp fjallið. Það er alls óvíst hvernig líkaminn bregst við svona þunnu lofti. Ég setti mér því það markmið að ná upp í fyrstu búðir og ef líkaminn myndi þola það og ekki veikjast myndi ég halda áfram upp í aðrar búðir og verða glöð með að ná því,“ útskýrir hún og sækir viðurkenningarplagg sem hún fékk fyrir að komast alla leið upp á toppinn og sýnir blaðamanni það meðan hún heldur áfram með söguna af fjallaferðinni stórkostlegu. „Við vorum þarna tíu manna hópur sem fór saman upp en með okkur voru rúmlega fjörtíu fylgdarmenn sem sáu um allt fyrir okkur. Þeir báru tjöld og allt okkar dót, ég þurfti bara að hugsa um að koma sjálfri mér upp fjallið og átti meira en nóg með það. Ég átti erfitt með að horfa á fólk vera að bera dótið okkar og fann skömmustutilfinningu.

Guðlaug Rakel, ásamt tveimur fylgdarmönnum sem fóru upp fjallið með hópnum

Það sem var eftirtektarvert var að þau sem fylgdu okkur voru svo ótrúlega nægjusöm og lífsglöð og vildu allt fyrir okkur gera til að við kæmumst upp á topp, okkar sigur var þeirra sigur. Ég geng frekar hægt að eðlisfari, næstum aftur á bak, og minn einkaleiðsögumaður sagði alltaf við mig every step is a golden step, hann var mér mikil hvatning að fara alla leið upp. Síðasti göngudagurinn byrjaði í myrkri um miðnætti en það er til að upplifa sólarupprásina. Það var alveg mögnuð upplifun, einstök birta, maður verður meyr og upplifir sig svo smáan í þessu stóra umhverfi. En þar sem ég gekk hægar en hinir í hópnum var ég síðust upp. Vinkona mín hélt að ég hefði snúið við og átti ekki von á mér en þegar hún sá mig koma og nálgast toppinn hentist hún af stað niður til að taka á móti mér, það var ekki eins og hún væri í tæplega 6.000 metrum. Þetta var mjög tilfinningaþrungin stund þegar við hittumst þarna og fórum síðustu metrana saman upp á topp.“

Guðlaug Rakel segir erfitt að koma því í orð hvernig upplifun það hafi verið að vera á toppnum, það hafi verið algjörlega magnað en tekur fram að ferðalagið sjálft hafi verið ótrúlega gefandi lífsreynsla. „Þessi auðmýkt, gleði, einlæga umhyggja og ríka þjónustulund heimamanna sem fylgdu okkur hafði mikil áhrif á mig. Svo kemur maður heim og það er umhugsunarefni, ef við getum orðað það þannig, hvað við höfum það í rauninni gott en kunnum varla að meta það.“

Viðkvæm og flókin áminningarmál erfiðust

Sem forstjóri heilbrigðisstofnunar kemur óhjákvæmlega ýmislegt upp á, mál sem krefjast úrlausnar eða flóknar óvæntar aðstæður. Hvaða bjargráð nýtir Guðlaug Rakel sér á slíkum stundum? „Ég er í verunni mjög lokuð en hef tamið mér að hugsa hlutina út frá ólíkum hliðum og reyni að skilja hvers vegna hlutir eru með þeim hætti sem raun ber vitni. Mér finnst ekki erfitt að snúa við eða breyta ákvörðun ef ég kemst að þeirri niðurstöðu að ég gerði mistök,“ segir hún. Eftir smá umhugsun bætir hún við: „Það sem hefur reynst mér erfiðast að takast á við á mínum ferli eru áminningarmál, sérstaklega þau sem snúa að fíknivanda þar sem starfsmaður hefur til dæmis verið að misnota lyf eða önnur vímuefni. Það sem mér finnst erfiðast við þau mál er að það er bara toppurinn á ísjakanum. Það er alvarlegt ef ekki er brugðist við í þessum málum ef staðfastur grunur er um slíkt, það er mjög alvarleg vangá og meðvirkni en þetta eru mjög viðkvæm og flókin mál.“

