Texti og myndir: Sigríður Elín Ásmundsdóttir
Göngudeild þvagfæraskurðlækninga er einstök, þar fer fram öflug starfsemi og framþróun í meðferð sem hefur leitt til þess að legudögum sjúklinga hefur fækkað. Hulda Pálsdóttir er hjúkrunardeildarstjóri á göngudeild þvagfæraskurðlækninga, sem í daglegu tali er kölluð deild 11A. Hún er einstaklega jákvæð, segir að fjölbreytni í meðferðarúrræðum fyrir sjúklingahóp deildarinnar hafi aukist og að öflugar göngudeildir geti bætt flæðið á spítalanum. Við fengum Huldu í viðtal um starfsemi deildarinnar en byrjuðum á því að spyrja hana hvar hún hafi starfað áður.
Hulda útskrifaðist sem hjúkrunarfræðingur árið 1999, starfaði til að byrja með á gjörgæslu á Landspítalanum og flutti svo til Danmerkur þar sem hún starfaði einnig á gjörgæsludeild. Hulda flutti svo aftur heim til Íslands og starfaði þá við sölu og markaðssetningu á lyfjum á Íslandi og lauk á sama tíma meistaranámi frá HÍ í stjórnun og stefnumótun.
„Þá vaknaði áhugi minn á hugtakinu vinnustaðamenning, hvernig heilbrigð og jákvæð vinnustaðamenning stuðlar að öryggi og vellíðan starfsfólks og hefur jákvæð áhrif á árangur vinnustaða. Árið 2019 kom ég aftur á Landspítalann og réði mig þá sem verkefnastjóra á menntadeildinni og ári seinna 2020 var árið sem var tileinkað hjúkrunarfræðingum og ljósmæðrum á vegum WHO. Landspítalinn tók þátt í því átaki sem hafði það að markmiði að efla leiðtoga í hjúkrun. Við settum á fót leiðtogaþjálfun fyrir unga hjúkrunarfræðinga og ljósmæður sem stóð undir formerkjum Nightingale Challenge og stóð yfir í eitt ár. Þegar því lauk var haldið áfram að bjóða upp á leiðtogaþjálfun á Landspítalanum fyrir þennan hóp en með aðeins öðru sniði.“
Hulda leiddi þetta átak og segir það hafa verið mjög gefandi og lærdómsríkt. Hún segir að klíníkin hafi fljótlega togað í sig þegar hún hóf aftur störf á Landspítalanum og að hún hafi flakkaði á milli deilda og þannig kynnst bæði legudeildum og göngudeildarstarfsemi samhliða vinnu sinni á menntadeildinni.
Fjölbreytt og áhugaverð hjúkrun
Þú tókst við starfi hjúkrunardeildarstjóra haustið 2022 en hvar kynntist þú fyrst göngudeildarstarfsemi? „Ég kynntist henni fyrst þegar ég vann á göngudeild innkirtla- og gigtarsjúkdóma og fannst sú starfsemi strax mjög áhugaverð og spennandi. Á göngudeild kynnist maður sjúklingum á annan hátt og mætir þeim á þeirra forsendum með sinn sjúkdóm. Á göngudeild eru líka gríðarleg tækifæri í að efla þjónustu við sjúklinga til þess að þeir nái að vera sem mest sjálfbjarga með sinn sjúkdóm. Þegar starf deildarstjóra á göngudeild þvagfæraskurðlækninga var auglýst var ég ekki lengi að hugsa mig. Ég hafði ekki sérþekkingu á hjúkrun sjúklinga með þvagfæravandamál en eftir því sem ég hef kynnst þessari hjúkrun betur finnst mér mjög gefandi að hjúkra þessum hópi sjúklinga því hjúkrunin er fjölbreytt og áhugaverð.“

Hulda segir deildarstjórastarfið skemmtilegt, krefjandi og gefandi. „Ég er alltaf með umbætur í huga, hvernig við getum bætt starfsemina í þágu sjúklinganna og oft geta litlar breytingar bætt heilmikið,“ segir hún og bætir við að hún hlakki alltaf til að mæta í vinnuna því á deildinni starfi frábært fólk sem stundi vinnu sína af mikilli fagmennsku og heilindum.
