Kæru hjúkrunarfræðingar.
Við náðum sögulegum kjarasamningum í lok síðasta árs þar sem m.a. voru tekin mikilvæg skref í mögulegum samanburði hjúkrunarfræðinga við aðra háskólamenntaða sérfræðinga í sambærilegum störfum. Nú vinnum við að endurnýjun stofnanasamninga og legg ég allt kapp á að hún klárist fyrir sumarið. Strax í desember endurnýjuðum við stofnanasamninga við Landspítala og Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og starfa þar um 70% hjúkrunarfræðinga. Við erum nú í viðræðum við allar aðrar heilbrigðisstofnanir landsins, auk þriggja stærstu fyrirtækjanna innan Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu. Samtölin eru misjafnlega langt á veg komin en sérstök áhersla er m.a. lögð á að komið verði á starfsþróunarkerfi fyrir hjúkrunarfræðinga á öllum stöðum.
Samhliða þessum viðræðum erum við að ferðast um landið, funda með hjúkrunarfræðingum og taka samtalið um hvað helst brennur á ykkur núna en það er umræða sem alltaf hefur gefið mér mikilvægt veganesti inn í starfið og áframhaldandi starfsemi félagsins.
Undirbúningur nýs Starfsþróunarseturs fyrir hjúkrunarfræðinga er einnig langt kominn og mun hann taka við af starfsmenntunarsjóðnum, væntanlega fyrir sumarið. Starfsþróunarsetrið mun gefa enn frekari tækifæri til endur- og símenntunar fyrir hjúkrunarfræðinga og var mikið baráttumál hjá okkur að ná inn í nýgerðum kjarasamningum.
Í febrúar héldum við trúnaðarmannaráðstefnu þar sem trúnaðarmenn hjúkrunarfræðinga af öllu landinu hittust á Selfossi á tveggja daga ráðstefnu þriðja árið í röð. Við eigum gríðarlega öfluga trúnaðarmenn sem eru tengiliðir félagsins við starfandi hjúkrunarfræðinga. Stöðugt þarf að standa vörð um réttindi okkar í daglegum störfum og því er brýnt að alltaf sé hægt að leita til trúnaðarmanns. Ráðstefnan var mjög góð og allir sammála um að hún verði áfram árlegur viðburður þar sem af nógu er að taka í réttindabaráttunni og bráðnauðsynlegt að hittast til að stilla saman strengi.
Nýr formaður
Framundan eru líka breytingar hjá félaginu þar sem ég mun láta af embætti formanns eftir rúmlega 9 ára starf á aðalfundi félagsins sem haldinn verður 15. maí næstkomandi. Eftir mjög góða kosningabaráttu á milli þriggja öflugra frambjóðenda var Helga Rósa Másdóttir kjörin næsti formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga og óska ég henni innilega til hamingju með kjörið. Var það virkilega gaman að sjá svo mikla þátttöku í kosningunni og raun bar vitni og veitir það Helgu Rósu sterkt umboð til að stýra félaginu áfram inn í framtíðina. Enn og aftur finnst mér þetta endurspegla samstöðu og kraft hjúkrunarfræðinga sem láta störf félagsins sig varða. Svo er ekki alls staðar.
Aðalfundurinn verður haldinn 15. maí næstkomandi á Hilton Reykjavík Nordica. Það eru fjölmörg tækifæri til að hafa áhrif og taka þátt í starfsemi félagsins. Ég hvet alla hjúkrunarfræðinga til að bjóða sig fram í stjórn eða þær fjölmörgu nefndir og ráð sem eru starfandi innan félagsins. Framboðsfrestur er til og með 17. apríl þannig að þið hafið enn góðan tíma til að hugsa málið.
Ég hlakka til að sjá ykkur sem flest á fundum okkar um landið á næstu vikum.