Hún segir það besta við starfið vera að sjá starfsfólk vaxa í verkefnum, sérstaklega þegar fólk telur sig ekki ráða við verkefnið en leysir það síðan. „Mér finnst ofboðslega gaman að vinna með fólki sem er tilbúið að dýfa höndunum ofan í vatnið og ganga í verkefnin; gera það sem gera þarf. Mér finnst frábært að sjá þegar markmiðin nást og það verður ávinningur fyrir starfsemina. Ég hef alla tíð verið markmiðadrifin og líklega meira með árunum, ég er líka meðvituð um að svo lengi lærir sem lifir og ég reyni alltaf að gera aðeins betur eða aðeins meira en ég held að ég geti. Það þýðir samt ekki að maður þurfi alltaf að klífa hæsta fjall Afríku,“ segir hún og hlær.

Árin á Grensás mikil eldskírn

Við förum aftur í tímann, allt til ársins 1998, þegar Guðlaug Rakel tók við Grensás. „Það var í raun mitt fyrsta stjórnunarstarf og má segja að árin þar hafi verið mikil eldskírn. Ég fékk gott veganesti frá framkvæmdarstjóra hjúkrunar sem þá var, Sigríði Snæbjörnsdóttur, sem sagði við mig að ef ég myndi ekki gera mistök þá væri ég líklega ekki að gera neitt. Með þessa setningu í huga var tekist á við verkefnið með góðu fólki. Grensás hafði verið í margs konar erfiðleikum og það voru fáir sjúklingar og mitt verkefni var að koma Grensás í rekstur eða einfaldlega loka. Rúmlega ári seinna var staðan orðin önnur. Grunnurinn var góður, frábært starfsfólk, ég sá ekki miklar hindranir og fannst líka svo sjálfgefið að einstaklingar sem þyrftu á endurhæfingu að halda gætu leitað á Grensás. Mitt markmið var því bara að efla Grensás, mér þykir mjög vænt um að sjá hvað það hefur gengið vel undanfarin ár og vona að fólki beri gæfu til að viðhalda því góða og faglega starfi sem þar er unnið,“ segir hún.

„Í grunninn snýst starfið alltaf um þjónustu við skjólstæðinga; sjúklingurinn á alltaf að vera í öndvegi og það þarf að taka allar ákvarðanir með hann efst í huga. Þess vegna þykir mér svo gott að leita í lýðheilsuvísa Embættis landlæknis og eiga samtal við íbúa. Mér finnst mikilvægt að bjóða upp á þetta samtal og heyra skoðanir íbúa á þjónustu HSS. Við þurfum fyrst og fremst að bjóða upp á öfluga heilsugæslu, góða heimahjúkrun og almenna spítalaþjónustu. Þetta er allt til staðar en það má alltaf bæta um betur og það er markmiðið. Þetta er stórt samfélag, í þessu heilbrigðisumdæmi búa rúmlega 30 þúsund manns og það er aukin ásókn í að flytja hingað,“ segir Guðlaug Rakel og ljóst að það eru næg verkefni fram undan og það passar markmiðadrifna forstjóranum vel sem segir að það henti sér best að bretta upp ermar og láta verkin tala.

Að lokum hvernig sérðu fyrir þér að hjúkrun muni þróast á næstu árum? „Ég vona að hún þróist í þá átt að vera enn sjúklingamiðaðri. Við þurfum að horfa á hjúkrunina, eins og allt annað í heilbrigðiskerfinu, út frá sjúklingnum. Í stað þess að horfa á upplifun fagfólksins á starfinu að horfa meira á upplifun sjúklinga á þjónustunni, þar fáum við svörin við því hvað má bæta.“

Guðlaug Rakel segist meðvitað reyna að njóta hvers dags en viðurkennir að hún þurfi að læra að slaka á og gera ekki neitt, „það er mín stærsta áskorun,“ segir hún brosandi. Talið berst að fjölskyldunni en Guðlaug Rakel á eiginmann, þrjár dætur og sjö barnabörn. „Við erum öll ólík, það verður hver að fljúga eins og hann er fiðraður,“ segir hún að lokum.