Leggur ríka áherslu á opin og hlý samskipti
Hverjar eru helstu áherslur þínar í starfi deildarstjóra?
„Ég legg mikla áherslu á að við vinnum ávallt út frá þörfum sjúklingsins, að hann fái þá bestu mögulegu þjónustu til að ná bata eða lifa sem best með sinn sjúkdóm. Skipulag og skilvirkni skiptir miklu máli og einnig að mönnun sé nægileg. Ég legg einnig ríka áherslu á opin og hlý samskipti við okkar skjólstæðinga og á milli starfsfólks. Það er gríðarlega mikilvægt að okkur líði vel saman og það skilar sér í okkar starfi.
Hér vinna framúrskarandi hjúkrunarfræðingar með mikla reynslu sem ég ber mikið traust til. Ég legg áherslu á að þeir njóti sjálfstæðis í starfi samkvæmt verkferlum og innan þess ramma sem starfið býður upp á og samkvæmt gildum Landspítalans. Við erum mjög sérhæfð göngudeild, eina göngudeild þvagfærasjúkdóma á landinu og því erum við leiðtogar í þessari grein. Fagfólk, innan sem utan spítalans, getur leitað til okkar þegar á þarf að halda og fengið ráðleggingar og aðstoð. Það er stefna okkar að miðla þekkingu og færni.“
Einstaklingsmiðuð hjúkrun
Hulda segir að starfsemi göngudeilda sé frábrugðin annarri starfsemi deilda að því leyti að þar fari fram mikil sérhæfing: „Þegar hjúkrunin er orðin svona sérhæfð eins og á minni deild krefst hún dýpri þekkingar og meira innsæis í sjúkdóminn sem eykur svo gæði hjúkrunarstarfsins að mínu mati,“ segir hún og bætir við að meðferð á göngudeildum hafi ávallt það að markmiði að hjálpa sjúklingum að vera sem mest sjálfbjarga með sinn sjúkdóm í sínu daglega lífi. „Við mætum sjúklingunum á þeirra forsendum og veitum ávallt einstaklingsmiðaða hjúkrun. Við útskrift setjum við mál viðkomandi í traustan farveg og tryggjum eftirfylgni. Heimaþjónusta til sjúklinga er tryggð og auk þess er mikilvægt að þeir fái réttar hjúkrunarvörur til að hafa heima hjá sér fyrir alla umhirðu. Við erum með bókanir þannig að sjúklingar koma á deildina í bókaða tíma, ýmist hjá hjúkrunarfræðingi eða lækni.“
Hulda bætir við að starfsemin á göngudeildinni fari fram á dagvinnutíma á virkum dögum sem hafi jákvæð áhrif á jafnvægi milli vinnu og einkalífs hjá starfsfólki deildarinnar.
Oft má lítið út af bregða til að mönnun sé fullnægjandi
Aðspurð um helstu áskoranir í starfi segir hún að sjúklingum fari fjölgandi og sífellt fleiri þurfi á þjónustu deildarinnar að halda og það sé ákveðin áskorun að halda uppi miklum gæðum og tryggja öryggi í þjónustunni. Hún leggur áherslu á að það skipti miklu máli að skipulagið sé gott og að mönnun sé fullnægjandi.
„Núna erum við með vel mannaða deild en oft má lítið út af bregða. Mér finnst mikilvægt að starfsfólkinu líði vel í sínu starfi og gangi hér sátt út eftir hvern vinnudag. Ég legg því ríka áherslu á að við hjálpum hvert öðru og bjóðum og biðjum um aðstoð þegar álagið er þannig,“ segir hún og þá förum við út í aðeins aðra sálma.

Hvernig telur þú að hægt sé að efla sérhæfingu og auka þekkingu starfsfólks á deildinni?
