Staða hjúkrunarfræðinga á Íslandi er góð. Íslenskir hjúkrunarfræðingar eru vel menntaðir og hæfir, þeir geta valið úr störfum og geta auðveldlega fengið vinnu hvar sem er í heiminum. Það sama á ekki við um heilbrigðiskerfið sem vantar sárlega hjúkrunarfræðinga og þarf að keppa um þá við einkageirann og útlönd.
Það eru mikil tækifæri á Íslandi. Við eigum marga hjúkrunarfræðinga sem eru starfandi utan heilbrigðiskerfisins og tækifærið felst í að lokka þá til starfa aftur. Það er hægt að gera með góðum launum, aðlögun og þjálfun við hæfi og síðast en ekki síst öruggu vinnuumhverfi og staðfestu þess að eiga ekki á hættu að verða dreginn fyrir dómstóla ef upp kemur atvik í starfi.
Það er hægt að gera breytingar til að láta dæmið ganga upp. Stjórnvöld standa frammi fyrir því stóra tækifæri að gera hjúkrunarfræðinga ánægða og örugga í starfi.
Öryggi ofar öllu
Hjúkrunarfræðingar eru ábyrg stétt sem ber ábyrgð á hjúkrun allra sjúklinga landsins. Mannekla orsakar, því miður, að stundum þarf að framlengja þessa ábyrgð til ófaglærðra, oft ættingja, sem settir eru í erfiða stöðu. Það kostar ríkið og samfélagið mikið að reka heilbrigðiskerfið og það kostar mikið að missa hjúkrunarfræðinga úr starfi. Það kostar átak að fá hjúkrunarfræðinga til starfa og það þarf að gera allt til að halda þeim í starfi. Það er gert með góðu og öruggu starfsumhverfi. Hér er ekki hægt að miða við lögmál framboðs og eftirspurnar, það þarf meira til.
Í nýlegri skýrslu Kaupmannahafnarháskóla er rætt við hátt í fimm hundruð hjúkrunarfræðinga sem hafa sagt skilið við danska heilbrigðiskerfið, ástæðan fyrir því er yfirleitt að þeim leið ekki vel í vinnunni. Álag er of mikið, yfirsýn of lítil, erfitt að einbeita sér í vinnunni, sinna skyldum sínum og ná að skila vaktinni sáttur.
Við sjáum sömu stöðu uppi hér á landi. Í niðurstöðum kjarakönnunar Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga frá því í fyrra kemur fram að hjúkrunarfræðingum hér á landi þykir vænt um starfið sitt og vilja helst starfa áfram í íslenska heilbrigðiskerfinu. Á sama tíma er meira en helmingur þeirra alvarlega að íhuga að hætta.
Það er mikilvægt að gera nákvæma greiningu á þeim hópi sem hefur klárað nám í hjúkrunarfræði en starfar í dag utan heilbrigðiskerfisins. Út frá þeim upplýsingum þarf að fara í markvissa vinnu við að ná þeim til vinnu innan heilbrigðiskerfisins. Þar er mikilvægast að borga samkeppnishæf laun, tryggja aðlögun, þjálfun og öryggi á vinnustaðnum. Þetta er hægt en það þarf sameiginlegt átak til.
Ósjálfbær staða
Nú þegar liggja fyrir skýrslur um hvaða lausnir eru í boði, það er auðvelt að sækja innblástur erlendis frá þar sem þegar hefur átt sér stað mikil greiningarvinna. Það þarf að breyta lögum um refsiábyrgð. Mönnunarviðmið eru nokkuð sem við verðum að taka upp, sama á við um gæðaviðmið. Við erum rík þjóð og eigum að leggja metnað okkar í að tryggja góða þjónustu og góð starfsskilyrði. Samhliða þurfum við að skoða fjölbreytt þjónustuform, vera óhrædd við að prófa og leyfa nýjungar og hugsa út fyrir boxið.
Staðan í dag er ekki sjálfbær, það er þegar verið að forgangsraða í kerfinu og hjúkrunarfræðingar hlaupa af vakt með lista sem þeir hafa ekki náð að klára. Það er það sem slítur fólki og gerir að verkum að það fer annað.
Ef ekkert verður að gert mun heilbrigðisþjónustan í landinu einungis snúast um að slökkva elda. Það er bæði nauðsynlegt og tímabært að fara að vinna að mismunandi sviðsmyndum heilbrigðisþjónustunnar eftir tíu ár og gera okkur grein fyrir því hvað þarf til að halda uppi góðri þjónustu. Þannig er hægt að standa vörð um heilbrigðiskerfið. Leggjumst saman á árarnar og gerum það sem þarf.