„Sérhæfing okkar á spítalanum er að einhverju leyti þekkt og deildir leita til okkar með ýmis mál tengdum hjúkrun þessara sjúklinga. Við erum ávallt reiðubúin að aðstoða og fá sjúklingana til okkar eða koma inn á deildir og veita aðstoð. Það er hægt að mennta sig í hjúkrun þvagfærasjúklinga og er einn hjúkrunarfræðingur hér á deildinni með slíka menntun frá Svíþjóð. Um er að ræða tveggja ára fjarnám með einhverri viðveru á staðnum en þetta nám er m.a. kennt í Svíþjóð og Noregi. Ég veit að aðrir hjúkrunarfræðingar á deildinni eru að íhuga þetta nám. Auk þess eru hjúkrunarfræðingarnir duglegir og áhugasamir um að endurmennta sig og sækja ráðstefnur og fundi erlendis. Við eigum líka gott samstarf við fagráð þvagfærahjúkrunarfræðinga á Norðurlöndum,“ útskýrir hún brosandi.
Öflugar göngudeildir geta bætt flæðið í gegnum spítalann
Að lokum, með hvaða hætti er hægt að efla starfsemi göngudeilda og hverju myndi það breyta, að þínu mati, fyrir Landspítala að hafa öflugri göngudeildir?
„Það þarf að kynna betur alla starfsemi göngudeilda því það eru margir sem vita ekki hvað þar fer fram, það er t.d. hægt að gera með því að fá nemendur í meira mæli til okkar. Við erum nýbyrjuð að taka á móti hjúkrunarnemum sem er að reynast mjög vel. Auk þess þurfa göngudeildir, dag- og legudeildir að vinna meira saman í gegnum allt ferli sjúklingsins, frá innlögn til útskriftar.
Með öflugum göngudeildum er hægt að styrkja flæði í gegnum spítalann þannig að sjúklingar þurfi að liggja sem minnst þar inni. Flæðið þarf að vera markvisst með skýru meðferðar- og útskriftarplani þannig að hægt sé að útskrifa sjúklinginn á sem öruggastan og farsælastan hátt. Göngudeild þvagfærasjúkdóma er einstök með sinni öflugu starfsemi og framþróun í meðferð sem hefur leitt til þess að legudögum hefur fækkað. Sem dæmi má nefna sjúklinga með góðkynja stækkun á blöðruhálskirtli sem fara í aðgerð á skurðstofu þar sem kirtillinn er heflaður eða skrapaður og útskrifast svo samdægurs.
Áður fyrr lágu þessir sjúklingar inni í nokkra daga með sískol. Nýlega tókum við upp nýja meðferð með svokallaðri Rezum tækni fyrir þennan sjúklingahóp, sem eingöngu fer fram á göngudeildinni og getur komið í staðinn fyrir aðgerðir á skurðstofum eða létt þeim biðina á biðlistanum. Heitri vatnsgufu er sprautað inn í blöðruhálskirtilinn í staðbundinni deyfingu, hann skreppur saman og bætir þannig þvagflæðið.
Þessi hópur er fjölmennur og því langur biðlisti eftir aðgerð og sjúklingarnir oft með töluverða þvagtregðu. Þeir eru á töflumeðferð, sumir þurfa ýmist að hafa inniliggjandi þvaglegg eða tappa af sér heima, eru að fá sýkingar eða önnur vandamál sem þarf að meðhöndla. Hægt er að framkvæma nokkrar slíkar meðferðir yfir daginn. Þetta eru mun meiri þægindi fyrir sjúklinginn og hefur færri aukaverkanir en áður. Þetta er einnig hagkvæmara í rekstri fyrir spítalann og hægt er að forgangsraða betur aðgerðum inn á skurðstofu sem mega ekki bíða lengi. Þetta eru spennandi tímar með aukinni fjölbreytni í meðferðarúrræðum fyrir þennan sjúklingahóp,“ segir Hulda að endingu.